Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 264  —  144. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um rekstrarkostnað Pósts og síma.

     1.      Hver voru laun, lífeyrisréttindi og önnur starfskjör stjórnenda Pósts og síma, sundurliðað eftir stöðuheitum, fjölda stjórnenda og milli kynja, föstum launum, öðrum greiðslum, eins og stjórnargreiðslum, og hvers konar þóknunum og hlunnindum, þ.m.t. bílahlunn­indum og risnu á árunum 1993–96?
    Í svarinu eru stjórnendur skilgreindir allir æðstu stjórnendur Póst- og símamálastofnunar­innar en þeir voru ellefu talsins á árunum 1993–94 og tólf á árunum 1995–96. Öll starfsemi stofnunarinnar féll undir starfssvið þessara stjórnenda. Þeir skiptast í póst- og símamálastjóra, fjóra framkvæmdastjóra, þ.m.t. aðstoðarpóst- og símamálastjóra, fram til 1. mars 1995 en fimm frá þeim tíma, svo og sex umdæmisstjóra. Æðstu stjórnendur voru allir karlar.
    Enginn þeirra hafði bíl til umráða frá stofnuninni heldur notuðu þeir eigin bíla og voru gerðir við þá aksturssamningar samkvæmt reglum ríkisins. Nefndalaun skiptast á einungis þrjá stjórnendur og eru þau vegna tiltekinna nefnda. Þar sem engin stjórn var yfir stofnuninni voru engar stjórnargreiðslur greiddar. Allir stjórnendurnir höfðu heimilissíma sér að kostn­aðarlausu.
    Allir stjórnendurnir voru í Lífeyrissjóði starfmanna ríkisins og voru réttindi þeirra sam­kvæmt því. Í eftirfarandi töflu eru laun stjórnenda, sundurgreind eftir stöðuheitum.

1993 1994 1995 1996
Póst- og símamálastjóri og framkvæmdastjórar
Laun 16.477.786 18.316.068 22.342.740 25.018.958
Akstur, blandaður samningur 949.625 989.125 1.042.285 427.017
Akstur, kílómetragjald 176.952 97.678 287.713 399.398
Nefndalaun 451.852 51.852 51.852 200.000
Samtals 18.056.215 19.454.723 23.724.590 26.045.373
Umdæmisstjórar
Laun 15.987.396 16.278.008 16.962.924 18.898.309
Akstur, blandaður samningur 1.060.894 1.105.181 953.601 437.014
Akstur, kílómetragjald 1.197.929 1.355.604 1.135.002 1.325.150
Nefndalaun 0 0 0 0
Samtals 18.246.219 18.738.793 19.051.527 20.660.473
Samtals stjórnendur 36.302.434 38.193.516 42.776.117 46.705.846

     2.      Hver var ferðakostnaður erlendis árlega á árunum 1993–96, að báðum árum meðtöldum, hve margar ferðir voru farnar hvert ár um sig, hvernig sundurliðast kostnaðurinn milli flugfargjalds, gistikostnaðar og dagpeningagreiðslna? Sérstaklega er óskað sund­urliðunar á fjölda ferða stjórnenda og að tilgreindur sé árlegur sundurliðaður kostnað­ur við þær og ferðir maka þeirra, sé um það að ræða.
    Eftirfarandi tafla sýnir sundurliðaðan ferðakostnað allra ferða stofnunarinnar eftir flugfar­gjaldi, dagpeningum og öðrum erlendum kostnaði. Innifalinn í þessum ferðum er kostnaður við ferðir í þágu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, bandarísku strandgæslunnar vegna Loran C staðsetningarkerfisins og Ríkisútvarpsins vegna langbylgjusenda. Þessar ferðir eru greiddar af nefndum stofnunum. Einnig eru þar ferðir vegna símasæstrengsins CANTAT-3 og annarra samstarfsverkefna, einkum á vegum Evrópusambandsins, sem Póst- og símamála­stofnunin greiddi að hluta.
    Póst- og símamálastofnunin hefur ekki greitt ferðakostnað fyrir maka starfsmanna.

1993 1994 1995 1996
Fjöldi ferða 212 250 290 318
Fargjöld 13.509.428 17.836.151 21.633.220 23.079.908
Dagpeningar 20.599.355 27.031.871 25.151.280 31.293.973
Annar erlendur kostnaður 10.431 80.000 3.617.506 162.120
Samtals 34.119.214 44.948.022 50.402.006 54.536.001
Þar af:
Fjöldi ferða stjórnenda 31 32 37 39
Fargjöld 1.977.076 3.074.278 3.535.431 3.839.964
Dagpeningar 2.424.812 4.474.292 2.540.320 2.990.007
Samtals 4.401.888 7.548.570 6.075.751 6.829.971

    Í liðnum „annar erlendur kostnaður“ er kostnaður við Telecom 95, viðamikla sýningu í Genf á árinu 1995, þar sem Póst- og símamálastofnunin var með kynningu. Stofnunin greiddi gistikostnað starfsmanna sérstaklega, vegna verðlagsins þar, og voru dagpeningar starfsfólks­ins skertir sem nam gistihlutanum. Þar er einnig að finna minni háttar kostnað sem stofnað var til vegna funda erlendis.

