Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:08:47 (2364)

1998-12-15 21:08:47# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:08]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar aðaltrúnaðarmaður hæstv. forsrh. í heilbr.- og trn. kemur hér og notar tíma sinn til þess að ræða um allt aðra hluti en eru til umræðu og ætlar að halda því fram að erfðafræðisöfn, eins og hv. þm. réttilega orðaði það í ræðu sinni, stangist á við lög og heimildir og séu eitthvað sambærilegt við það sem hér um ræðir. Ég er ekki að tala um þær upplýsingar sem hafa verið heimilaðar af tölvunefnd fram að þessu. Ég er að tala um erfðafræðigrunna sem stendur til að samkeyra við miðlægan gagnagrunn og það eftir einhverju ferli þar sem ekki verður tekin afstaða hverju sinni til þess sem fram fer. Ég dreg í efa að þúsundir sjúklinga --- ég hef ekki neinar staðfestar tölur um það --- hafi veitt samþykki sitt fyrir slíkum óskilgreindum samkeyrslum. Það kæmi mér mjög á óvart. Þetta þarf að rannsaka. En ég efast um það og ég held að lagaheimildir skorti alveg í raun fyrir gagnagrunnum með erfðafræðiupplýsingum í því samhengi sem hér um ræðir.