Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 185  —  55. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða árangri hafa þær breytingar sem nýlega voru gerðar á rekstri verslunar og þjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar skilað?

    Í upphafi árs 1997 skipaði utanríkisráðherra nefnd til að fjalla um málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE), en sem kunnugt er hefur rekstrarvandi stöðvarinnar verið mikill. Nefndin var skipuð tveimur alþingismönnum, ásamt fulltrúum úr iðnaðar- og viðskiptaráðu­neyti, samgönguráðuneyti, fjármálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Fulltrúi Flugmálastjórn­ar á Keflavíkurflugvelli og fulltrúi Framkvæmdasýslu ríkisins störfuðu jafnframt með nefnd­inni.
    Nefndinni var ætlað að gera tillögur um endurskipulagningu leigumála og fyrirkomulags verslunar- og þjónustureksturs í FLE. Nefndin skyldi m.a. athuga alla þætti rekstrar og þjón­ustu flugstöðvarinnar með það að markmiði að leita leiða til að auka tekjur hennar þannig að reksturinn gæti staðið undir afborgunum og vöxtum af lánum sem tekin hafa verið vegna flugstöðvarinnar.
    Á grundvelli álits nefndarinnar hrinti utanríkisráðherra í framkvæmd viðamiklum breyt­ingum á rekstrarfyrirkomulagi verslunar og þjónustu í FLE. Þær breytingar fólust í útboðum á leigu á verslunarrými, þjónusturými og langtímabílastæðum. Ákveðið var að segja upp öll­um leigu- og þjónustusamningum frá síðustu áramótum, fyrir utan samning Fríhafnarinnar. Þess í stað var boðin út leiga á verslunarrými, þjónusturými og langtímabílastæðum. Fram­kvæmd útboðanna var á vegum Ríkiskaupa.
    Tekjuaukning sem rekja má til breytinga á fyrirkomulagi verslunar- og þjónustustarfsemi í FLE er 201,8 millj. kr. fyrir fyrstu níu mánuði ársins 1998. Áætluð tekjuaukning ársins er 245 millj. kr., eða 70% aukning tekna á milli ára.
    Á tímabilinu frá 1. janúar til 30. september 1997 voru heildartekjur af verslun og þjón­ustustarfsemi 268 millj. kr. Á sama tímabili þessa árs, 1998, voru heildartekjurnar 469,8 millj. kr.
    Heildartekjur verslunar og þjónustu árið 1997 voru 348,4 millj. kr. Áætlanir þessa árs gera ráð fyrir tekjum að upphæð 593,7 millj. kr.
    Stöðugildi árið 1997 í þjónustu og verslun voru 195, en eru 303 á þessu ári. Starfsmönn­um hefur fjölgað um 108 vegna breytinga á verslunar- og þjónustustarfsemi.
    Í árslok 1997 voru langtímaskuldir flugstöðvarinnar 4.283.493.366 kr. Á þessu ári hefur tekist að greiða upp vanskilavexti frá fyrri tíma og standa skil á gjaldföllnum vöxtum þessa árs. Eru nú öll lán flugstöðvarinnar í skilum.
    Af framangreindu má ljóst vera að markvisst hefur verið unnið að því að leysa langvar­andi fjárhagsvanda FLE með víðtækri endurskipulagningu rekstrar og þjónustu. Viðskiptahættir í stöðinni hafa verið færðir í nútímalegra horf. Með aukinni þjónustu og útboðum eru nú allar horfur á að stöðva megi skuldasöfnun vegna flugstöðvarinnar og byrja að greiða nið­ur skuldir.