Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:42:37 (490)

1998-10-15 18:42:37# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:42]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mitt ráð til hv. þingnefndar og hæstv. ráðherra --- nú verður málið í höndum þingnefndar --- er að fengnir verði til aðilar á vegum Evrópuráðsins og á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fyrir utan þá sem leggja orð í belg hér heima. Þeir þyrftu að veita skriflegt álit til Alþingis um þessi mál til þingnefndarinnar og það eru auðvitað þau vinnubrögð sem við ættum hafa uppi í þessu máli. Það ætti ekki að vera ágreiningur um að viðhafa slíkar aðferðir.

Í sambandi við það hvort upplýsingar í dreifðum gagnagrunnum eða þær sem liggja fyrir í núverandi sjúkraskrám séu jafnvel verr komnar en í miðlægum gagnagrunni, ég geri ekki mikið með slíkar staðhæfingar. Telji menn að meðferð persónulegra gagna, sjúkraskráa o.s.frv. sé áfátt þá er verkefnið að tryggja vörslu þeirra og bæta þar úr en ekki að taka þá áhættu sem hér er stefnt að, að safna þessu í miðlægan gagnagrunn þar sem ekki er skilgreint af hálfu löggjafans hvað fara á inn í grunninn né hvernig með skuli fara.