Laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 14:31:20 (3432)

1999-02-10 14:31:20# 123. lþ. 63.3 fundur 467. mál: #A laun grunnskólakennara og fjármál sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að taka þetta mál upp í fyrirspurn. Tilvitnuð ummæli hæstv. félmrh. um kröfuhörku kennara voru ekki aðeins óskynsamleg og ósmekkleg heldur fyrst og fremst ósanngjörn og lítilsvirðandi í garð kennara vegna þess að þau gáfu það svo sannarlega til kynna að honum þættu kröfur kennara langt umfram tilefni.

Það er að sönnu hárrétt að kennarar hafa verið einarðir í kjarabaráttu sinni en það mátti öllum vera ljóst að þeir mundu halda áfram að sækja rétt sinn til sómasamlegra launa af fullri hörku í trausti þess að forsvarsmenn sveitarfélaga hefðu ríkari skilning en ríkisvaldið hefur sýnt á réttmæti þess að viðurkenna í verki mikilvægi kennarastarfsins og að þau mundu sýna skilning á breyttum aðstæðum þar sem kennarar hafa nú miklum mun minni möguleika til þess að auka heildarlaun sín en þeir höfðu áður. Það skiptir mjög miklu máli í þessu samhengi. Hæstv. félmrh. væri maður að meiri ef hann bæðist hreinlega afsökunar á ummælum sínum, sem ég veit að hafa komið mjög illa við kennara og reitt þá til reiði.