Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 15:50:00 (251)

1998-10-08 15:50:00# 123. lþ. 6.6 fundur 12. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[15:50]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. umhvrh. og starfandi iðnrh. hafi þessar upplýsingar ekki á hraðbergi. Hins vegar er æskilegt að fram komi gagnvart Alþingi fyrr en seinna hvort áformað er að taka málið upp að nýju á þessu þingi. Kannski gerði ég rétt í því að bera fram formlega fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um málið svo það liggi fyrir.

Eins og fram kom hjá hæstv. umhvrh. þá er hér stórt mál á ferðinni og ég fullyrði að þetta mál varðar mjög hagsmuni Íslendinga. Við þurfum að beita okkur til verndar hagsmunum okkar í þessu máli. Við verðum að átta okkur á framtíðarhagsmunum í sambandi við orkumálin. Þeir tengjast því sem við ræðum hér. Við megum ekki láta binda orkumál okkar í framandi viðjar. Við getum eftir sem áður tekið okkar eigin ákvarðanir og þurfa þær helst að vera sem best ráðnar. Við ættum ekki að þurfa að lúta leiðsögn að utan um þau efni. En þetta mun væntanlega skýrast.

Ég vil svo aðeins að endingu þakka fyrir þessa umræðu og vænti þess að hv. iðnn. eigi eftir að fara ofan í saumana á þessum málum. Ég kalla eftir hugmyndum stjórnvalda um mótun langtímastefnu. Við þurfum að taka saman spilin til þess að sem fyrst megi leggja þann kapal. Á því er full þörf svo spá megi fram í tímann í þessum málum og finna skynsamlegar forsendur fyrir góðum ákvörðunum strax í nútímanum.