Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 143 —  143. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Guðni Ágústsson, Egill Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason,


Jón Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Árni Johnsen, Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson.


1. gr.


    Við 1. mgr. 28. gr. laganna, sbr. lög nr. 40/1989, bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    16. Höfn í Hornafirði.
    17. Þorlákshöfn.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þetta mál hefur áður verið flutt en var ekki afgreitt.
    Undanfarin ár hafa farið fram umræður í sveitarstjórn Ölfushrepps og bæjarstjórn Hafnar í Hornafirði um möguleika þessara byggðarlaga á að þar verði viðurkenndar aðaltollhafnir.
    Þrátt fyrir viðræður og bréfaskriftir forsvarsmanna þessara byggðarlaga hafa yfirvöld ekki enn séð sér fært að verða við óskum heimamanna þar að lútandi. Á Suðurlandi er einn staður sem nýtur réttinda aðaltollhafnar, þ.e. Vestmannaeyjar.
    Þorlákshöfn er eina fiski- og flutningahöfn hins mikla Suðurlandsundirlendis og Sunn­lendingar standa einhuga um höfnina og krefjast þess að hún njóti allra réttinda.
    Undanfarin ár hefur mikilvægi Þorlákshafnar aukist sem almennrar vöruhafnar. Vikur­flutningar eru miklir og stöðugir frá höfninni auk þess sem aðrir flutningar aukast stöðugt, svo sem á stykkjavöru, korni og áburði.
    Nú eru að hefjast fastar siglingar milli Þorlákshafnar, Noregs og Portúgals. Í tengslum við þessa flutninga verður reist frysti- og kæligeymsla auk aðstöðu fyrir tollvörugeymslu. Af þessu má ljóst vera að óhjákvæmilegt er að gera Þorlákshöfn að aðaltollhöfn þar sem nútímaflutningar krefjast skjótrar og liprar afgreiðslu.
    Íbúar Ölfushrepps stefna að því að auka mikilvægi Þorlákshafnar sem inn- og útflutn­ingshafnar og telja þetta mál eina af forsendum fyrir því að það takist.
    Embætti tollvarðar á Selfossi var stofnað í júní 1994. Tollafgreiðslur eru á þriðja þúsund á ári auk þess að sinnt er tollafgreiðslu skipa í Þorlákshöfn.
    Fyrir nokkrum árum tók til starfa tollhöfn á Selfossi sem veitir mikilvæga þjónustu í höfuðstað Suðurlands, Selfossi. Hér er ekki verið að leggja til að raska þeirri stöðu, enda snýr málið eingöngu að réttarstöðu Þorlákshafnar, að því að bæta þjónustuna þar og því að hún hafi sama rétt og svo margar hafnir aðrar í landinu.
    Á Austurlandi er syðsta aðaltollhöfnin Eskifjörður og því óravegur og löng sjóleið í þá næstu sem er Vestmannaeyjar.
    Fyrir ört vaxandi byggðarlag eins og Höfn í Hornafirði hlýtur það að vera mikið hags­munamál að öðlast réttindi aðaltollhafnar, enda hafa bæjaryfirvöld fyrir nokkru óskað eftir athugun og breytingum í þá átt. Sem kunnugt er hefur íbúafjöldi Hafnar í Hornafirði meira en tvöfaldast síðustu tvo áratugi og umsvif atvinnufyrirtækja eflst að sama skapi.
    Í umdæmi sýslumannsins á Höfn hefur tollafgreiðslum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Þar er enginn starfandi tollvörður. Tollafgreiðsla fer því fram meðfram öðrum störfum á skrifstofu sýslumanns eins og á Selfossi. Þegar skip og bátar koma erlendis frá sinnir lög­regla á Höfn tollun. Um báðar þessar hafnir, Höfn í Hornafirði og Þorlákshöfn, gilda þær reglur að óska verður heimildar tollgæslustjóra í Reykjavík um tollun skipa inn í landið og úr því.
    Þrátt fyrir lipurð embættismanna tollþjónustunnar sem hlut eiga að máli er þetta kerfi þungt í vöfum og tafsamt og vinnubrögðin varla nútímaleg. Af framanrituðu er ljóst að tímabært er að gerðar verði breytingar til batnaðar án frekari tafa með því að Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði verði gerðar að aðaltollhöfnum. Með því móti einu mundu þessi byggðarlög og nágrenni þeirra öðlast sama rétt og möguleika á tollmeðferð skipa og á inn­flutningi og útflutningi, enda mun slíkt leiða til einföldunar, aukinnar hagkvæmni, sparnað­ar og betra eftirlits í viðkomandi umdæmum.



