Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 453  —  251. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar um stefnumótun í heilbrigðismálum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hefur breyst frá því eftirfarandi stefnumótun var sett fram af heilbrigðisráðuneytinu í mars 1997: „Þeirri meginreglu verður fylgt að upplýsingar séu varðveittar þar sem þær verða til. Ekki er áformað að setja upp miðlæga gagnabanka með persónutengdum upplýs­ingum um heilsufarsmálefni.“ (Stefnumótun í upplýsingamálum innan heilbrigðiskerfisins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, rit 1 1997, 3. liður, bls. 4.) — og þar til frumvarpið um gagnagrunn á heilbrigðissviði kom fram ári síðar?

    Stefna sú sem sett var fram í ritinu „Stefnumótun í upplýsingamálum innan heilbrigðis­kerfisins“ hefur ekki breyst. Þótt ekki sé gert ráð fyrir miðlægum gagnagrunni með ópersónu­greinanlegum heilsufarsupplýsingum í fyrrgreindri stefnumótun er hann einungis viðbót við þau upplýsingakerfi sem þar er gert ráð fyrir og fer á engan hátt gegn þeim markmiðum sem sett voru fram í ritinu. Samkvæmt frumvarpi um gagnagrunn á heilbrigðissviði verða heilsu­farsupplýsingar varðveittar þar sem þær verða til þótt þær verði einnig afritaðar og fluttar í miðlægan gagnagrunn. Ekki er heldur áformað að setja upp miðlægan gagnabanka með persónutengdum upplýsingum um heilsufarsmálefni, heldur með ópersónutengdum upplýs­ingum.
    Eitt af mikilvægustu markmiðunum sem sett er fram í fyrrgreindu riti er að „byggð verði upp samhæfð upplýsingakerfi fyrir stofnanir heilbrigðisþjónustunnar“ (bls. 10). Öllum var hins vegar ljóst að þar var um að ræða afar dýrt og viðamikið verkefni sem tæki mörg ár að hrinda í framkvæmd. Eins og fram kemur í frumvarpi til laga um gagnagrunn á heilbrigðis­sviði er gert ráð fyrir að sá sem fær leyfi til að starfrækja miðlægan gagnagrunn á heilbrigðis­sviði greiði allan kostnað við uppbyggingu samhæfðra upplýsingakerfa heilbrigðisstofnana. Með gerð miðlægs gagnagrunns skapast því möguleikar á að byggja upp dreifða gagnagrunna á fáum árum og ná þannig markmiðum heilbrigðisráðuneytisins í upplýsingamálum heilbrigð­iskerfisins miklu fyrr en annars gæti orðið.