Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:54:10 (2445)

1998-12-17 10:54:10# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Leyfist mér að blanda mér í þennan ágæta kór þingmanna Reykjaneskjördæmis ásamt ráðherra?

Ég tel að þetta mál sé ekki síst áminning um að það vantar að móta orkustefnu í landinu eða endurskoða margt sem snýr að okkar orkumálum. Við höfum lagt hér fyrir tillögu, þingflokkur óháðra, um mótun sjálfbærrar orkustefnu sem er mjög brýnt verkefni, en jafnnauðsynlegt er það að á líðandi stund sé hugað að stöðunni. Mér sýnist það sem hér er uppi vera dæmigert um það að einstakir aðilar utan Landsvirkjunar eru að leitast við að þróa sína kosti, óska eftir því að fá að virkja en vilja kannski ekki aðeins virkja fyrir sig heldur virkja stærra og komast inn á markað sem Landsvirkjun hefur haft. Ég held að ákveðið upphaf að þessu megi sjá í virkjun á Nesjavöllum á vegum Reykjavíkurborgar þar sem ég tel að hafi verið rasað um ráð fram. Þá hefði verið fullt tilefni til þess að skoða stöðu mála og hvernig ætti að halda áfram í þessum efnum. Það var ekki gert svo sem þurft hefði. Og það er auðvitað í þetta fordæmi sem Hitaveita Suðurnesja er að vísa með sínu erindi og hefur nokkuð til síns mál að mínu mati. En jafnframt verður auðvitað að gæta þess að menn séu ekki að fjárfesta og fjárfesta í virkjunum óháð markaði. Við höfum gert alveg nóg af því á liðnum tíma og þó að tímabundinn skortur sé á afgangsorku fyrir stóriðjuver þá eru það engin rök. Stóriðjuver verða að búa við það ef þau kaupa afgangsorku að það þurfi að skerða hana.

Það þarf að fara yfir þessi mál. Það þarf að endurskoða lög. Frjálsræðið eitt leysir engan vanda. Við verðum að gæta þess að við ætlum að hafa verðjöfnun í landinu en það er m.a. undan henni sem menn eru að reyna að komast, bæði Reykjavíkurborg og mér sýnist Hitaveita Suðurnesja líka. Sú forsenda verður að halda að allir taki á í sambandi við verðjöfnun í landinu.