Fylgiskjal I.

Bréf Hafnarsjóðs til tollstjórans í Reykjavík.


(17. september 1991.)



    Umræður hafa verið í bæjarstjórn Hafnar um flokkun Hornafjarðarhafnar sem tollhafnar, hvort óska skuli eftir því að höfninni verði breytt í aðaltollhöfn. Væntanlega þyrfti þá að breyta lögum þar að lútandi (nr. 59/1969).
    Eins og yður er kunnugt eru aðaltollhafnir þrjár á Austurlandi: Seyðisfjörður, Eskifjörður og Neskaupstaður, en engin sunnar og vestar fyrr en í Vestmannaeyjum. Forsendur fyrr­nefndra laga hafa e.t.v. breyst nokkuð á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru frá gildistöku þeirra og mætti nefna:
    Íbúafjöldi hefur tvöfaldast á Höfn á þessum tíma.
    Aflaverðmæti (1989) er hið hæsta á Austurlandi á Höfn.
    Af leiðir að útflutningur og innflutningur er sennilega orðinn mestur á Austurlandi að frátalinni umferð um Seyðisfjörð v/Norrænu. Þetta er þó óstaðfest.
    Áður en frekari skref verða stigin í þessu máli er óskað eftir áliti embættis yðar um kosti þess og galla að skilgreina Höfn sem aðaltollhöfn.

Virðingarfyllst,



Sturlaugur Þorsteinsson bæjarstjóri.





Fylgiskjal II.

Bréf Ölfushrepps til fjármálaráðuneytis.


(3. maí 1993.)



    Um leið og undirritaður vill þakka embætti yðar fyrir fljóta og jákvæða þjónustu vegna tollafgreiðslu fyrir skip Faroe Line í Þorlákshöfn er rétt að upplýsa að þess hefur verið farið á leit við fjármálaráðherra að Þorlákshöfn verði gerð að aðaltollhöfn.
    Þangað til að niðurstaða fæst í því máli er óskað eftir að leitað verði allra leiða til að leysa tollafgreiðslumál á sem hagkvæmastan hátt.
    Í framhaldi af samtali við yður er þess óskað að þér komið á fundi um þetta mál með hlutaðeigandi svo fljótt sem kostur er.

Virðingarfyllst,



Guðmundur Hermannsson,


sveitarstjóri Ölfushrepps.





Fylgiskjal III.

Bréf Ölfushrepps til fjármálaráðherra.


(3. maí 1993.)



    Undirritaður fyrir hönd Ölfushrepps fer þess á leit við yður að þér beitið yður fyrir því að Þorlákshöfn verði gerð að aðaltollhöfn með aðsetri tollvarðar.
    Unnið hefur verið að því á undanförnum árum að koma á reglulegum siglingum milli Þorlákshafnar og Evrópu en Ölfushreppur hefur átt í viðræðum við ýmsa aðila um það mál.
    Sú hugmynd er loksins orðin að veruleika, en stefnt er að vikulegum siglingum milli Þor­lákshafnar og Evrópu fyrst um sinn þótt enn séu óleyst ýmis mál í þessu sambandi, þar á meðal tollafgreiðsla og fleira.
    Rétt er að benda á að Þorlákshöfn er eina höfn Suðurlands og því eðlilegt að þar sé aðal­tollhöfn.
    Óskið þér frekari upplýsinga um þetta mál er undirritaður ávallt reiðubúinn. Með ósk um jákvæðar undirtektir.

Virðingarfyllst,



Guðmundur Hermannsson,


sveitarstjóri Ölfushrepps.