Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 46 — 46. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir.



1. gr.

    Við 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er sala veiði­leyfa í ám og vötnum einnig skattskyld.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt telst fasteignaleiga til starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti. Skattyfirvöld hafa túlkað framangreint ákvæði svo að öll sala veiðileyfa teljist leiga fasteignar nema veiðileyfin séu háð aflamarki. Af þeim sökum er öll sala veiðileyfa í laxveiðiám án virðisaukaskatts en ljóst er að ríkissjóður verður af verulegum fjárhæðum vegna þessa fyrirkomulags.
    Þegar frumvarp til laga um virðisaukaskatt var lagt fram í upphafi var gert ráð fyrir að sala veiðileyfa væri virðisaukaskattsskyld starfsemi. Þegar frumvarpið var svo lagt fram á 110. löggjafarþingi 1987–88 voru gerðar breytingar á 2. gr. þess að undirlagi meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar sem víkkaði mjög út gildissvið undanþágu 8. tölul. 3. mgr. þeirrar greinar. Í stað undanþágu fyrir útleigu íbúðarhúsnæðis var ákvæðið látið ná til fast­eignaleigu sem slíkrar.
    Í áliti meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar (þskj. 1005) er þess ekki sérstaklega getið að breytingin taki til sölu veiðileyfa en í umræðum á þinginu vék framsögumaður meiri hluta nefndarinnar lítillega að því í ræðu sinni þar sem hann gat um áhyggjur Landssambands veiðifélaga af tekjurýrnun vegna álagningar virðisaukaskatts á veiðileyfi.
    Ef frumvarpið verður að lögum fellur 24,5% virðisaukaskattur á alla sölu veiðileyfa í ám og vötnum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna, með áorðnum breytingum, en frumvarpið gerir ráð fyrir að sala veiðileyfa í ám og vötnum teljist virðisaukaskattsskyld starfsemi þrátt fyrir að fasteignaleiga sé að öðru leyti undanþegin virðisaukaskatti.
    Mikilvægt er að sem fæstar undanþágur séu í virðisaukaskattskerfinu, enda er hér um mikilvægasta skattstofn ríkisins að ræða og ekki síður er það staðreynd að allar undanþágur auka möguleika á skattundandrætti. Undanþágur sem nú eru í virðisaukaskattskerfinu lúta aðallega að þjónustu heilbrigðisstofnana, félagslegri þjónustu, rekstri menntastofnana, menningu og listum og góðgerðarstarfsemi. Nauðþurftir heimilanna, svo sem matvara og ýmis þjónusta, er virðisaukaskattsskyld. Fátt getur réttlætt að laxveiðileyfi séu undanþegin virðisaukaskatti á sama tíma og brýnustu nauðþurftir heimilanna bera slíkan skatt. Því er þessi tillaga flutt sem ætla má að gefi ríkissjóði í auknar tekjur 75–100 millj. kr. sem telja verður betur varið til ýmissa þarfra verkefna á sviði félags- eða heilbrigðismála.