Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:35:46 (429)

1998-10-15 13:35:46# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil staðfesta að forseti getur ekki brugðist öðruvísi við en hann hefur gert. Náttúrlega er það alveg ljóst og það viðurkenna það allir.

Ég vil láta það koma fram að ég harma afstöðu hæstv. heilbrrh. Ég tel hana mjög sérkennilega og man ekki eftir að ráðherra hafi áður brugðist svona við. Ég er sannfærður um að það hefur tvo afgerandi kosti að ræða málin saman. Í fyrsta lagi yrði umræðan a.m.k. eins málefnaleg ef ekki málefnalegri, vegna þess að þá hefðu menn málin öll undir í senn. Í öðru lagi, það sem skiptir kannski enn meira máli, gæti umræðan gengið greiðar fyrir sig. Ég hélt að það væri keppikefli þeirra sem flytja mál, a.m.k. er það venjulega keppikefli hæstvirtra ráðherra, að umræða gangi greiðlega fyrir sig.

Ég vil upplýsa það hér að formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar buðu upp á það í hádeginu að samið yrði um umræðulokin með tilteknum hætti. Reynsla mín, eftir að hafa verið hér um alllangt skeið, er sú að ráðherrar séu nánast alltaf fegnir þegar þeir heyra tilboð af því tagi. Það var ekki í þessu tilviki. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar hjá hæstv. ráðherra að bregðast svona við. Ég reikna með að hæstv. heilbrrh. telji að hún sé með mikið mál, þyngra og stærra en þau sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið að flytja, að hennar mál hafi fengið mikla umræðu í þjóðfélaginu og eigi því rétt á því að fá sviðsljósið eitt út af fyrir sig.

Í því í sjálfu sér er mikið til í því. Veruleikinn er hins vegar sá að þingmenn eiga rétt á því að flytja þau frumvörp sem þeim sýnist og hvaða tillögur sem þeim sýnist um mál af þessu tagi. Enginn ráðherra getur stöðvað slíkt. Þess vegna fer ég fram á það, herra forseti, að hæstv. ráðherra íhugi mjög alvarlega undir þessari umræðu að falla frá andmælum sínum þannig að umræðan geti hafist um öll málin í senn og samið verði milli flokkanna hér í þinginu um umræðuna í heild.