     3.      Hvaða reglur giltu um bifreiðahlunnindi, risnu- og ferðakostnað stjórnenda?
     Bifreiðahlunnindi. Enginn stjórnenda fékk bíl til umráða frá stofnuninni heldur notuðu þeir eigin bíla í starfi sínu. Þeir höfðu allir aksturssamninga við stofnunina samkvæmt reglum ríkisins. Samningarnir voru svokallaðir blandaðir samningar með föstum 5.000–6.000 km á ári fram til 1. september 1995 þegar þeim var breytt í 2.000 km á ári. Auk þess fengu þeir greiddan akstur utan starfssvæða samkvæmt venjulegu gjaldi.
     Risna. Reglur um risnu voru samkvæmt „Reglum um risnuhald hjá ríkisstofnunum“ útgefnum á árinu 1992. Þeir sem gátu heimilað risnu voru Póst- og símamálastjóri, fram­kvæmdastjórar og umdæmisstjórar. Þó bar að fá sérstakt samþykki póst- og símamálastjóra ef risna fór yfir 50.000 kr.
     Ferðalög. Um ferðalög var farið eftir reglum fjármálaráðuneytisins og öðrum fyrirmælum þess. Farseðlar voru greiddir samkvæmt framlögðum reikningum. Gisti- og fæðiskostnaður var greiddur af dagpeningum nema á Telecom 95, eins og áður segir. Samgönguráðuneytið hefur samþykkt öll ferðalög erlendis með áritun á ferðaheimildir. Stofnunin hefur ekki greitt fyrir maka starfsmanna á ferðalögum erlendis.

     4.      Hver var árlegur risnukostnaður 1993–96, að báðum árum meðtöldum, sundurliðað eftir:
                  a.      fastri risnu greiddri einstökum stjórnendum,
                  b.      risnu greiddri samkvæmt reikningi,
                  c.      helstu þáttum risnunnar og kostnaði við hvern þeirra, auk helstu tilefna risnunnar?

    Föst risna var ekki greidd stjónendum.
    Í eftirfarandi töflu er sundurliðun á risnu fyrir árin 1993–96. Til norræna samstarfsins töld­ust fundir í Norræna póstsambandinu 1993 og 1995 og frímerkjasýningin NORDIA 96 árið 1996. Afmælin eru fjögur talsins. 75 ára afmæli Póstmannafélagsins 1994, 80 ára afmæli Fé­lags íslenskra símamanna 1995, 220 ára afmæli póstþjónustunnar á Íslandi og 90 ára afmæli símans árið 1996. Risna vegna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, og bandarísku strand­gæslunnar, Coast Guard, vegna Loran C var endurgreidd af þeim aðilum. Þá greiddi Evrópu­sambandið helming kostnaðar vegna AMUSE-verkefnisins, þ.m.t. risnu. AMUSE-verkefnið er samstarfsverkefni á vegum Evrópusambandsins. Risna sem borin var af stofnuninni lækkar því um þær fjárhæðir. Stærsti liðurinn í starfsmannatengdri annari risnu er kaffiboð til starfs­manna í tilefni sumarkomu (2.000 starfsmenn) og veitingar fyrir póstmenn við störf á háanna­tíma í desember (brauð og gos).
1993 1994 1995 1996
Til viðskiptaaðila 4.045.970 4.111.690 4.396.588 5.902.543
Norrænt samstarf 493.335 418.773 665.100
Fundir innan stofnunar 862.650 1.281.470 731.720 1.564.418
Starfsmannatengd önnur risna 1.031.571 2.292.252 2.570.458 2.305.360
Afmæli póstreksturs, símareksturs og starfsmannafélaga 239.677 248.445 4.965.469
AMUSE-fundir 532.925
Fundir ICAO og Coast Guard 101.160 112.648 113.773 838.138
Samtals 6.534.686 8.037.737 8.479.757 16.773.953

     5.      Var farið í laxveiðiferðir á vegum Pósts og síma? Ef svo er, hvernig skiptist árlegur kostnaður við þær á árunum 1993–96 milli laxveiðileyfa og annarra útgjalda vegna ferðanna. Hve margar ferðir voru farnar á ári hverju, hvert var farið, hverjir voru þátt­takendur í slíkum ferðum og hver voru tilefni þeirra?
    Á árinu 1994 var keypt veiðileyfi af Veiðifélagi Laxár og Krakár fyrir 26.850 kr. Um var að ræða leyfi fyrir tvær stangir í tvo daga á silungasvæði Laxár í Aðaldal. Boðið var forstjóra erlends viðskiptaaðila. Með honum var einn af yfirverkfræðingum stofnunarinnar. Annar kostnaður, við ferðir og uppihald, nam 88.965 kr.

     6.      Hverjir tóku ákvarðanir um ferðir stjórnenda erlendis og laxveiðar, sé um þær að ræða?
    Ákvarðanir um ferðir stjórnenda til útlanda voru teknar af Póst- og símamálastjóra með heimild frá Samgönguráðuneytinu hverju sinni. Þessi regla gilti raunar um allar ferðir starfs­fólks Póst- og símamálastofnunarinnar til útlanda.