Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 209  —  193. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um reglur um jafnræði milli kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs.

Flm.: Bryndís Guðmundsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að setja reglur er kveði á um að við veitingu fjármuna opinberra aðila til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs skuli gætt jafnræðis milli kynja.

Greinargerð.


    Fyrirspurn um fjárframlög til íþróttastarfs var lögð fram á 122. löggjafarþingi Íslendinga. Var þar meðal annars spurt hvort sett hafi verið skilyrði af hálfu ríkisins um jafnræði milli kynja við nýtingu fjárframlaga til íþróttamála. Í svari ráðherra kom fram að á fjárlögum hefðu ekki verið sundurgreind framlög til karla annars vegar og kvenna hins vegar og segir það sína sögu. Einnig kom fram að menntamálaráðuneytið hefði skipað nefnd til að fjalla um stefnumótun um íþróttir stúlkna og kvenna í samræmi við ályktun sem samþykkt var á Al­þingi í júní 1996. Nefndin skilaði álitsgerð til menntamálaráðuneytis í október 1997 og er þar að finna margar góðar tillögur sem vænlegar eru til að rétta hlut kvenna á þessu sviði.
    Helstu tillögur nefndarinnar voru eftirfarandi:
„a.    Allur stuðningur, fjármagn og aðstaða, sem ríki og sveitarfélög veita til íþrótta, skiptist hlutfallslega jafnt á milli karla og kvenna.
     b.      Þeir sem fá slíkan stuðning, fjármagn og aðstöðu sýni fram á að skiptingin sé sem jöfnust.
     c.      Eftirlit verði með skiptingu fjármagnsins, t.d. mætti festa ákvæði þess efnis í íþróttalögum eða í lögum ÍSÍ.“
    Því miður varð þessi tillaga útundan við endurskoðun íþróttalaga á síðasta þingi.
    Margt bendir til verulegrar mismununar milli kynja í tómstunda- og íþróttastarfsemi hér á landi og þarf ekki annað en að líta til umfjöllunar fjölmiðla í þeim efnum. Sú skýring er oftast nefnd að karlar séu virkari en konur og áhugi almennings sé meiri á íþróttum karla en kvenna. Slík skýring tekur engan veginn til róta vandans sem margir telja að mótist af gamal­grónum viðhorfum. Þau viðhorf koma fram í mun minni hvatningu og stuðningi við kvenkyns iðkendur íþrótta. Hér er þörf á skilningi á aðstæðum og vilja til breytinga í átt til jafnræðis.
    Víða erlendis hefur verið unnið markvisst að breyttri stefnu með auknum stuðningi við konur í íþróttum. Það hefur tvímælalaust skilað miklum árangri, svo sem meðal annars kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu um eflingu íþróttaiðkunar kvenna á 115. lög­gjafarþingi. Þar er vitnað til Norðmanna sem gerðu átak í kvennaíþróttum á árunum 1984–86 og vörðu jafnmiklum fjármunum til uppbyggingar landsliða karla og kvenna í handknattleik sem skilaði sér meðal annars í stórbættum árangri kvennalandsliðsins á alþjóðlegum mótum næstu ár á eftir.
    Konur á Alþingi hafa margsinnis sýnt vilja sinn til að stuðla að breytingum í þessum efn­um, m.a. með flutningi þingsályktunartillagna, auk fjölda fyrirspurna. Á 115. löggjafarþingi flutti Kristín Einarsdóttir, ásamt öllum konum sem þá áttu sæti á Alþingi, tillögu til þings­ályktunar um eflingu íþróttaiðkunar kvenna. Einnig flutti Bryndís Hlöðversdóttir, ásamt fimm öðrum þingkonum, tillögu á 120. löggjafarþingi um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna.
    Á liðnu sumri urðu töluverðar umræður um aðstöðumun kynja til þátttöku í knattspyrnu og öðrum íþróttagreinum. Landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu tjáði sig skýrt og greinilega um þessi mál í fjölmiðlum og lagði áherslu á að minni fjármunum væri varið til íþrótta kvenna en karla. Til þess mætti meðal annars rekja minni þátttöku kvenna í íþróttum og lakari árangur. Nú nýlega varð uppi fótur og fit þegar það fréttist að Skáksamband Íslands hefði ákveðið að greiða fyrir þátttöku drengja í skákmóti erlendis en ekki fyrir þátttöku stúlkna í sama móti. Sú umræða leiðir hugann að því hvort ekki sé nauðsynlegt að setja í lög eða reglur ákvæði þess efnis að fjárframlögum opinberra aðila til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttamála skuli skipt þannig að fyllsta jafnræðis sé gætt milli kynja.
    Með tilliti til umræðunnar í samfélaginu mætti ætla að fyrir hendi væri skilningur og vilji til jafnræðis en staðreyndir tala sínu máli. Konur í íþróttum eiga á brattann að sækja í flestu tilliti. Þeirra ástundun nýtur ekki sömu virðingar og strákanna. Fjölmiðlar sýna afrekum þeirra lítinn áhuga, jafnvel þótt þau séu meiri og eftirtektarverðari. Þeim gengur erfiðlega að fá styrktaraðila á meðan karlarnir njóta stuðnings fjársterkra aðila. Þær njóta engan veg­inn sambærilegs skilnings, stuðnings eða hvatningar. Rannsóknir hafa staðfest jákvæð áhrif íþróttaiðkunar og æskulýðsstarfs á andlegan, líkamlegan og félagslegan þroska einstaklings­ins. Sjálfsmyndin eflist og félagsþroskinn eykst, auk þess sem heilbrigð íþrótta- og tóm­stundaiðkun reynist hafa ótvírætt forvarnagildi. Kynbundið misrétti á hvergi rétt á sér og stríðir gegn tilgangi og markmiðum jafnréttislaga. Því er þessi tillaga flutt.