Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 13 — 13. mál.



Frumvarp til laga



um gæludýrahald.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



1. gr.


    Markmið laga þessara er að lögfesta reglur um gæludýrahald í þéttbýli, kveða á um réttar­stöðu eigenda þeirra og annarra og veita sveitarfélögum skýrar heimildir til að setja nánari reglur í samþykktir um gæludýrahald.

2. gr.


    Með gæludýrum samkvæmt lögum þessum er átt við hunda og ketti og önnur þau dýr sem einstaklingar halda sér til afþreyingar og hleypt er út undir bert loft um lengri eða skemmri tíma. Einnig teljast til gæludýra samkvæmt lögunum dýr af öðrum tegundum, telji heilbrigð­isyfirvöld að þau geti valdið heilsutjóni eða viðlíka ama og af þeim orsökum sé rökstudd ástæða til afskipta af þeim í almannaþágu. Lögin taka ekki til búfjárhalds í þéttbýli, sbr. lög nr. 46/1991.
    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða með samþykkt, sem staðfest skal af umhverfisráðuneyti, að takmarka eða banna að haldnar séu tilteknar tegundir gæludýra í sveitarfélagi eða setja um það nánari skilyrði.

3. gr.


    Sveitarstjórn er heimilt að halda skrá yfir gæludýr í sveitarfélaginu samkvæmt nánari ákvæðum í samþykkt og skal eiganda gæludýrs eða forráðamanni eiganda sem er undir 18 ára aldri skylt að gera grein fyrir gæludýrum sem hlutaðeigandi heldur, ef þess er krafist.

4. gr.


    Eigendur gæludýra skulu gæta þess að þau gangi ekki á annarra manna lendum og sjá til þess að dýrin valdi öðrum hvorki óþægindum né tjóni. Eiganda gæludýrs er skylt að bæta það tjón er dýrið veldur. Ef tjónþoli hefur á einhvern hátt stuðlað að því að tjón varð er heimilt að lækka bætur eða láta þær niður falla. Dýrin skulu auðkennd eða merkt eiganda sínum í samræmi við nánari ákvæði í samþykkt sveitarfélags.

5. gr.


    Heimilt er að handsama gæludýr sem ganga laus utan lóðarmarka eiganda í þéttbýli.
    Eigendur dýranna skulu greiða kostnað við töku þeirra og geymslu og skal sveitarstjórn heimilt að halda þeim uns lögð hefur verið fram trygging fyrir greiðslu kostnaðar.
     Hafi dýrsins ekki verið vitjað innan einnar viku skal því ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, það selt fyrir áföllnum kostnaði eða aflífað.

6. gr.


    Brot gegn lögum þessum og samþykktum sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum og með mál á grundvelli þeirra skal farið að hætti opinberra mála.

7. gr.


