Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:30:24 (1739)

1998-12-07 17:30:24# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:30]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Afstaða formanns heilbr.- og trn. í þessu máli hefur frá því að frv. um þetta kom fyrst fram sl. vor valdið mér miklum vonbrigðum og áhyggjum vegna þess að hv. þm. hefur auðvitað sem formaður nefndarinnar sterka stöðu. Ég hef ekki áttað mig á því af hverju í ósköpunum hv. þm. hefur staðið að þessu máli eins og raun ber vitni, t.d. hvernig á því stendur að málið er að því er virðist afgreitt út úr nefndinni í bærilegum friði. Mér hefur fundist að hv. þm. sveiflist í þessu máli eins og strá í vindi og fóti sig engan veginn.

Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að spyrja hv. þm. sérstaklega um tvö atriði. Það er í sambandi við persónuverndina sem hv. þm. virðist ekki gera mikið með, þ.e. spurninguna um dulkóðun eða ekki dulkóðun, það séu aðrar aðgangshindranir eins og hv. þm. segir. En hvernig metur hv. formaður heilbr.- og trn., virðulegur forseti, niðurstöðu tölvunefndar í umsögn til heilbr.- og trn. 26. október þar sem nefndin segir eftir að hafa rökstutt mál sitt, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af öllu framanrituðu telur tölvunefnd ekki að fái staðist sú fullyrðing að í grunninum verði ópersónugreinanlegar heilsufarsupplýsingar. Er því lagt til að því orði verði sleppt úr ákvæði 1. gr.``

Þar sem tölvunefnd færir sem sagt rök fyrir sínum viðhorfum.

Síðan vil ég spyrja hv. formann heilbr.- og trn.: Hvernig stendur á því að formaðurinn, virðulegur forseti, beitir sér ekki fyrir því að aflað sé álits færra alþjóðlegra stofnana á þessu sviði eða vísindamanna til þess að draga fram viðhorf úr alþjóðasamfélaginu sem hefur gagnrýnt þetta mál harðlega? Það heldur uppi harðri gagnrýni sem við eigum auðvitað að hlusta á og reyna að meta hvað veldur því að formaður heilbr.- og trn. beitir sér ekki fyrir því, beitir ekki valdi sínu og krafti til þess að fá slíkar álitsgerðir.