Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 189  —  101. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um útköll lögreglu á geðdeildir sjúkrahúsa.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu oft undanfarin fimm ár hefur lögregla verið kölluð til aðstoðar á geðdeildum sjúkrahúsa vegna erfiðra tilfella? Hversu oft hafa geðsjúkir verið fluttir af sjúkrahúsi og settir í fangageymslur?

    Dómsmálaráðuneytið leitaði eftir upplýsingum hjá lögreglustjóranum í Reykjavík og lög­reglustjóranum á Akureyri, en geðdeildir sjúkrahúsa eru einungis í umdæmum þeirra.
    Í svari lögreglustjórans í Reykjavík kom fram að vegna tímaskorts hafi aðeins gefist ráð­rúm að afla upplýsinga frá undanförnum þremur árum, þ.e. frá 12. september 1995, þar sem frá þeim tíma séu upplýsingarnar á tölvutæku formi. Kannaður var hjá embættinu fjöldi tilvika vegna beiðna frá Landspítalanum, Sjúkrahúsi Reykjavíkur (áður Borgarspítala) og Kleppi. Á þessum tíma færði lögregla fjóra sjúklinga geðdeildar í fangageymslur. Í öll skipt­in var það gert á grundvelli beiðna frá Landspítalanum, þrisvar vegna þess að sjúklingar höfðu verið óviðráðanlegir og einu sinni í samráði við sjúkling sjálfan. Í þau þrjú skipti sem sjúklingur var fluttur í fangageymslur lögreglu var um að ræða aðstæður sem starfsmenn deildanna töldu sig ekki ráða við. Tvisvar var sjúklingur talinn hafa neytt fíkniefna, en um sama sjúkling var að ræða í bæði skiptin, og einu sinni sjúkling sem hótaði lækni sínum sem reyndi að útskrifa hann af geðdeild. Jafnframt voru á þessu tímabili 17 einstaklingar, ekki sjúklingar, fluttir í fangageymslu lögreglu samkvæmt beiðnum frá geðdeildum, í fjögur skipti frá Kleppi og í 13 skipti frá Landspítala. Í mörgum tilvikum var um að ræða ölvaða einstak­linga sem höfðu valdið starfsfólki og sjúklingum deildanna ónæði og voru þeir vistaðir í fangageymslu vegna ölvunarástands síns. Einnig var í nokkrum tilvikum um að ræða ölvaða einstaklinga sem höfðu leitað til geðdeilda eftir lyfjagjöf eða óskuðu eftir innlögn. Þá koma fram þær upplýsingar í svari lögreglustjórans í Reykjavík að lögreglan hafi einnig haft af­skipti af ýmsum öðrum málum er upp hafa komið geðdeildum, svo sem þegar óskað er eftir leit að sjúklingum.
    Í svari lögreglustjórans á Akureyri kom fram að ekki hafi verið tök á að fletta dagbókum af þessu tilefni þar sem um sé að ræða óhemjuvinnu, en tilvik sem þessi séu fá og þeim fari fækkandi. Ekki sé vitað um dæmi þess að óskað hafi verið eftir að sjúklingur væri fluttur af geðdeild í fangageymslur, en fangar í afplánun hafi verið fluttir á geðdeild og síðan þaðan aftur í fangelsi. Samkvæmt dagbók lögreglunnar hefur starfsfólk geðdeildar Fjórðungs­sjúkrahúss Akureyrar (FSA) sjaldan óskað aðstoðar lögreglunnar. Þess eru þó dæmi og þá vegna þess að sjúklingur hafi verið erfiður þá stundina og starfsfólk ekki talið sig ráða við ástandið. Enn fremur eru dæmi um að lögreglumenn hafi verið fengnir til að vaka yfir sjúk­lingum deildarinnar sem taldir voru sjálfum sér og öðrum hættulegir, en þá voru þeir ekki einkennisklæddir. Langt er um liðið síðan leitað hefur verið eftir slíkri aðstoð. Þá er í upplýsingum frá lögreglustjóranum á Akureyri tekið fram að beiðnum um aðstoð frá geðdeild Fjórðungssjúkrahússins hafi farið fækkandi undanfarin ár þar sem deildin sé orðin mjög vel mönnuð.