    Samþykktir um hunda- og kattahald sem settar hafa verið fyrir gildistöku þessara laga halda gildi sínu brjóti þær ekki í bága við lögin.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 120. löggjafarþingi og bárust þá um það fjölmargar umsagnir, m.a. frá Hveragerðisbæ, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Egilsstaðabæ, heilbrigðiseftirliti Austurlandssvæðis, heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðarsvæðis, bæjarstjóran­um á Selfossi, Kattavinafélagi Íslands, Blönduóssbæ, Dalvíkurbæ og Húsavíkurkaupstað. Kom það fram í umsögnum flestra að brýn þörf væri fyrir lagasetningu um gæludýrahald og var framlagningu frumvarpsins fagnað af mörgum. Einnig var bent á atriði sem betur mættu fara og hefur verið tekið tillit til þeirra athugasemda, en þær lutu einkum að 4. og 5. gr. frum­varpsins.
    Á fyrri hluta ársins 1998 voru samþykkt á Alþingi lög um hollustuhætti og mengunarvarn­ir, nr. 7/1998, og er í 4. gr. þeirra að finna heimild fyrir umhverfisráðherra til að setja reglu­gerð um gæludýr. Með þeim lögum voru einnig felld úr gildi lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki. Þar var þannig ekki tekið með beinum hætti á gæludýrahaldi, en flutnings­maður telur mjög nauðsynlegt að skýrar reglur á þessu sviði séu í lögum. Því var frumvarp þetta flutt aftur á síðasta vorþingi og er nú endurflutt.
    Á 117. löggjafarþingi voru samþykkt eftir langan aðdraganda ný heildarlög um dýravernd, lög nr. 15/1994. Lögin fjalla um ábyrgð manna gagnvart öllum dýrum, en þó einkum þeim sem eru í vörslu eða umsjón manna, og taka bæði til dýraeigenda og hins almenna borgara. Segja má að frumvarpið sem hér er flutt sé eðlileg viðbót við löggjöf á þessu sviði. Með því er dreginn almennur lagarammi um gæludýrahald sem sveitarstjórnum er ætlað að fylla út í með samþykktum. Kveðið er á um ábyrgð þeirra sem kjósa að halda gæludýr í þéttbýli, merkingar gæludýra og hversu farið skuli með gæludýr sé settum reglum ekki fylgt.
    Gildissvið frumvarpsins er takmarkað við gæludýr en það hugtak hefur ekki verið skil­greint í lögum og í raun er erfitt að afmarka það með glöggum hætti. Enda þótt hér sé ekki lagt til að lögfest verði ítarleg skilgreining á hugtakinu er frumvarpinu fyrst og fremst ætlað að ná til þeirra dýra sem menn halda í híbýlum sínum en höfð eru þó að einhverju leyti utan dyra. Eðli málsins samkvæmt tekur frumvarpið því í raun einkum til hunda og katta en tak­markast þó ekki við þær tegundir. Ákvæðin geta því t.d. tekið til kanína, sem nokkuð er um í þéttbýli hér á landi, og jafnvel refa, sem dæmi eru um að einstaklingar haldi sér til dægra­dvalar. Frumvarpinu er hins vegar ekki ætlað að taka til gæludýra sem að staðaldri eru haldin í búrum innan húss nema sérstakar ástæður bjóði. Þar geta komið til heilsufarsástæður, smit­sjúkdómar sem bregðast þarf við, ofnæmi og fleira af þeim toga. Þá tekur frumvarpið ekki til hrossahalds í þéttbýli, en um það gilda ákvæði laga nr. 46/1991, um búfjárhald, og sam­þykktir sem gerðar hafa verið á grundvelli þeirra. Að auki hefur hestahald í þéttbýli sérstöðu að því leyti að slíkum tómstundabúskap eru afmörkuð svæði og þá oft utan þéttbýliskjarna sveitarfélaga.
    Fyrir því er löng hefð að fólk í þéttbýli haldi dýr sér til afþreyingar og yndisauka. Hunda hafa sumir hjá sér í öryggisskyni. Í sveitum gegndu hundar, og sumpart einnig kettir, til skamms tíma mikilvægu hlutverki og við búferlaflutninga á mölina fluttu menn þessi dýr oft með sér. Fyrir börn hafa ýmis gæludýr mikið aðdráttarafl og umgengni við þau getur haft já­kvætt uppeldislegt gildi.
    Um leið og þetta er viðurkennt verður ekki fram hjá því litið að ýmsir ókostir fylgja dýra­haldi í þéttbýli og getur það valdið óþægindum og jafnvel haft hættu í för með sér. Árið 1994 voru skráð á Borgarspítalanum alls 375 slys af völdum dýra, þar á meðal bitsár.
    Ekki liggja fyrir heildartölur um gæludýrahald hér á landi, enda er einungis hundahald háð opinberri skráningu. Nefna má til upplýsingar að í Reykjavík voru um það bil 1.135 hundar skráðir á árinu 1995, en á Akureyri voru skráðir hundar um 200 talsins. Ekki er vitað um fjölda annarra gæludýra en ljóst er að kattahald er nokkuð almennt.
    Fá ákvæði er að finna í lögum á þessu sviði. Sveitarfélög hafa á undanförnum áratugum sett sér samþykktir um hundahald og nú á síðari árum einnig um kattahald. Í samþykktunum eru hunda- og kattahaldi settar verulegar skorður og sveitarstjórnum veitt heimild til að tak­marka það og setja fyrir því ýmis almenn skilyrði. Í löndunum í kringum okkur hefur vaknað nokkur umræða á undanförnum árum um reglusetningu um gæludýrahald, þar sem sífellt koma upp fleiri vandamál því tengd. Þannig hafa verið sett sérstök lög um hunda í Dan­mörku, en ekki hafa þar enn verið sett lög um ketti, og í Svíþjóð hafa verið sett í lög ákvæði um eftirlit með hundum og köttum. Þá hafa verið umræður um það innan ESB að setja þurfi sérstakar reglur um gæludýrahald, m.a. um merkingar hunda og katta.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði almenn heimild fyrir sveitarfélög til íhlut­unar um gæludýrahald í þéttbýli. Ekki var talið rétt að festa efni takmarkana í lög nema að litlu leyti heldur er hér lagt til að sveitarfélögum verði í sjálfsvald sett að móta skilyrðin nán­ar. Þó er rétt að benda á það grundvallaratriði að slíkar takmarkanir verða að vera almennar og grundvallaðar á jafnræðissjónarmiðum.
    Undanfarin ár hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir á sjúkdómum sem rekja má til katta- og hundahalds. Má þar nefna rannsókn frá árinu 1996 um katta- og hundasníkjudýr í sand­kössum (sjá fylgiskjal), rannsókn frá árinu 1993 um sníkjudýr í og á köttum í Reykjavík og nágrenni og rannsókn frá árinu 1992 um óværu í köttum. Rétt er að taka fram vegna fylgi­skjals að þegar rætt er um orma í köttum er um að ræða spóluorma. Dýralæknar telja nauð­synlegt að hreinsa bæði hunda og ketti vegna spóluorma a.m.k. árlega og oftar þegar dýrin eru ung.
    Þar sem rætt er um „toxoplasma“ í fylgiskjali er um að ræða tegundina Toxoplasma gondii, sem á íslensku hefur verið kölluð bogfrymill. Það er einfrumungur sem lifir í frumum manna og dýra og hafa ormalyf ekki áhrif á veru hans þar. Helga Finnsdóttir, fagdýralæknir í sjúkdómum hunda og katta, hefur rannsakað bogfrymil í köttum og birtist nýlega eftir hana fróðleg ritgerð um það efni (Helga Finnsdóttir: Tíðni mótefna gegn bogfrymlasótt í blóði katta á Íslandi. Dýralæknarit Dýralæknafélags Íslands, mars 1998, bls. 16–21).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í ákvæðinu koma fram markmið laganna. Um þau er vísað til greinargerðar með frum­varpinu.

