Atvinnumál á Breiðdalsvík

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:32:56 (3577)

1999-02-15 15:32:56# 123. lþ. 65.1 fundur 249#B atvinnumál á Breiðdalsvík# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hefði beint máli mín til hæstv. forsrh. hefði hann verið viðlátinn en fannst nærtækt að spyrja hæstv. sjútvrh. um þetta efni. Ég vil því bæta við fyrispurn um það hvort ríkisstjórnin hafi ekki rætt við sitt borð um þau gífurlegu vandamál sem fólk í þessu byggðarlagi á við að glíma. Sveitarstjórnin hefur beitt sér fyrir endurreisn útgerðarfyrirtækis en mikið vantar á að traustur grundvöllur sé fundinn. Og það er ekki sjáanlegt, eða ég fæ a.m.k. ekki séð, að heima fyrir nái menn saman því fjármagni sem nauðsynlegt er til að tryggja hráefni á næstu árum til þess að öruggt sé að þarna verði haldið uppi fiskvinnslu.

Því vil ég hvetja hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnina alla til að taka á þessu máli fyrr en síðar, því að ekki þarf að eyða mörgum orðum að því hvað það þýðir fyrir aðstæður í svona byggðarlagi ef ekki er fyrirsjáanlegt að hægt verði að halda uppi sæmilega traustri atvinnu.