Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:42:26 (2471)

1998-12-17 11:42:26# 123. lþ. 44.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:42]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er verið að lögfesta er skólabókardæmi um það hvernig ekki á að standa að lagasetningu. Fyrirtæki sem afhenda á einkarétt á heilsufars- og erfðaupplýsingum íslensku þjóðarinnar mótaði frv. í upphafi og fulltrúar þess hafa verið aðaltalsmenn málsins gagnvart almenningi. Með þessu frv. eru virt að vettugi grundvallarréttindi almennings, mannhelgi og persónuvernd. Réttur vísindamanna til rannsókna verður takmarkaður samkvæmt frv. og þeir háðir duttlungum og hagsmunum rekstrarleyfishafa. Hér er verið að innleiða ólög sem þrengja að frelsi til rannsókna, ganga gegn grundvallarrétti einstaklinga og varpa dimmum skugga á nafn Íslands á alþjóðavettvangi. Ég segi nei og aftur nei við þessari gerræðislegu lagasetningu.