Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 449  —  345. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að auka fræðslu og upplýsingar fyrir almenning um Evrópumálefni og milliríkjasamninga.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Sighvatur Björgvinsson, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Jóhanna Sigurðardóttir, Svavar Gestsson, Rannveig Guðmundsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að auka fræðslu og upplýsingar fyrir almenning um EES-samninginn og áhrif hans á íslenska löggjöf og íslenskt samfélag. Stefnt verði að því að upplýsa almenning um breytingar sem snerta daglegt líf fólks, réttindi þess og skyldur, svo og þær breytingar aðrar sem orðið hafa eða eru í vændum í tengslum við samninginn um EES og aðra milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Jafnframt verði veittar upplýsingar um þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni á vettvangi Evrópusambandsins og kunna að hafa áhrif á íslenskt samfélag og evrópskt samstarf. Upplýsingunum verði miðlað á auðskiljanlegan hátt þannig að allir hafi greiðan aðgang að þeim, t.d. með útgáfu blaða og/eða bæklinga sem komi út eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári.

Greinargerð.


    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur haft veruleg áhrif á íslenskt samfélag frá því að hann tók gildi fyrir tæplega fimm árum. Þau áhrif hafa birst í lögum og reglum er lúta að flestum sviðum samfélagsins. Þegar umræðan um gerð samningsins stóð sem hæst var mest rætt um áhrif hans á utanríkisviðskipti Íslendinga, einkum útflutning sjávarafurða, og um það hvort Íslendingar væru að missa sjálfsákvörðunarrétt og forræði í eigin málum. Lítið var rætt um önnur áhrif samningsins, ýmiss konar réttindi og skyldur, og má þar nefna sem dæmi samkeppnislöggjöfina, félagsleg réttindi til handa íslensku launafólki eða aukna mögu­leika íslenskra náms- og vísindamanna á samstarfi við erlendar skóla- og rannsóknastofnanir. Þá var lítið rætt um aukinn beinan og óbeinan kostnað ríkissjóðs af samningnum eða þær skuldbindingar sem fælu í sér aukinn kostnað fyrir aðra aðila, t.d. sveitarfélögin.
    Fjölmargir Íslendingar hafa hagnýtt sér þau tækifæri sem EES-samningurinn hefur skapað og sennilega eru þau fyrirtæki í landinu fá sem ekki hafa að einhverju leyti orðið að breyta starfsemi sinni svo að hún samrýmist evrópskri löggjöf eða hafa orðið fyrir áhrifum þeirrar löggjafar á annan hátt. Ýmsar kvaðir hafa fylgt samningnum sem hafa haft áhrif á líf ein­staklinga og á rekstur fyrirtækja og sveitarfélaga.
    Það er hins vegar ljóst að töluvert vantar upp á að almenningur hafi nægan aðgang að upp­lýsingum á skýru og auðskiljanlegu máli um þau áhrif sem samningurinn hefur á daglegt líf í landinu. Þar má nefna upplýsingar um margvíslegar reglur um neytendavernd, áhrif sam­keppnislaga á vöruverð og samkeppni á mörgum sviðum verslunar og viðskipta, breytingar á starfsháttum dómstóla, nýjar reglur um vinnuvernd og réttindi launafólks, vinnutímatilskip­unina, reglur um fæðingarorlof og svo mætti áfram telja. Þörf er á að upplýsa íslenskan al­menning um margvísleg réttindi sem EES-samningurinn veitir þeim sem ferðast, búa eða starfa í aðildarlöndum hans, svo sem til atvinnu, náms og aðgangs að heilbrigðis- og félags­þjónustu, en einnig um þær skyldur sem í samningnum felast.
    Úr þessu þarf að bæta, auk þess sem ljóst er að þörfin fyrir upplýsingar vex stöðugt vegna þess að sífellt bætast nýjar reglur, gjörðir og tilskipanir frá Evrópusambandinu við samning­inn og íslenska löggjöf.
    Það er því skylda stjórnvalda að auðvelda almenningi að fylgjast með, skilja og tileinka sér þær margháttuðu breytingar sem samningurinn hefur í för með sér. Í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað í samfélaginu um aukin samskipti Íslands og Evrópusambandsins og stöðu okkar í Evrópusamstarfinu er það lýðræðisleg skylda stjórnvalda að veita almenningi upplýs­ingar um allt það sem varðar þessi samskipti; skylda til að veita greinargóðar, hlutlægar og aðgengilegar upplýsingar um inntak og eðli evrópsks samstarfs og öll áhrif þess á íslenskt þjóðfélag. Það sama á við hvað varðar upplýsingar um aðra milliríkjasamninga og/eða alþjóð­lega samninga sem Ísland er eða kann að verða aðili að.
    Flutningsmenn telja rétt að slíkar upplýsingar verði veittar á margvíslegan hátt, svo sem með útgáfu bæklinga og á alnetinu, en einnig er nauðsynlegt að hefja útgáfu fréttablaðs sem komi út reglulega, eigi sjaldnar en ársfjórðungslega en oftar ef þurfa þykir. Þar birtist á auð­skiljanlegu máli þær upplýsingar sem snerta almenning mest. Birtar verði nýjungar sem bæt­ast við íslenska löggjöf í krafti EES-samningsins jafnóðum og Alþingi staðfestir þær auk þeirra samþykkta og reglugerða sem samningnum fylgja. Þá er nauðsynlegt að fréttablaðið fylgist með þróuninni á vettvangi Evrópusambandsins og greini frá þeim hugmyndum sem þar eru uppi á hverjum tíma og kunna að hafa áhrif á evrópskt samstarf og stöðu Íslands með­al þessara þjóða.
    Allir flokkar hafa lýst því yfir að ef til þess kæmi að Ísland sækti um aðild að Evrópusam­bandinu yrði það borið undir þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu. Slík yfirlýsing stjórnmála­flokka hlýtur að fela í sér vilja til að standa skipulega að miðlun upplýsinga til að auka þekk­ingu almennings.