Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:12:58 (463)

1998-10-15 17:12:58# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist að hagur ríkisstjórnarinnar hafi nokkuð vænkast eftir að ég heyrði í formanni og varaformanni heilbr.- og trn. í sambandi við meginviðhorf til þessa máls. Mér sýnist að það fari nokkuð eftir sem stendur í greininni í Magazin, sem ber heitið ,,Íslendingar --- tilraunamýsnar okkar``, að Alþfl. sveiflist milli tískuhrifningar og lýðræðislegra fyrirvara. Íhaldsmenn hafi hins vegar ákveðið fyrst um sinn að fylgja forsrh. sínum þrátt fyrir nokkrar siðferðilegar áhyggjur.

En varðandi miðlægan gagnagrunn og tölvunefnd, leyfi ég mér að vitna til varaformanns tölvunefndar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ég hef stundum líkt þessu [þ.e. mismun milli dreifðra gagnagrunna og miðlægs] við sprengiefni. Maður geymir það ekki allt í kjallaranum hjá sér, heldur dreifir því. Með þeim hætti verður bara smáhvellur þótt slys hendi en ef það er allt á einum stað verður hvellurinn þvílíkur að húsið hrynur og afleiðingarnar verða eftir því``.