Um 2. gr.


     Samkvæmt ákvæðinu er sveitarstjórnum veitt heimild til að takmarka eða banna gælu­dýrahald með samþykktum. Skulu takmarkanir miðast við einstakar tegundir gæludýra sam­kvæmt nánari reglum. Sveitarstjórnum er með ákvæðinu veitt svigrúm til að móta reglurnar nánar en kveðið er á um í frumvarpinu eftir því sem aðstæður bjóða á hverjum stað. Hugtakið gæludýr í skilningi frumvarpsins er skilgreint í 2. gr., en að öðru leyti vísast til greinargerðarinnar. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðuneyti staðfesti samþykktirnar í samræmi við reglu­gerð um Stjórnarráð Íslands.

Um 3. gr.


    Æskilegt getur verið að sveitarstjórnir hafi yfirsýn yfir gæludýraeign í sveitarfélagi og samkvæmt ákvæðinu er þeim heimilt að halda skrá yfir gæludýr samkvæmt nánari ákvæðum í samþykkt. Slík skráning er sérstaklega mikilvæg þar sem leyfi er gert að skilyrði og krafist gjalds af dýraeigendum en getur einnig verið mikilvæg til almennrar upplýsingaöflunar. Sam­kvæmt ákvæðinu er eiganda eða forráðamanni ólögráða eiganda skylt að gera grein fyrir gæludýrum sem hann heldur.

Um 4. gr.


    Hér er lögð sú ábyrgð á eigendur gæludýra að þeir sjái til þess að dýrin valdi öðrum hvorki óþægindum né tjóni. Með ákvæðinu er lagt til að eigendur gæludýra beri hlutlæga bótaábyrgð á því tjóni sem dýrin kunna að valda, en jafnframt er gert ráð fyrir því að bætur til tjónþola lækki eða falli alveg niður ef hann hefur átt þátt í því að tjón varð. Er tillaga þessi í samræmi við það sem nú gildir um ábyrgð hundaeigenda að dönskum rétti.
    Þá er lagt til að sveitarfélög geti krafist þess að tilteknar tegundir gæludýra verði merktar eigendum sínum en hér sem fyrr er sveitarstjórnum veitt svigrúm til að móta reglurnar að öðru leyti.

Um 5. gr.


    Talið er nauðsynlegt að í lögum sé kveðið á um heimild til að handsama gæludýr sem ganga laus utan húss í þéttbýli og um nánari tilhögun þegar til slíkra aðgerða kemur. Eðlilegt er að eigendur dýranna beri ábyrgð á þeim kostnaði sem sveitarfélög hafa af því að taka þau. Frestur í 3. mgr. er í samræmi við 10. gr. laga nr. 15/1994, um dýravernd, og þykir hæfilegur. Þegar unnt er skal eiganda gert kunnugt um töku dýrsins, en í umsögnum frá heilbrigðis­fulltrúum og fleirum um frumvarpið kom fram að slíkt reyndist oft ógerningur í framkvæmd og því er ákvæðið nú eins og í lögum um dýravernd.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Töluvert er um óhreinsaða ketti í Reykjavík.


Kattarspóluormur í 9% allra sandkassa.


(Morgunblaðið, 9. febrúar 1996.)



