Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 246 — 90. mál.



Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um breyttar reglur um örorkumat.

     1.      Hvað er hæft í fréttum um að yfir standi á vegum ráðuneytis og/eða Tryggingastofnunar endurskoðun á lagaákvæðum um örorkumat?
    Það er rétt.

     2.      Er tilgangur þeirrar vinnu að skilgreina „félagslega örorku“ sem nýtt hugtak og aðgreina hana frá annarri örorku, sbr. 12. gr. laga um almannatryggingar?
    Nei, hugtakið „félagsleg örorka“ er ekki til. Hinn „félagslegi“ þáttur gamla örorkuhugtaksins hefur falist í því að áskilja að læknisfræðilega metinn öryrki geti ekki aflað sér tekna á grundvelli hömlunar sinnar umfram ákveðin skilgreind mörk. Fari tekjur yfir þau þykir ljóst að hömlunin er ekki lengur til staðar, matið fellur úr 75% í 65%, ásamt ýmsum réttindum, t.d. lægri lyfjakostnaði, lægri þjálfunarkostnaði o.s.frv., og hefur kostað talsverða fyrirhöfn að fá matið hækkað á nýjan leik þegar þróttur til tekjuöflunar dvínar. Tilgangur endurskoðunarinnar er að skilgreina nýtt örorkuhugtak sem byggist fyrst og fremst á læknisfræðilegu mati, sem breytist ekki þótt til komi tímabundar tekjur öryrkjans. Það mat getur einungis breyst samkvæmt læknisfræðilegu endurmati, þar sem tekjuhæfi skiptir ekki máli.

     3.      Er það skoðun ráðherra að umtalsverður fjöldi einstaklinga sé nú metinn öryrkjar og þiggi bætur sem ekki uppfylla ákvæði 12. gr. almannatryggingalaga og ætti að flokkast sem „félagslegir öryrkjar“?
    Nei. Eftirfarandi er skipting öryrkja eftir örorkuástæðu og kyni árið 1996.

Sjúkdómaflokkur Konur Karlar     Hlutfallsleg skipting, %
Konur Karlar
Tauga- og geðsjúkdómar 1.553 1.154 36,2 38,1
Sjúkdómar í stoðkerfi 1.004 596 23,4 19,7
Hjarta- og æðasjúkdómar 412 293 9,6 9,7
Slys og eitranir 212 131 4,9 4,3
Sjúkdómar í öndunarfærum 187 167 4,4 5,5
Meðfæddar veilur 183 147 4,3 4,9
Krabbamein 165 126 3,8 4,2
Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómar 137 105 3,2 3,5
Húðsjúkdómar 108 96 2,5 3,2
Sjúkdómar í augum eða eyrum 103 89 2,4 2,9
Sjúkdómar í meltingarfærum 48 32 1,1 1,1
Aðrar sjúkdómsgreiningar 174 93 4,1 3,1
Samtals 4.286 3.029 100,0 100,0


     4.      Hver ber ábyrgð á því ef stórfelld mistök hafa orðið við örorkumat á undangengnum árum og mikill fjöldi einstaklinga þiggur örorkubætur frá almannatryggingum sem ekki ætti að fá þær?
    Ekkert bendir til þess að stórfelld mistök hafi átt sér stað við örorkumat á undanförnum árum. Örorkuhugtakið hefur falið í sér, eins og áður sagði, skert aflahæfi á grundvelli and­legrar eða líkamlegrar fötlunar. Aðvitað er mögulegt að í einhverjum tilfellum hafi skert aflahæfi vegið þyngra en þáttur fötlunarinnar og hugtakinu „mat“ fylgir jafnvel hætta á mannlegum mistökum þegar margir óræðir þættir liggja fyrir til álitsgerðar. Breytt örorku­hugtak breytir þessu hins vegar ekki og fullkomnun verður vart náð.

     5.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að fram fari opinber rannsókn á mistökum í örorkumati ef það er skoðun hans að slík mistök hafi verið gerð?
    
Nei, ekkert bendir til þess að slíkt sé nauðsynlegt. Tilgangur endurskoðunarinnar er sá að losna við að ákveðin tekjufjárhæð geti verið mælikvarði á örorku. Öryrkjabandalag Ís­lands hefur ítrekað sýnt áhuga á að þetta sjónarmið nái fram og frumvarp þess efnis fáist samþykkt.

     6.      Hyggst ráðuneytið hafa samráð við sveitarfélög ef líkleg niðurstaða af breyttum reglum um örorkumat er að útgjöld flytjist frá almannatryggingum yfir á sveitarfélög?
    Samkvæmt kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að ein­hver kostnaðarauki komi til vegna breytinganna. Útgjöld sjúkratrygginga við lyfja- og lækniskostnað og sjúkraþjálfun aukast en vægi fjárhagslegra aðstæðna minnkar við mat á örorku. Hins vegar ekki líklegt að sveitarfélög eða atvinnuleysistryggingar verði teljanlega vör við aukna ásókn af þessum sökum.