Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 183  —  39. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um innheimtu gjalds fyrir endurtekt­arpróf.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hefur ástundun nemenda í framhaldsskólum breyst eftir að hafin var gjaldtaka af nemendum sem þreyta endurtektarpróf?
     2.      Hefur orðið fækkun á nemendum sem falla í áfanga eða bekk á tímabilinu?
     3.      Hversu mikið fé hefur verið innheimt vegna þessa (sundurliðað eftir námsönnum og skólum)?


    Þess skal getið að ákveðins misskilnings gætir í spurningunni því yfirleitt innheimta skól­ar ekki sérstakt gjald fyrir endurtektarpróf heldur greiða nemendur sem endurinnrita sig í bekkjardeild eða námsáfanga sérstakt endurinnritunargjald. Í eftirfarandi svari er tekið mið af endurinnritunargjaldi.
    Þá ber að hafa í huga að skólum er ekki skylt að innheimta gjaldið heldur er þeim ,,heimilt að innheimta sérstakt endurinnritunargjald af nemendum við endurinnritun í bekkjardeild eða námsáfanga,“ eins og segir í 2. gr. reglugerðar um endurinnritunargjald, nr. 333/1997 frá 16. maí 1997. Fáeinir skólar hafa ekki nýtt sér þessa heimild.
    Eftir að hafa athugað málið og leitað álits framhaldsskólanna er niðurstaða ráðuneytisins sú að of stuttur tími sé liðinn frá því að gjaldtaka hófst til að tölfræðilega sé hægt að meta áhrif hennar sem stjórntækis fyrir skólana. Að svo stöddu nefna flestir skólar að ekki sé hægt að greina merkjanlega breytingu á ástundun nemenda eftir að innheimta gjaldsins hófst. Einnig telja skólar að ekki sé marktækur munur á fjölda þeirra nemenda sem falla í áfanga eða bekk á tímabilinu miðað við stöðuna fyrir gjaldtöku. Allmargir skólar nefna að of stuttur tími sé liðinn frá því að gjaldtaka hófst til að hægt sé að meta reynsluna af áhrifum gjaldtök­unnar. Þó er það til dæmis nefnt að í einum skóla hafi orðið vart við hugarfarsbreytingu hjá nemendum og foreldrum þeirra varðandi ástundun og fall og þar er jafnframt dregin sú álykt­un að gjaldið veiti sumum nemendum aðhald. Einnig kemur fram það viðhorf að gjaldið sé svo lágt, í langflestum tilvikum mun lægra en andvirði einnar kennslubókar, að það hafi ekki mikil áhrif.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir gjaldtöku, skipt eftir skólum og önnum (önnin þegar greiðsla er innt af hendi):

haustönn 1997, kr. vorönn 1998, kr. haustönn 1998, kr.
Borgarholtsskóli 230.000 260.000
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra 213.500 256.500 239.000
Fjölbrautaskóli Suðurlands 369.500 393.500 349.000
Fjölbrautaskóli Suðurnesja 418.500 336.000
Fjölbrautaskóli Vesturlands 221.500 330.000 297.000
Fjölbrautaskólinn Breiðholti 1.063.000 934.000 874.000
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 359.000 428.500 471.500
Fjölbrautaskólinn við Ármúla 440.800 640.300
Flensborgarskólinn 428.000 441.000 390.500
Framhaldsskóli Vestfjarða 78.500 64.000 120.500
Framhaldsskólinn á Húsavík 27.500 5.500 73.000
Framhaldsskólinn á Laugum 47.000 36.000
Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu (ekkert gjald innheimt)
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (ekkert gjald innheimt)
Iðnskólinn í Hafnarfirði (ekkert gjald innheimt)
Iðnskólinn í Reykjavík 552.500 639.500 706.500
Kvennaskólinn í Reykjavík 81.000 24.000
Menntaskólinn á Akureyri 81.000
Menntaskólinn á Egilsstöðum 124.000 237.000 165.000
Menntaskólinn að Laugarvatni (ekkert gjald innheimt)
Menntaskólinn í Kópavogi 337.500 466.000 459.000
Menntaskólinn í Reykjavík 81.000 105.000
Menntaskólinn við Hamrahlíð 801.500 594.000 642.000
Menntaskólinn við Sund 111.000 117.000
Stýrimannaskólinn í Reykjavík 48.000 17.000 27.000     *
Verkmenntaskóli Austurlands 16.500     *
Verkmenntaskólinn á Akureyri 572.500 615.500     **
Samtals 5.888.000 6.475.800 6.093.000
* gjald fyrir endurtektarpróf
** upplýsingar liggja ekki fyrir