    Engar reglur eru til um kattahald í Reykjavík og ekki er unnið skipulega að útrýmingu úti­gangskatta í borginni. Margir kattaeigendur láta hjá líða að ormahreinsa ketti sína. Í rann­sókn sem Heiðdís Smáradóttir, líffræðinemi í Háskóla Íslands, gerði á sandkössum í Reykja­vík og Kópavogi fannst kattarskítur í 66% kassanna. Kattarspóluormur fannst í 9% sandkass­anna, en hann getur verið mönnum hættulegur. Þá fannst í einu tilviki toxoplasma, en hann getur valdið fósturskemmdum. Þetta mun vera í fyrsta skiptið sem toxoplasma greinist í katt­arskít hér á landi.
    Sýnin voru tekin í október til desember í vetur. Rannsakaðir voru 32 sandkassar og fannst saur úr köttum í 21 kassa. Fimm tegundir af sníkjudýrum fundust í sex sandkössum. Í þremur sandkössum fundust egg úr kattarspóluormi og í einum kassa fundust egg úr hundaspóluormi. Í einum kassa fannst þolhjúpur einfrumungsins Giardia, en líkur eru á að þar sé um að ræða sömu tegund og veldur niðurgangi í fólki. Þá fannst dauð rotta í einum sandkassa.
    Kattarspóluormur lifir í meltingarvegi katta og eggin berast út með saurnum. Ef þau ber­ast ofan í menn klekjast lirfurnar út og fara á svokallað lirfuflakk með blóðrásinni. Þær mynda síðan um sig hjúpa þar sem þær stöðvast úti í vefjum líkamans. Það fer eftir því hvar þessir hjúpar eru hvort þetta reynist viðkomandi hættulegt eða ekki.
    Heiðdís sagði að engar tölur væru fyrirliggjandi um sýkingar af völdum kattarspóluorms í mönnum hér á landi. Það þýddi þó ekki endilega að þessi sýking hefði ekki komið fyrir hér. Hún sagði að erlendis væri þetta sums staðar stórt vandamál. Um 10 þúsund sjúkdómstilfelli greindust árlega í mönnum í Bandaríkjunum. Í rannsókn á sandkössum í Ósló hefðu 36% sandkassa verið menguð af eggjum kattarspóluormsins.


Toxoplasma fannst í kattarskít.


    Heiðdís fann í einum kassa toxoplasma, en það getur valdið bogfrymlasótt. Hún getur valdið fósturskemmdum hjá ófrískum konum. Heiðdís sagði að eftir því er hún kæmist næst væri þetta í fyrsta skipti á Íslandi þar sem toxoplasma greindist í kattarskít. Hún sagði að börn hefðu fæðst með bogfrymlasótt hér á landi. Ekki væri sjálfgefið að mæður barnanna hefðu smitast af köttum. Ýmsar aðrar smitleiðir kæmu til greina.
    „Það er nauðsynlegt fyrir fólk að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem getur stafað af katt­arskít. Það er hægt að bæta ástandið mikið með því að hreinsa kettina reglulega, breiða yfir sandkassana, hreinsa kattarskít úr kössunum og skipta reglulega um sand í þeim. Mér sýnist að það sé mjög lítið gert til að hamla á móti þessu smiti. Það er ekki skylda að ormahreinsa ketti og ég sá hvergi dæmi um að breitt væri yfir sandkassana,“ sagði Heiðdís.
    Heiðdís sagði að í sumum sandkössum hefði verið mjög mikið af kattarskít. Hún sagði að hættan væri mest á veturna. Þá gætu kettirnir ekki grafið skítinn í moldarbeð og þess vegna leituðu þeir í sandkassana.
    Heiðdís vann ritgerð sína undir leiðsögn Karls Skírnissonar, sníkjudýrafræðings á Til­raunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði náms­manna.

Ormahreinsun katta nauðsynleg.


    Steinn Steinsson, héraðsdýralæknir í Reykjavík, sagði að dýralæknar ráðlegðu kattaeig­endum að ormahreinsa ketti sína a.m.k. einu sinni á ári. Hann sagðist telja að þorri kattaeig­enda færi að þessum ráðum. Vandamálið væri hins vegar að talsvert væri um útigangsketti í Reykjavík og þeir væru ekki hreinsaðir.
    Guðmundur Björnsson, meindýraeyðir í Reykjavík, sagði að ekki væri mikið um eiginlega villiketti í Reykjavík. Hins vegar væri töluvert um að heimiliskettir legðust út. Hann sagði að allir kettir sem kvartað væri undan og meindýraeyði tækist að handsama væru fluttir í Kattholt og þar væri reynt að koma þeim til eigenda sinna.
    Guðmundur sagðist ekki treysta sér til að dæma um hvort útigangsköttum væri að fjölga í borginni. Kvartanir væru alltíðar. Mörg dæmi væru um að kettir færu inn í hús, ætu mat og gerðu stykkin sín.