Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 140  —  140. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra og Hafrannsóknastofnuninni að nota laga­heimildir, fyrirliggjandi þekkingu og rannsóknaniðurstöður á lífríki hafsbotnsins innan ís­lenskrar efnahagslögsögu til að friða án tafar í varúðarskyni, að minnsta kosti fyrir botnlæg­um eða hreyfanlegum veiðarfærum, þau svæði á hafsbotni sem brýnt er talið að vernda til að koma í veg fyrir frekara tjón á lífríki og uppvaxtarskilyrðum nytjafiska en orðið er.
    Leitað verði samvinnu við umhverfisráðherra, Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Ís­lands, Háskólann á Akureyri, Fiskifélag Íslands og samtök sjómanna og útvegsmanna við undirbúning og meðferð málsins.
    Jafnframt verði hafinn undirbúningur víðtækari aðgerða til að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa á hafsbotni innan efnahagslögsögunnar. Skorti á lagaheimildir til æskilegra vernd­araðgerða og sjálfbærrar nýtingar hafsbotnsins verði lagðar tillögur fyrir næsta löggjafar­þing þar að lútandi, sem og skýrsla um framvindu verndaraðgerða.

Greinargerð.

    Stöðugt fjölgar vísbendingum um tjón sem orðið hafi á lífríki hafsbotnsins vegna hömlu­lítillar notkunar botnveiðarfæra. Myndir sem Sjónvarpið sýndi nýlega drógu ljóslifandi fram áhrif veiða á kórallasamfélög á hafsbotni við Noreg.
    Fyrr á árinu samþykkti Alþingi að tillögu flutningsmanns og sjávarútvegsnefndar þings­ályktun um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins (fylgiskjal I). Í þings­ályktuninni er gert ráð fyrir þriggja ára rannsóknarátaki á slíkum áhrifum og að til þess sé varið um 63 millj. kr. næstu þrjú ár samkvæmt fyrirliggjandi áætlun frá Hafrannsóknastofn­uninni. Gera verður ráð fyrir að Alþingi tryggi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 fjár­magn til að hefja framkvæmd þessa verkefnis í samræmi við þingsályktunina. Um rökstuðn­ing fyrir þeirri tillögu sem hér er flutt vísast meðal annars í greinargerð fyrir þingsályktunar­tillögunni (269. mál, þskj. 337 á 122. löggjafarþingi). Þar er meðal annars gerð grein fyrir rannsóknarverkefninu „Botndýr á Íslandsmiðum“ sem aukið hefur þekkingu á botndýrateg­undum innan efnahagslögsögunnar, útbreiðslu þeirra og tengsl við aðrar sjávarlífverur.
    Í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, eins og þeim var breytt með lögum nr. 72/1984, er meðal annars eftirfarandi talið upp meðal markmiða Hafrannsókna­stofnunarinnar:
     Að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess, einkum til að meta hvernig hagkvæmt og skynsamlegt sé að nýta auðlindir þess.
     Að afla þekkingar um lögun, gerð og jarðfræðilega eiginleika landgrunnsins, einkum með tilliti til fiskveiða.
     Að rannsaka lífsskilyrði og lifnaðarhætti sjávargróðurs, dýrasvifs og botndýra, einkum vistfræðileg tengsl hinna ýmsu samfélaga og samhengi þeirra við nytjastofna.
     Að gera tilraunir með og þróa veiðarfæri og veiðibúnað í þeim tilgangi að bæta hagkvæmni sóknar og koma í veg fyrir skaðleg áhrif veiða á lífríki sjávar.
    Rannsóknir til að leggja grunn að þekkingu á hafsbotninum og botnlægum lífverum falla þannig augljóslega undir verksvið Hafrannsóknastofnunarinnar og starfsmenn hennar búa öðrum framar nú þegar yfir þekkingu til að leggja á ráðin um fyrirbyggjandi verndaraðgerðir á lífríki sem dafnar á botninum. Fleiri geta þar hins vegar eflaust lagt talsvert af mörkum, sem og aflað frekari þekkingar, og eru því eðlilegir samráðsaðilar um málið. Í þeim hópi þurfa einnig að vera samtök sjómanna og útvegsmanna, bæði vegna þess að tillagan snertir hagsmuni þeirra, en einnig geta samtök þeirra eflaust lagt fram gögn og vitneskju sem taka ber tillit til við umfjöllun um vernd og sjálfbæra nýtingu hafsbotnsins.
    Á yfirlitsuppdrætti með tillögu þessari (fylgiskjal II) eru sýnd þau svæði við landið þar sem talið er að sé að finna verðmætustu samfélög kóralla.
    Sérstaka þýðingu í sambandi við tillögu þessa hafa lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiði­landhelgi Íslands, meðal annars 8. og 9. grein laganna sem veita ráðherra heimildir til að gera ráðstafanir til að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna, um skiptingu veiðisvæða og tímabundið bann við öllum veiðum eða notkun tiltekinna veiðarfæra á ákveðnu svæði.
    Eitt meginefni tillögunnar er að fela ráðherra og Hafrannsóknastofnun að friða án tafar í varúðarskyni, að minnsta kosti fyrir botnlægum eða hreyfanlegum veiðarfærum, þau svæði á hafsbotni sem brýnt er talið að vernda. Augljóst er að það fer eftir gerð og eðli veiðarfæra hvort og hversu mikilli röskun þau kunna að valda á lífríki hafsbotnsins. Botnvarpa og drag­nót eru dæmi um veiðarfæri sem mest eru í sviðsljósinu í þessu sambandi, en fleira getur komið til. Á hinn bóginn eru krókaveiðar augljóslega ekki skaðvaldur í þessu samhengi og veiðar í net geta einnig verið óskaðlegar með tilliti til áhrifa á botninn. Nánari
rannsóknum er hins vegar ætlað að leiða í ljós áhrif einstakra gerða veiðarfæra í þessu sam­hengi og flutningsmaður leggur ríka áherslu á framgang þeirra.
    Þá er rétt við meðferð málsins að hafa í huga ákvæði í lögum nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Þar er kveðið á um að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldis­réttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Hugtakið auðlind samkvæmt lögunum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafs­botnsins annarra en lifandi vera. Enginn má leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafs­botninum utan netlaga, sbr. 1. gr. laganna, nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra og óheimilt er að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum nema að fengnu skriflegu leyfi ráðherra.
    Til álita koma einnig ákvæði laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sem og lög um stjórnun fiskveiða og eftirlit með veiðum. Sérstaklega þarf að meta hvernig best verður staðið að því að tryggja varanlega vernd og friðun ákveðinna svæða og/eða tíma­bundna vernd eftir því sem við á.



Fylgiskjal I.


Þingsályktun um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins.


(Samþykkt á Alþingi 28. maí 1998.)



    Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og mismunandi veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Sérstaklega verði kannað hver áhrif veiðanna eru á botnfiskstofna, viðkomu þeirra og afrakstursgetu, sem og áhrif veiða með dragnót, botnvörpu og öðrum dregnum veiðarfærum á botnlagið.
    Til verkefnisins verði veitt sérstök fjárveiting næstu þrjú ár í samræmi við kostnaðaráætl­un Hafrannsóknastofnunarinnar.



Fylgiskjal II.


Hafrannsóknastofnunin:

Steinkórall (Lophelia pertusa) sem myndar kóralgarða í Norður-Atlantshafi.


(Sýndir eru fundarstaðir Lophelia pertusa við Ísland samkvæmt


nýjustu gögnum verkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum. )




(eitt kort myndað)