Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 142  —  142. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði.

Flm.: Árni Steinar Jóhannsson, Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta Byggðastofnun gera tilraun um rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu.
    Verkefnið verði tilraunaverkefni til fimm ára og stutt með framlögum úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Á undanförnum missirum hafa verið mótaðar hugmyndir um rekstur almenningssam­göngukerfis í Eyjafirði. Áætlað er að keyrt verði á tveggja tíma fresti, frá kl. 7.00 árdegis til kl. 24.00 á miðnætti, á þremur leiðum:
     1.      Akureyri–Hjalteyri–Hauganes–Árskógssandur–Dalvík–Ólafsfjörður.
     2.      Akureyri–Kristnes–Hrafnagil–Laugaland.
     3.      Akureyri–Svalbarðseyri–Laufás–Grenivík.
    Lagt er til að verkefnið verði til reynslu í fimm ár.
    Helstu röksemdir fyrir tilrauninni eru:
          Byggð á svæðinu styrkist með greiðari samgöngum fyrir alla íbúa.
          Ungmenni sem sækja framhaldsskóla á Akureyri geta fremur búið heima.
          Hagræðing verður í skólaakstri og þjónustu við stofnanir, svo sem Kristnesspítala.
          Ferðamenn eiga auðveldara með að ferðast um svæðið á eigin vegum.
          Aðgerðin er orkusparandi.
    Málið hefur verið kynnt embættismönnum í forsætisráðuneyti og á vegum héraðsnefndar Eyjafjarðar er unnið að greinargerð og fjárhagsáætlun fyrir verkefnið.