Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 186  —  94. mál.




Svar



iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um styrkveitingar hans til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar.

     1.      Hverjir hafa fengið úthlutað styrkjum af þeirri 80 milljón króna fjárveitingu sem ríkisstjórnin hefur árlega samþykkt sérstaklega til ráðherrans, hversu hár var hver styrkur og til hvaða verkefna voru þeir veittir?
    Í fjárlögum fyrir árin 1997 og 1998 er heimild fyrir ríkisstjórnina til að ráðstafa, að fengnum tillögum iðnaðarráðherra, allt að 80 millj. kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Í því sambandi skal sérstaklega huga að atvinnusköpun á þeim landsvæðum sem ekki njóta góðs af atvinnustarfsemi sem tengist atvinnuuppbyggingu á orku- og stóriðjusviði.
    Á grundvelli þessarar heimildar voru árið 1997 veittir 36 styrkir til þessara mála og 60 styrkir á þessu ári, eða alls 96 styrkir að upphæð samtals 160 millj. kr.
    Í fylgiskjali er skrá um þessar styrkveitingar fyrir árin 1997 og 1998. Þar er í fremsta dálki getið nafna styrkþega, þá er verkefnið skýrt í stuttu máli og í aftasta dálki er að finna styrkupphæðina.

     2.      Hvernig hafa þessir styrkir verið auglýstir eða kynntir?
    Auglýsing og kynning á styrkjunum hefur í aðalatriðum verið þrenns konar, þ.e. með almennum auglýsingum í blöðum, með fundaferðum um landið og með beinum samskiptum við atvinnuráðgjafa og aðra sem stuðla að framgangi nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar.
    Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að leita að verkefnum sem líkleg væru til að skapa varan­legan árangur og ný og fjölbreyttari störf sem víðast um landið. Ákveðnum atvinnugreinum hefur hvorki verið sérstaklega hampað eða hafnað, né heldur gerður greinarmunur á því hvort um stór eða smá verkefni væri að ræða. Til þess að fá sem besta sýn yfir málið fól ráðuneytið í upphafi eftirtöldum aðilum að gera tillögur um verkefni sem væru best til þess fallin til að stuðla að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun: Stjórn verkefnisins Átak til atvinnusköpunar, vegna almennra stuðningsaðgerða við frumkvöðla, vöruþróun og vöxt fyrirtækja á lands­byggðinni, Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, vegna stóriðjufram­kvæmda, og Fjárfestingaskrifstofu Íslands, vegna fjárfestinga erlendra aðila í atvinnustarf­semi utan sjávarútvegs og stóriðju. Hugmyndir og tillögur atvinnuráðgjafanna komu til afgreiðslu hjá Átaki til atvinnusköpunar.
    Umfangsmesta og flóknasta verkefnið féll í skaut Átaks til atvinnusköpunar, þ.e. stuðn­ingsaðgerðir við verkefni og verkefnahugmyndir á landsbyggðinni. Í upphafi var málið kynnt rækilega, m.a. á fundaferðum um allt land þar sem rætt var um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífinu og skýrður tilgangur Átaks til atvinnusköpunar, sem m.a. væri að taka þátt í samstarfsverkefnum sem veittu fyrirtækjum og einstaklingum leiðsögn um stofnun fyrirtækja, nýsköpun, vöruþróun og umbætur í rekstri auk þess að taka þátt í hluta kostnaðar við slík verkefni.
    Stuðningsverkefni Átaks til atvinnusköpunar voru síðan auglýst sérstaklega í dagblöðum og að auki var haft samband við atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni og leitað eftir hugmyndum frá þeim um álitleg verkefni. Meginmarkmiðið var að stuðningsaðgerðirnar væru unnar í samstarfi við fyrirtæki og frumkvöðla, en einnig stofnanir og sveitastjórnir, eins og við átti í hverju tilfelli fyrir sig.

