Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 14:58:18 (3747)

1999-02-17 14:58:18# 123. lþ. 68.7 fundur 426. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum og árum, má segja, hafa af og til komið upp hugmyndir um stöðu Hæstaréttar, t.d. hvernig best væri að standa að því að velja hæstaréttardómara. Ég flutti fyrir nokkrum árum frv. um það efni, þ.e. um breytingar á lögum um Hæstarétt Íslands, þar sem gert var ráð fyrir að Alþingi staðfesti tillögur dómsmrh. um skipun hæstaréttardómara.

Til viðbótar við þetta hafa komið fram hugmyndir, m.a. í framhaldi af svokölluðum kvótadómi sem felldur var fyrir nokkru, um að staða Hæstaréttar væri kannski að nokkru breytt. Þó að ég vilji ekki segja að Hæstiréttur hafi fellt pólitískan úrskurð í því máli, því að það væri ósanngjarnt, þá er ekki hægt að neita því að hann felldi úrskurð sem hafði mikil áhrif á pólitíska umræðu. Mér finnst ekkert óeðlilegt að í framhaldi af því velti menn sérstaklega fyrir sér stöðu Hæstaréttar og hæstaréttardómara.

Í þriðja lagi hefur því oft verið hreyft á Alþingi, líka í sambandi við þennan svokallaða kvótadóm, hvort Hæstiréttur eigi að fá með sérstökum laga- og/eða stjórnarskrár\-ákvæðum það verkefni að fjalla um stjórnarskráratriði og það hvernig stjórnarskrárákvæði eru framkvæmd af stjórnvöldum, hvort sem það er ríkisstjórn eða Alþingi.

[15:00]

Í sumum löndum hafa verið settir upp stjórnlagadómstólar. Ég hef satt að segja alltaf verið andvígur slíku, fyrst og fremst vegna þess að ég hef talið að Alþingi eigi að vera endanlegt vald í málum af því tagi sem hér er um að ræða og væri um að ræða ef við hefðum stjórnlagadómstól. Ég hef líka í langhundum sem ég skrifaði í dagblaðið Dag, tveimur langhundum, hreyft þeirri hugmynd að til verði stjórnlagastofnun eða stjórnlaganefnd sem fái álitamál til umsagnar. Ég held að ef sú stofnun væri nógu vönduð í vinnubrögðum sínum mundi hún smátt og smátt hafa mikil áhrif. Með öðrum orðum, í þessari fyrirspurn er verið að hreyfa almennum spurningum um stöðu Hæstaréttar, ekki aðeins út frá því efni sem vitnað er til í fyrirspurninni sjálfri, heldur líka út frá þeirri umræðu sem fram hefur farið um stöðu Hæstaréttar á undanförnum mánuðum.