Beiðni um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:34:53 (4476)

1999-03-09 10:34:53# 123. lþ. 82.91 fundur 333#B beiðni um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:34]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að taka málið upp hér og ég hlýt að gagnrýna þá meðferð sem beiðni hennar um utandagskrárumræðu um málið hefur fengið hjá hæstv. ráðherrum. Sannarlega hefði verið ástæða til að ræða utan dagskrár það ástand sem skapast þegar löggæslu er ábótavant sem er því miður víða raunin út um landið. Við þekkjum það mætavel sem sitjum í hv. fjárln. að löggæslumálin eru hreinlega í hálfgerðu uppnámi víða um land og hvarvetna þörf úrbóta og sá þáttur er nánast fastur liður í dagskrá þeirra fjölmörgu fulltrúa sveitarstjórna af öllu landinu sem koma á fund fjárln. Við getum rétt ímyndað okkur álagið á þá einn eða tvo löggæslumenn sem eiga að sinna allri löggæslu á stóru svæði og það öryggisleysi sem fólk skynjar við slíkar aðstæður. Þess vegna hefði sannarlega verið ástæða til að ræða þetta mál eðlilega utan dagskrár og ég tek undir gagnrýni hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur á þá meðferð sem beiðni hennar hefur fengið hjá þinginu.