Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 648  —  304. mál.



Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Pálssonar um bifreiðakaupa­styrki til fatlaðra.

     1.      Hve há fjárhæð hefur verið veitt árlega í fjárlögum í bifreiðakaupastyrki til fatlaðra árin 1993–98 samkvæmt reglum Tryggingastofnunar ríkisins í samræmi við heimild í lögum um almannatryggingar?
    Fjárveitingar til bifreiðakaupastyrkja eru annars vegar skv. 11. laga um félagslega aðstoð og hefur komið til sérstök fjárveiting á fjárlögum til þess liðar og svo hins vegar skv. 33. gr. laga um almannatryggingar, en fjárveiting til þess liðar hefur komið úr sjúkratryggingum al­mannatrygginga. Fjárveitingar til bifreiðakaupastyrkja hafa verið sem hér segir:

Ár Á fjárlögum Til ráðstöfunar Notað í styrki
1993 180.000.000 176.000.000 160.112.168
1994 154.000.000 176.000.000 145.665.311
1995 160.000.000 176.000.000 158.972.108
1996 80.000.000 113.725.000 97.820.346
1997 80.000.000 113.725.000 109.320.383
1998 80.000.000 113.725.000 98.245.000

     2.      Hve háir eru þessir styrkir á hvern einstakling og hvernig skiptast þeir eftir fötlun eða aðstæðum árin 1993–98?
    Hreyfihamlaðir elli- og örorkulífeyrisþegar, örorkustyrkþegar og umönnunarbótaþegar, sem ekki eru eldri en 70 ára, geta sótt um styrk til bifreiðakaupa hjá Tryggingastofnun ríkis­ins. Um er að ræða 50 svokallaða hærri styrki og 335 lægri styrki. Fram til ársins 1996 var 600 lægri styrkjum úthlutað. Hærri styrkir eru eingöngu veittir fólki í hjólastól. Frá 1993 hefur upphæð lægri styrks verið 235 þús. kr., en upphæð hærri styrks 700 þús. kr.
    Þá er heimilt að greiða styrk allt að 40% af kaupverði bifreiðar sé um að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna fötlunar. Árlegar hafa 4–7 ein­staklingar fengið þessa styrki og hefur styrkupphæð verið 1–1,5 millj. kr. fyrir hvern þeirra.

     3.      Hve margir hafa sótt um styrk árlega á þessu tímabili og hve margir þeirra hafa fengið úthlutað?
Ár Fjöldi umsækjenda Hærri styrkir Lægri styrkir – Hlutfall
1993 1.054 50 (50 ) 532 (600 ) 89%
1994 1.083 50 (50 ) 470 (600 ) 78%
1995 1.104 50 (50 ) 527 (600 ) 88%
1996 1.111 50 (50 ) 267 (325 ) 80%
1997 722 50 (50 ) 316 (325 ) 94%
1998 778 50 (50 ) 335 (335 ) 100%
1999 909

     4.      Hve mörgum hefur verið synjað um styrk þó að þeir hafi fallið undir samþykktar reglur?
    Nær allir sem fengið hafa synjun hafa fallið undir samþykktar reglur.

     5.      Hvernig hafa úthlutunarreglur breyst frá árinu 1993?
    Með reglugerð nr. 62 frá 22. janúar 1996 voru gerðar þrjár breytingar á reglum um bif­reiðastyrki:
     1.      Styrkir voru nú veittir til 5 ára í stað 4 ára áður.
     2.      Aldurshámark umsækjenda var fært úr 75 árum í 70 ár.
     3.      Lægri styrkjum var fækkað úr 600 í 335 styrki.

     6.      Eru fyrirhugaðar breytingar á reglum um úthlutun bifreiðakaupastyrkja til fatlaðra, og þá hverjar?
    Nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að gera tillögur um úrbætur í bifreiðamálum hreyfihamlaðra hefur skilað ítarlegu nefndaráliti. Tillögur hennar hafa verið í athugun og til endurskoðunar í ráðuneytinu nú undanfarið og munu væntanlega koma fram sem frumvarp á þessu þingi þar sem lagðar verða til nokkrar breytingar á þessum málaflokki.