Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 521  —  106. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, sbr. lög nr. 22/1995.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hlutinn telur að í íslensku sé fólk yngra en u.þ.b. 12 ára kallað börn, fólk á aldrinum 13–19 ár unglingar og eldra fólk fullorðið. Nú er samkvæmt reglum utan úr heimi búin til ný íslensksa þar sem allt fólk yngra en 18 ára er nefnt börn. Þetta er dæmigert „lögfræðimál“, sem oft hefur verið gagnrýnt og getur myndað gjá milli þeirra sem túlka lög og almennings. Þrátt fyrir andstöðu við slíka málnotkun leggur minni hlutinn ekki til breytingar á þessu atriði, enda er hina nýju málnotkun þegar að finna í fjölda lagabálka. Eðlilegra hefði verið að tala alls staðar um „börn og unglinga“ í staðinn fyrir „börn og ungmenni“ þegar aldurs­mörk sjálfræðis voru hækkuð.
    Samkvæmt 24. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að barnaverndarnefnd skipi barni tals­mann. Við þessa tilhögun hefur minni hlutinn eftirfarandi að athuga:
    Mörg mál sem koma til kasta barnaverndarnefnda eru viðkvæmustu mál sem yfirvöld fjalla um yfirleitt. Vistun unglings á opinberri stofnun gegn vilja hans er dæmi um þetta, sem og taka barns af heimili foreldra sinna. Þó að barnaverndarnefnd starfi með hagsmuni barnsins í huga er hún engu síður óvinur barnsins frá sjónarhorni þess þegar gera á svo veigamiklar ráðstafanir á högum þess og foreldra þess. Ef nefndin sjálf skipar barninu talsmann, jafnvel einn úr nefndinni, er hætt við að sá talsmaður eigi trauðla trúnað barnsins. Hann er þó skip­aður til að aðstoða barnið og verður því að eiga trúnað þess. Þess vegna er mikilvægt að tals­maður barnsins sé óháður barnaverndarnefndinni í erfiðri stöðu þess milli foreldra sinna og nefndarinnar. Sömu rök eiga við um unglinga sem sæta nauðungarvistun. Því leggur minni hlutinn til að talsmaðurinn verði skipaður af umboðsmanni barna.
    Rök hafa komið fram um að umboðsmaður barna eigi ekki að skipta sér af einstökum mál­um og því sé óeðlilegt að hann skipi slíkan talsmann. Því er til að svara að talsmaðurinn er ekki starfsmaður umboðsmanns barna frekar en margir aðilar sem tilnefndir eru af Hæstarétti eru ekki starfsmenn hans.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Lokamálsgrein 24. gr. orðist svo:
    Barnaverndarnefnd ber að skipa barni talsmann samkvæmt tilnefningu umboðsmanns barna til að gæta hagsmuna þess ef þörf krefur.

Alþingi, 16. des. 1998.



Pétur H. Blöndal.