Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:38:26 (488)

1998-10-15 18:38:26# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Erindi mitt hingað er ekki ósvipað því sem hv. þm. átti hér í andsvari áðan, þ.e. að ræða um persónuverndina. Ég held að menn megi ekki horfa á þetta mál aðeins út frá orðanna hljóðan í þessum samþykktum, að sjálfsögðu ber að fara í gegnum þær mjög vandlega og margt þar varðar þetta mál og rekst á við texta frv. Ég fer ekki út í það hér en ég vek athygli á þeirri ályktun sem send var hæstv. dómsmrh. þann 24. september um þessi efni, frá forstöðumönnum eða fulltrúum á sviði gagnaverndar í um 14 ríkjum eða svo. Þeir lýsa þungum áhyggjum sínum út af þessu máli. Þeir segja t.d., með leyfi forseta:

,,Skilgreiningin á persónuupplýsingum verður að vera mjög skýr og aðferðin við að tryggja nafnleynd verður að vera traust. Í fámennu landi er líklegt að af erfðafræðilegum upplýsingum sé unnt að rekja ættlegg viðkomandi einstaklings og þannig komast að því um hvern er að ræða. Notkun dulkóða til að leyna því um hvern gögnin eru er a.m.k. ekki nægileg til að tryggja nafnleynd.``

Svo Ross Anderson sé nefndur til sögunnar, þá segir hann í viðtali við Morgunblaðið þann 13. október að verulegar líkur séu á því að einhverjir starfsmenn muni freistast til að nota upplýsingarnar í ólöglegum tilgangi og orðrétt: ,,Ég var í mörg ár öryggisráðgjafi stórs bresks banka. Á hverju ári rákum við um 1% starfsfólksins vegna þess að það hafði stolið peningum. Það er aldrei hægt að sjá fyrir hvaða fólk muni gera það. Það getur komið til vegna einhverra vandamála sem koma upp í lífi fólks til dæmis.``

Þarna er getið um margt fleira. Það var hárrétt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan að margir á nefndu málþingi höfðu uppi fullyrðingar af því tagi sem hann minntist á.