Framkvæmd fjármagnstekjuskatts

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 10:44:08 (1315)

1998-11-19 10:44:08# 123. lþ. 27.91 fundur 110#B framkvæmd fjármagnstekjuskatts# (umræður utan dagskrár), RA
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 123. lþ.

[10:44]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það var einkum þrennt sem við stjórnarandstæðingar gagnrýndum þegar fjármagnstekjuskattur var tekinn upp: Í fyrsta lagi að ekki skyldi ákveðið sérstakt frítekjumark þannig að skatturinn væri ekki lagður á lágar fjármagnstekjur og ekki slegið á sparnaðarviðleitni þegar um lágar upphæðir væri að ræða. Skatturinn leggst jafnt á lágar tekjur sem háar tekjur og það teljum við óskynsamlegt.

Í öðru lagi gagnrýndum við að skattprósentan var ákveðin aðeins 10% þó að launatekjur séu skattlagðar 40%. Auðvitað á að skattleggja fjármagnstekjur nákvæmlega eins og aðrar tekjur í þjóðfélaginu hvort sem um er að ræða að þeirra sé aflað með launavinnu eða vegna arðs af fjármagni.

[10:45]

Í þriðja lagi gagnrýndum við að skatturinn skyldi lækkaður á öðrum arðgreiðslum. Skattprósentan á arðgreiðslum, t.d. af hlutahréfum, var liðlega 40%, en hefur verið lækkuð með fjármagnstekjuskattinum niður í 10% og það er auðvitað afar ranglátt.

Ég held að kjarni málsins sé sá að Ísland er mikil skattaparadís fyrir fjármagnseigendur. Hér eru miklu lægri fjármagnstekjuskattar en í flestum nálægum löndum og gæti verið hollt að horfa á hvernig þetta er t.d. í ríkjum Evrópusambandsins. Ég held að það þurfi að endurskoða eins og margt annað í okkar skattkerfi. Það þarf að endurskoða skattlagningu aldraðra og það þarf að endurskoða skattlagningu á félög. Skattlagning á félög er lægri en skattlagning á fyrirtæki sem rekin eru í eigin nafni einstaklinga og þar er ósamræmi sem verður að leiðrétta.