     3.      Hvernig var staðið að mati á umsóknum?
    Mat á verkefnunum (umsóknunum) má skipta í tvennt. Fyrst voru allar verkefnahugmynd­irnar metnar af þriggja manna matsnefnd sérfræðinga. Mikilvægur hluti af matinu var að leita álits utanaðkomandi til að skjóta styrkari stoðum undir það.
    Að þessum fyrsta hluta matsins loknum lá nokkurn veginn fyrir hvernig tiltækt fé mundi skiptast á milli Fjárfestingaskrifstofu Íslands, til verkefna tengdum erlendri fjárfestingu, Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, vegna staðarvals og frummats fyrir stærri iðnað, og Átaks til atvinnusköpunar, til almenns stuðnings við iðngreinar og ein­stök svæði og til vöruþróunar, nýsköpunar og útrásar fyrirtækja á landsbyggðinni. Lokayfir­ferð og afgreiðsla þeirra verkefna sem heyrðu undir Átak til atvinnusköpunar voru síðan í höndum stjórnar þess.
    Sú breyting varð á þessu verklagi árið 1998 að stjórn Átaks til atvinnusköpunar var alfarið falið mat á öllum verkefnunum og lokaafgreiðsla þeirra. Frummat á verkefnunum var í höndum framkvæmdastjóra Átaks til atvinnusköpunar og tveggja sérfræðinga. Eins og áður var lagt til grundvallar mat á því hversu líkleg verkefnin væru til að leiða til varanlegrar atvinnuuppbyggingar á viðkomandi stað.

     4.      Hefur verið um eftirfylgni að ræða hjá ráðuneytinu? Ef svo er, í hverju er hún fólgin?
    Eftirfylgnin er tvenns konar. Í fyrsta lagi er meginreglan sú að greiðslum til styrkþega er skipt í tvennt og fer seinni greiðslan aldrei fram fyrr en framvindu- eða lokaskýrsla styrkþega liggur fyrir. Þar kemur fram hvernig tekist hefur að ná þeim markmiðum sem stefnt var að í verkefninu. Í öðru lagi verður gerð úttekt á árangri verkefnisins, sbr. 5. lið.
    Auk þessa hefur framkvæmdastjóri Átaks til atvinnusköpunar og stjórn þess fylgst óform­lega með framgangi einstakra verka, eins og tækifæri hafa gefist til hverju sinni. Þessi óformlega eftirfylgni og lokaskýrslur ábyrgðarmanna einstakra verkefna urðu til þess að ástæða þótti til að halda umfangsmikla sýningu á árangri verkefna sem studd höfðu verið af Átaki til atvinnusköpunar. Sú sýning var í Ráðhúsi Reykjavíkur, 14.–16. nóvember 1997.

     5.      Hefur mat á árangri af þessum fjárveitingum farið fram?
    Fyrir liggur sá ásetningur stjórnar Átaks til atvinnusköpunar að gera könnun á stöðu verk­efnanna sem það hefur stutt. Árangur stuðningsverkefna sem þessara verður sýnilegur á mis­löngum tíma og eru viðmið árangursmats ekki einhlít. Þannig gæti stuðningur virst leiða til mikils árangurs fljótlega eftir að stuðningur er veittur en minni eða einskis sé lengra tímabil tekið. Á sama hátt má vænta þess að stuðningur komi í sumum tilfellum ekki fram sem raun­verulegur árangur fyrr en að nokkrum tíma liðnum, sérstaklega ef um lítt þroskaða við­skiptahugmynd er að ræða.
    Þar sem markmið stuðningsaðgerða þeirra sem tengjast Átaki til atvinnusköpunar er fyrst og fremst varanlegur árangur í nýsköpun og atvinnuþróun hefur verið við það miðað að mat á árangri stuðningsaðgerðanna fari fram tveimur til þremur árum eftir að stuðningurinn var veittur. Í samræmi við það má ætla að árangursmat verði sett á verkefnalista Átaks til atvinnusköpunar á næsta ári.
    Hvað varðar stuðningsverkefni sem tengjast Markaðsskrifstofunni og Fjárfestingaskrif­stofunni kemur vel til greina að samtímis fari fram mat á árangri þeirra þótt sum verkefnanna séu þess eðlis að árangurs af þeim sé ekki að vænta fyrr en eftir mun lengri tíma en hér er rætt um.



Fylgiskjal.



(13 síður myndaðar)