Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 210  —  194. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukna landkynningu og eflingu ferðaþjónustu í dreifbýli.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Hjálmar Árnason,


Magnús Stefánsson, Guðni Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á möguleikum til að efla ferða­þjónustu í dreifbýli með aukinni kynningu á landinu og íslenskri menningu. Í framhaldi af þeirri úttekt verði gerð framkvæmdaáætlun um eflingu atvinnugreinarinnar á þeim grunni.

Greinargerð.


    Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem talin er í örustum vexti í heiminum og er spáð 3–7% aukningu á ári nokkuð fram yfir næstu aldamót. Á Íslandi hefur vöxtur ferðaþjónustu jafnvel verið enn meiri, sum árin um 10% og að meðaltali 7% á ári síðasta áratug. Í „Stefnumótun í ferðaþjónustu“ sem samgönguráðuneytið lét vinna og birt var árið 1996 er þó ekki reiknað með nema 6% árlegri meðalfjölgun erlendra ferðamanna sem koma til Íslands tímabilið 1996–2005. Ljóst er að framhaldið ræðst af því hvernig að málum verður staðið, hve mikið og með hvaða móti landið verður kynnt, og þó enn frekar af því hvað erlendum gestum verður boðið upp á og hvernig að þeim verður búið. Lagt er til að gerð verði ítarleg könnun á þessum málum og á grundvelli hennar gerð áætlun um megináherslur í landkynningu.
    Það sem einkum vekur áhuga fólks á að ferðast til annars lands er að kynnast landinu annars vegar og fólkinu og menningu þess hins vegar. Sú hugmynd sem hér er sett fram bygg­ist á þessu tvennu.
    Landið vekur áhuga fólks sakir óvenjulegs landslags og náttúrufars, náttúrufegurðar og forvitnilegrar jarðfræði, gróðurs og jafnvel gróðurleysis, svo og dýralífs á láði og legi. Allt vekur þetta forvitni ferðalanga og þá einkum ef löndin geta státað af hreinum, óspilltum og upprunalegum víðernum þannig að fólkið komist í snertingu við náttúruna og komist út úr manngerðu umhverfi. Óspillt náttúra þykir eftirsóknarverð. Af öllu þessu getur Ísland státað; það er ólíkt flestum öðrum löndum í þessum heimshluta.
    Ferðamenn sem koma til ókunnra landa vilja einnig kynnast íbúunum þar við eðlilegar aðstæður, kynnast menningu þeirra. Í beinum tengslum við þetta er áhugi á sögu og menn­ingararfi; íslenskur bókmenntaarfur er ekki síður einstæður, jafnvel svo að vart finnast við­líka bókmenntir sem segja frá lífi og lifnaðarháttum fólks fyrr á öldum.
    Norðurlöndin eru þekkt fyrir menningu sína að fornu og nýju. Víkingaöldin sveipar þau sérstökum ljóma að mati fjölda fólks. Nýleg reynsla af „víkingahátíð“ sem hér var haldin sýnir að víða um lönd er lifandi áhugi og þekking á víkingatímanum. Enn hefur of lítið verið gert að því að kynna íslenskar bókmenntir, fornar og nýjar, skipulega með það fyrir augum að vekja athygli á landinu og áhuga fólks á því að sækja það heim.
    Þó að ýmislegt hafi verið vel gert við kynningu á landinu virðist ástæða til að marka stefnu í landkynningarmálum betur og skýrar en hingað til. Hvaða ímynd vilja menn skapa landi og þjóð? Hér er lagt til að kannað verði rækilega hvort ekki sé vænlegt til árangurs að draga sögu og menningu og ekki síst fornbókmenntirnar meira inn í þá mynd sem dregin verður af landinu. Gera þarf söguna sýnilega þeim sem ferðast um landið. Merkja þarf sögu­staðina á kort fyrir ferðafólk og á landinu sjálfu og nota sögurnar í leiðarlýsingum og bæk­lingum. Þarna mætti virkja ferðamálasamtök héraða og landshluta og vekja metnað þeirra með hvatningu og stuðningi yfirvalda í ferðamálum, en þau yrðu að gegna forustuhlutverki og hafa frumkvæði. Benda má á merkilegt framtak í Rangárvallasýslu á sögusetrinu á Hvols­velli þar sem Njálssaga er kynnt og sögustaðir í héraðinu hafa verið merktir.
    Ljóst er að grundvöllur ferðaþjónustunnar er í byggðum landsins. Þar liggur aðdráttaraflið fyrst og fremst þó að höfuðborgin og annað þéttbýli gegni vissulega mjög miklu hlutverki, m.a. í því að vera merkisberi í listum og menningarmálum og í stórráðstefnuhaldi sem ekki eru tök á að sinna annars staðar. Ferðaþjónusta er að mestum hluta dæmigerður atvinnuvegur smárra og meðalstórra fyrirtækja. Almennt er viðurkennt, þar sem menn láta sig atvinnu- og byggðaþróun skipta, að smá og meðalstór fyrirtæki eru farsælust í atvinnuþróun og líklegust til að treysta dreifðar byggðir. Þá er nauðsynleg fjölbreytni í tilboðum til ferðamanna fyrst og fremst í dreifbýlinu því mikilvægt er að gefa ferðafólki kost á áhugaverðum viðfangsefn­um, svo sem að taka þátt í lífi og starfi íbúanna, njóta landsins og ævintýra. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur einmitt þróast á þessu sviði á undanförnum árum og mætti nefna um það fjölmörg ánægjuleg og árangursrík dæmi, svo sem hestaferðir, jöklaferðir, þátttöku í göngum og réttum, hvalaskoðun og margt fleira. Ferðaþjónusta bænda hefur þar komið mörgu til leiðar.
    Mikilvægt er að forustuöfl ferðamála á Íslandi hugi betur að hvaða auðlindum ferða­þjónustan byggist á, þ.e. fyrst og fremst landinu, fólkinu og menningu þess. Því er rétt að horfa á þróun ferðamála út frá eiginlegum áfangastað fólksins sem kemur til að skoða landið og njóta þess og kynnast þjóðinni.