Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 222  —  204. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þriggja fasa rafmagn.

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Jónsson,


Ísólfur Gylfi Pálmason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á því hve mikið vanti á raflagnir fyrir þriggja fasa rafmagn í landinu. Nefndinni verði falið að meta þörf atvinnu­lífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn og jafnframt að leggja mat á kostnað við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur búsetuþróun á Íslandi leitt til umtalsverðrar fólksfækkunar á sumum landssvæðum. Áframhaldandi fólksfækkun á landsbyggðinni er þjóðhagslega óhag­kvæm og nauðsynlegt er að stjórnvöld grípi til aðgerða til þess að sporna við henni.
    Um 13% þjóðarinnar búa í sveitarfélögum sem sýna hættumerki í búsetuþróun. Þar eru ráðandi atvinnuvegir annaðhvort landbúnaður eða fiskveiðar og fiskvinnsla.
    Búum með framleiðslurétt hefur fækkað en jafnframt hafa þau stækkað. Sífellt eru gerðar meiri kröfur um hagræðingu og arðsemi. Raforkukostnaður í landbúnaði hækkar með öflugri vélum og aukinni tækni. Með þriggja fasa rafmagni mun raforkukostnaður minnka og um leið skapast betri skilyrði fyrir þá sem stunda landbúnað og iðnað.