Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 213  —  196. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu íþróttasamstarfs milli Vestur-Norðurlanda.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Svavar Gestsson,


Árni Johnsen, Ólafur G. Einarsson, Guðný Guðbjörnsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra Íslands að setja, í samvinnu við menntamála­ráðherra Færeyja og Grænlands, á fót vinnuhóp til þess að móta tillögur til eflingar samstarfs landanna þriggja í íþróttamálum.

Greinargerð.


    Stór hluti íbúa á Vestur-Norðurlöndum tekur þátt í íþróttastarfi. Skráðir félagsmenn í íþróttafélögum eru rúmlega 100 þúsund talsins, eða um þriðjungur íbúa í löndunum þremur. Íþróttafélögin vinna gott starf, ekki síst gott æskulýðsstarf, en kannanir hafa sýnt að börn og unglingar sem stunda íþróttir eru líklegri til að ná árangri í skóla og atvinnulífi síðar á lífs­leiðinni, og síður líkleg til að lenda í félagslegum erfiðleikum.
    Íslensk íþróttafélög hafa lengi átt ýmiss konar samstarf við íþróttafélög á Norðurlöndun­um, með góðum árangri. Hins vegar hefur samstarf við okkar helstu grannþjóðir, Færeyinga en þó einkum Grænlendinga, ekki verið öflugt að sama skapi og ber að bæta úr því. Ljóst má vera að aukið samstarf íþróttasambanda og ungmennafélaga á Vestur-Norðurlöndum sem standa fyrir íþróttum mun styrkja verulega stöðu þeirra og efla alla starfsemi. Aðalmarkmið íþróttasamstarfs Vestur-Norðurlandanna er þó að efla vestnorræna vitund og samkennd, með því að íþróttamenn heimsæki hverjir aðra. Þannig komast þjóðir landanna þriggja í betra sam­band hver við aðra, sem eflir samhug þeirra og samstarf. Slíkt samstarf mun einnig hafa já­kvæð efnahagsleg áhrif í löndunum, m.a. með tilliti til ferðaþjónustu. Þá mun aukið íþrótta­samstarf Vestur-Norðurlanda efla menningarleg tengsl þjóðanna, sem er í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu ríkis- og landstjórna landanna.
    Tillögunni er beint til menntamálaráðherra, sem æðstu yfirmanna íþróttasambanda land­anna, og eru þeir hvattir til að setja á fót vinnuhóp til að móta og leggja fram tillögur um hvernig efla má íþróttasamstarf landanna.