Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 12:28:46 (4944)

1999-03-11 12:28:46# 123. lþ. 85.22 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[12:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. samgn. og stjórn þingsins hefur sett þingheim í nokkurn vanda. Hv. samgn. afgreiðir þetta mál á ákaflega sérkennilegan hátt þar sem hún leggur fram tillögu að breytingum sem er í raun algerlega ný tillaga. En sú tillaga er út af fyrir sig góð og reyndar miklu betri en hin en hún er bara um annað mál.

Upphaflega tillagan er ósköp einfaldlega kosningaplagg eins og við höfum heyrt í umræðunni og þessar tvær tillögur eiga í rauninni ekkert sameiginlegt annað en það að orðið jarðgöng kemur fyrir í báðum tillögunum. Afgreiðsla samgn. er að mínu mati formlega röng og ég mótmæli þessari málsmeðferð en tillagan er efnislega góð og þess vegna hlýt ég að samþykkja hana.