Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 440  —  342. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um landslið hestamanna.

Flm.: Guðni Ágústsson, Hjálmar Árnason, Jónas Hallgrímsson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að koma á fót landsliði hestamanna, allt að tíu manna, af báðum kynjum og á öllum aldri, sem falið verði að kynna íslenska hestinn, t.d. með því að koma fram fyrir Íslands hönd við hátíðleg tækifæri og opinberar móttökur er­lendra þjóðhöfðingja. Skipaður verði starfshópur sem móti nánari tillögur um hvernig kostn­aði verður mætt og um hlutverk liðsins.

Greinargerð.


    Íslenski hesturinn hefur vakið verðskuldaða athygli um víða veröld. Hann á vart sinn líka hvað fjölhæfni varðar í gangi og geðslagi og er einn dýrmætasti þjóðararfur sem Íslendingar eiga. Hann er eftirsóttur fjölskylduhestur í fjölmörgum löndum, dýrmæt aukabúgrein bænda en þeim fjölgar ört sem sinna eingöngu tamningu og ræktun hestsins hér á landi. Íslenskir hestamenn eiga góð viðskiptasambönd í mörgum löndum og talið er að árlega komi þúsundir ferðamanna hingað eingöngu vegna þess að þeir hafa bundist íslenskum hestum og hesta­mönnum tryggðaböndum.
    Flutningsmenn telja að það sé þess virði að gera hlut hestsins meira áberandi við móttöku erlendra gesta, ekki síst þjóðhöfðingja. Þá standi landsliðið heiðursvörð, fólk á öllum aldri, karlar og konur, og sýni úrval íslenskra gæðinga í allri sinni litadýrð. Þessi heiðursvörður væri mikil andstaða við hermanninn með byssustinginn. Enn fremur leggja flutningsmenn til að um helgar á sumrin fari skrautreið hestamanna niður Almannagjá á Þingvöllum. Þetta væri gert til að leggja áherslu á helgi Þingvalla og hversu hesturinn er samofinn sögu þjóðar­innar og stór hluti af henni. Þingvellir eiga vart sinn líka og slík reið mundi auglýsa land og þjóð.
    Það er skoðun flutningsmanna að landslið hestamanna mundi í senn auglýsa íslenska hest­inn sem fjölskylduhest, skapa þjóðinni sérstöðu og efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein.