Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 172  —  169. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að koma á breyttri skipan smásölu áfengis í land­inu. Í stað núverandi fyrirkomulags verði sveitarstjórnum heimilt að veita aðilum leyfi til að stunda slíka sölu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin miði að því að áfengisverslun verði með svipuðum hætti og nú er en í stað þess að ríkisfyrirtæki hafi einkarétt á smásölu verði hún í höndum kaupmanna.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum og áratugum hefur hið opinbera verið að draga sig út úr atvinnu­rekstri á mörgum sviðum þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti stundað viðkom­andi starfsemi betur eða í það minnsta ekki verr. Nú er svo komið að til algerra undantekn­inga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Ein þeirra undantekninga er sala á áfengum drykkjum til einstaklinga en ÁTVR hefur enn sem komið er einkaleyfi á því að selja almenningi áfengi í smásöluverslun. Lengi framan af var salan algerlega í höndum ÁTVR, þ.e. fyrirtækið átti eða leigði húsnæði undir áfengisverslunina víðs vegar um landið og einungis starfsfólk þess afgreiddi áfengið. Í seinni tíð hefur orðið nokkur breyting á þessu og á nokkrum stöðum á landinu sjá einkaaðilar um sölu á áfengum drykkjum fyrir ÁTVR með sérstöku samkomulagi við fyrirtækið. Ekki verður annað séð en að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel. Þetta leiðir hugann að þeirri spurningu hvers vegna ríkið eigi yfirleitt að standa í rekstri slíkra verslana. Erfitt er að finna rökin fyrir því en aftur á móti eru fjölmörg rök gegn því. Í fyrsta lagi hafa einkaaðilar séð um rekstur slíkra verslana með góðum árangri. Í öðru lagi er aðilum eins og verslunarmiðstöðvum og byggðarlögum mismunað eftir stað­setningu útibúa. Í þriðja lagi má nefna kostnaðinn af versluninni; ólíklegt má telja að ríkis­fyrirtæki reki þessar verslanir með hagkvæmari hætti en einkaaðilar mundu gera. Má í þessu sambandi benda á að fasteignir ÁTVR eru nú á bókfærðu verði í ríkisreikningi 700 millj. kr. Fjármunir sem fengjust með sölu þessara fasteigna mundu nýtast ríkissjóði vel. Sömuleiðis mundi ríkið spara verulegan hluta þess fjár sem nú er varið í rekstur ÁTVR ef þessi breyting næði fram að ganga. Eftir sem áður gæti ríkisvaldið náð öllum þeim markmiðum sem það hefur sett sér í áfengismálum. Það eina sem mundi breytast er að verslunin yrði í höndum þeirra sem eiga að sjá um verslun, þ.e. einkaaðila, og ekki yrði um að ræða eins sterkt skömmtunarvald á þessari þjónustu af hendi hins opinbera og nú er. Leyfin til að selja áfengi yrðu veitt af sveitarstjórnum með svipuðum hætti og leyfi til vínveitingahúsa.