Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 688  —  415. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Gísli S. Einarsson.



1. gr.

    173. gr. a laganna orðast svo:
    Hver sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur manni í té ávana- og fíkni­efni gegn gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt skal sæta fangelsi allt að 12 árum en ekki skemur en tvö ár.
    Sömu refsingu skal sá sæta sem gegn ákvæðum nefndra laga flytur inn, býr til, kaupir, flyt­ur út, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt sem er greint er í 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Fíkniefna- eða eiturlyfjavandinn er ein alvarlegasta hættan sem blasir við samfélagi okkar, einkum gagnvart ungu fólki. Þessi vandi er vaxandi hérlendis. Frumvarpinu er ætlað að taka á einum þætti vandans en í því er lagt til að refsingar fyrir brot á lögum um ávana- og fíkni­efni verði þyngdar.
    Í núgildandi lögum er ekki lágmarksrefsing fyrir fíkniefnabrot. Í frumvarpinu er lagt til að lágmarksrefsing verði tvö ár og að jafnframt verði hámarksrefsing fyrir fíkniefnabrot hækkuð úr 10 árum í 12 ár. Flutningsmenn telja að brýnt sé að þyngja refsirammann fyrir fíkniefnabrot eins og hér er lagt til. Núgildandi ákvæði voru sett fyrir 25 árum eða árið 1974 og þyngsti dómur sem kveðinn hefur verið upp í fíkniefnamáli hérlendis hljóðaði upp á sex ára fangelsi. Það er dómstóla að útfæra refsingu eftir lögum, en samþykki Alþingi þetta frum­varp er vilji löggjafans ótvírætt að þyngja refsingar við fíkniefnabrotum.
    Ekki liggja fyrir tölfræðilegar upplýsingar um fíkniefnabrot. Hins vegar gerðu Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður T. Magnússon athugun árið 1997 á ákvörðun refsinga fyrir þjófnað­arbrot og líkamsárásir. Borin voru saman tvö tímabil, 1950–59 og 1994–95. Helstu vísbend­ingar athugunarinnar eru að brotum af þessu tagi hafi fjölgað verulega en refsing fyrir sam­bærileg brot hafi litlum eða engum breytingum tekið í tæpa hálfa öld.
    Í könnun Helga Gunnlaugssonar frá 1994 um viðhorf Íslendinga til afbrota 1989–94 kom í ljós að fíkniefnaneysla er það afbrot sem almenningur telur vera mesta vandamálið hérlend­is. Mikill meiri hluti almennings eða yfir 80% telur samkvæmt þessari könnun að refsingar séu helst til vægar eða alltof vægar.
    Flutningsmönnum þykir ástæða til þess að benda á önnur úrræði sem geta spornað við fíkniefnavandanum, svo sem aukna fræðslu, forvarnir og meiri áherslu á meðferðarúrræði ungmenna sem hafa leiðst út í neyslu eiturlyfja. Einnig er vert að vekja sérstaka athygli á hug­mynd sem Jörundur Guðmundsson varpaði fram í þingræðu á Alþingi í haust. Þar lagði hann til að í flughöfnum og annars staðar þar sem ferðamenn koma til landsins yrðu sett upp stór skilti á helstu tungumálum þar sem vakin væri athygli á þungum refsingum fyrir smygl á fíkniefnum. Hann vísaði til ýmissa landa sem beitt hefðu þessu einfalda úrræði á árangursrík­an hátt. Að mati flutningsmanna ætti strax að hrinda þessu í framkvæmd á Keflavíkurflug­velli.
    Í frumvarpinu er jafnframt lagt til almennara orðalag en er í núgildandi lögum. Þess má geta að lagagrein frumvarpsins tilheyrir þeim kafla hegningarlaganna sem fjallar um brot sem hafa í för með sér almannahættu. Fíkniefnabrot eins og smygl á eiturlyfjum eru vaxandi vandamál í heiminum og víða eru mun þyngri refsingar við fíkniefnabrotum en tíðkast hér­lendis. Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að taka á smygli og sölu á eiturlyfjum en refsing­ar fyrir þau brot hafa ekki dugað til að draga úr þessu vandamáli. Flutningsmenn telja sérstak­lega alvarlegt þegar börnum eða ungmennum undir lögaldri eru látin í té ávana- og fíkniefni. Eiturlyfin verða sífellt hættulegri og fjölmargir Íslendingar, einkum ungt fólk, hafa látið lífið af þeirra völdum. Þótt auknar refsingar séu ekki alltaf besta ráðið til að stemma stigu við glæpsamlegu athæfi er það mat flutningsmanna að hertar refsingar séu rétt leið við núverandi aðstæður í baráttunni við fíkniefni.