Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 235  —  213. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við konur í Bosníu.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Drífa Hjartardóttir.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beina hluta þeirrar fjárhagsaðstoðar sem ætluð er til uppbyggingar í Bosníu á komandi árum til kvenna þar í landi í samvinnu við kvennasamtök. Verði aðstoðin notuð til að styrkja uppbyggingu kvennahúss í Sarajevó og til annarra brýnna verkefna sem konur í Bosníu fást við.

Greinargerð.


    Eftir að stríðsaðilar í Bosníu féllust á friðarskilmála samkvæmt svokölluðu Dayton-sam­komulagi árið 1995 hefur verið unnið að uppbyggingu í landinu. Þótt styrjöldin ylli gífurlegri eyðileggingu á mannvirkjum og atvinnutækjum er það tjón sem mannfólkið varð fyrir enn verra. Líf týndust, líkömum var misþyrmt og sálir urðu fyrir sárum sem seint munu gróa. Tvennt einkenndi stríðið umfram annað, annars vegar ofsóknir og tilraun til útrýmingar á þjóðarbrotum, hins vegar skipulagðar hópnauðganir á konum sem ekki er vitað til að hafi áður verið beitt í jafnríkum mæli í styrjöldum. Karlar voru myrtir, en eftir sitja konurnar í sárum með börnin sín sem sum hver fæddust eftir endurteknar nauðganir.
    Konur eru nú 68% íbúa í Bosníu, en þær koma afar lítið nálægt stjórn landsins, einkum í múslimska hlutanum. Samkvæmt frásögnum kvenna sem hafa unnið að málefnum Bosníu­kvenna er lítill skilningur meðal ráðamanna á því að taka þurfi sérstaklega á vandamálum þeirra. Meðal annars neitaði einn af borgarstjórum Sarajevó BISER-kvennasamtökunum um húsnæði fyrir kvennahús með þeim rökum að hann vildi ekki sjá nein kvennahús í sínum borgarhluta. Samt sem áður tókst að festa kaup á húsi sem er verið að taka í notkun og stækka með aðstoð ýmissa ríkja og kvennasamtaka í Evrópu.
    Fátækt er mikil meðal kvenna og fjölmargar þeirra sitja einar uppi með börn sín án þess að vita hvað orðið hefur um heimilisföðurinn. Hundraða þúsunda Bosníumanna er saknað eftir styrjaldarátökin, en eins og fram hefur komið í fréttum eru sífellt að finnast fleiri fjölda­grafir. Í Evrópuríkinu Bosníu er ólæsi mikið meðal kvenna og þær skortir sárlega menntun og þar með möguleika til að sjá sér og sínum farborða. Gamlar hefðir og hugmyndir múslima um konur eru þrándur í götu og þurfa konurnar mikla aðstoð til að brjótast úr þeim viðjum sem samfélagið setur þeim og til að ná sér eftir öll þau áföll sem þær hafa orðið fyrir. Meðal annars má nefna að nokkrar flóttakonur í Þýskalandi (múslimar) fengu þá hugmynd að stofna kaffihús þegar þær sneru heim, en komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt þar sem þær yrðu álitnar lauslætisdrósir. Engin heiðvirð múslimakona getur unnið á kaffihúsi að þeirra sögn! Þá veigra konurnar sér við að leita aðstoðar sérfræðinga því þær vilja ekki bera á torg að þær hafi orðið fyrir nauðgun. Í kvennahúsi þar sem þær sækja námskeið er auðveldara að dylja að þær séu um leið að leita sér áfallahjálpar.
    Svo sem áður segir er þegar búið að kaupa hús undir starf í þágu kvenna í Sarajevó. Þar er verið að skipuleggja námskeið í saumaskap, lestri og öðru sem að gagni má koma, auk þess að bjóða upp á viðtöl við sálfræðinga og lækna. Íslensk kona, dr. Vilborg Auður Ísleifs­dóttir sagnfræðingur, sem búsett er í Þýskalandi, hefur unnið ötullega að aðstoð við konur í Bosníu, einkum í samvinnu við konur í Þýskalandi, en þar í landi eru enn tugþúsundir flótta­manna frá Bosníu. Samkvæmt frásögn Vilborgar, sem er gjaldkeri Þýskalandsdeildar BISER, stuðningssamtakanna við Bosníukonur, vantar sárlega meira fé til að ljúka megi viðgerðum á húsinu. Meðan á stríðinu stóð var öllu steini léttara stolið úr því, m.a. voru rafleiðslur dregnar út, væntanlega til að selja á svartamarkaðnum í Sarajevó.
    Íslensk kvennasamötk ætla að styðja konur í Bosníu með margvíslegum hætti, m.a. með því að safna fé og kaupa saumavélar, en meira þarf til. Þessi þingsályktunartillaga er flutt til þess að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á því hve brýnt er að styðja konur í Bosníu og til að hvetja stjórnvöld og aðra til að leggja sitt af mörkum til stuðnings þolendum hörmu­legra stríðsátaka og voðaverka sem vonandi munu aldrei sjást aftur, hvorki á evrópskri grund né annars staðar.