Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 190  —  102. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um sveigjanleg starfslok.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær var nefnd skipuð til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok, sbr. ályktun Alþingis nr. 7/111 frá 13. apríl 1989?
     2.      Hvað líður störfum nefndarinnar?


    Nefnd sem komið var á fót í samræmi við framangreinda þingsályktun var skipuð af þá­verandi forsætisráðherra 22. mars 1991. Skipaðir voru Guðmundur Benediktsson, þáverandi ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, formaður, Barði Friðriksson hrl., samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, Guðríður Elíasdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Björn Jósef Arnviðarson, þáverandi bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður launanefndar sveitarfélaga, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Ólafur Ólafsson landlæknir, frá landlæknisembættinu.
    Samkvæmt gögnum málsins kom nefndin saman 13. júní 1991 og lagði á ráðin um gagna­öflun af ýmsu tagi sem leggja mætti nefndarstarfinu til grundvallar. Meðal gagna sem ákveð­ið var að afla voru:
     1.      Umsagnir sem félagsmálanefnd sameinaðs Alþingis höfðu borist við umfjöllun um þingsályktunartillöguna, þ.e. frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Vinnumálasambandi samvinnufélaga.
     2.      Umsagnir og ábendingar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasambandi Íslands, Félagi eldri borgara, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Lífeyrissjóði rík­isstarfsmanna og félögum heilbrigðisstétta, þar á meðal Læknafélaginu og Félagi hjúkr­unarfræðinga.
     3.      Spár og kannanir um starfsaldursbreytingar og breytingar á fjölda og eðli starfa.
     4.      Reglur um álagningu opinberra gjalda eftir að eftirlaunaaldri er náð.
    Jafnframt ákvað nefndin að fá tryggingafræðing til viðtals á starfstíma hennar.
    Í vörslum forsætisráðuneytis er ekki að finna frekari gögn um störf nefndarinnar.