Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:50:56 (3998)

1999-02-25 10:50:56# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:50]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir að ákvörðun um þetta stóra mál er tekin án þess að umræða fari fram í utanrmn. þingsins um það áður en ákvörðun er tekin. Ég held að þetta hljóti að vera einsdæmi um langa hríð a.m.k. að svo stór ákvörðun sé tekin án samráðs við utanrmn. þingsins. Allir hafa heyrt hvernig samskiptin eru við umhvn. og ljóst er að sjónarmið umhvrh. hafa ekki komist langt í málinu. Það blasir við, enda kýs hann að vera í fríi úti í löndum á þeim tíma sem ákvörðunin er hér til umræðu.

Ég tel, virðulegur forseti, að þó að þetta mál blandist auðvitað inn í þá umræðu um utanríkismál sem er á dagskrá þessa fundar, þá sé óhjákvæmilegt að þingið ræði það sérstaklega að viðstöddum ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem þetta mál varðar mest og helst ríkisstjórninni allri. Ég hef þegar komið þeim óskum á framfæri við hæstv. forseta að slík umræða geti farið fram og þá væntanlega eftir helgi eða í samráði við hæstv. forseta, og að fyrir utan hæstv. utanrrh., sem telur sig valdamikinn í þessu máli og hefur formlega aðild að því, séu viðstaddir hæstv. forsrh., hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. sem áreiðanlega hefur nokkuð um þetta mál að segja. Ég vil því ítreka það sjónarmið, þó að skaðinn sé skeður með þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið, að Alþingi getur enn lýst vilja sínum og hið minnsta er að hér fari fram skipuleg umræða að viðstaddri ríkisstjórninni sem tekur ákvörðunina.