Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 719  —  358. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Ágústs Einarssonar um svæðisskipulag fyrir miðhálendið.

    Upplýsinga var aflað hjá Skipulagsstofnun. Þar sem ekki liggur fyrir endanlegt uppgjör kostnaðar við gerð svæðisskipulags miðhálendisins ber að líta á tölur sem hér gefnar upp sem bráðabirgðatölur.

     1.      Hversu miklu fé hefur verið varið í svæðisskipulag fyrir miðhálendið, hvernig er sundurliðun þess og til hverra hafa greiðslur runnið?
    Heildargreiðslur Skipulagsstofnunar á árunum 1994–98 vegna svæðisskipulags miðhálendisins hafa verið 41,1 millj. kr. Þessar greiðslur skiptast þannig:
millj. kr.

    Funda- og kynnisferðakostnaður
1,6

    Útboð, auglýsingar, kynningar og fjölföldun
3,8

    Grunngögn og sérfræðivinna
3,6

    Kostnaður vegna stjórnsýslumarkahóps
1,0

    Laun og dagpeningar
formanns og dagpeningar starfsmanna Skipulagsstofnunar
1,7

    75% af þóknun til ráðgjafa með verðbótum og virðisaukaskatti
29,4

    Til frádráttar endurgreiddur virðisaukaskattur
-6,3

    Samtals
34,8


    Af þóknun til ráðgjafa hefur Skipulagsstofnun fengið endurgreiddan virðisaukaskatt að upphæð samtals 6,3 millj. kr. og er kostnaður stofnunarinnar því 34,8 millj. kr.
    Af þóknun til ráðgjafa hafa héraðsnefndir sem áttu aðild að samvinnunefndinni greitt 25% eða 9,8 millj. kr. Héraðsnefndir hafa auk þess greitt allan kostnað af setu fulltrúa sinna í samvinnunefndinni, svo sem við ferðir og fundi, og hefur Skipulagsstofnun ekki yfirlit yfir hann.
    Greiðslur hafa runnið til Framkvæmdasýslunnar, Svansprents, Samskipta, fjölmiðla (aug­lýsingar), Náttúrufræðistofnunar, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landgræðslu ríkis­ins, Landmælinga Íslands, Ísgrafs, Orkustofnunar, Fornleifastofnunar Íslands, stjórnsýslu­markahóps, Landmótunar ehf. og til greiðslu launa formanns og dagpeninga hans og starfs­manna Skipulagsstofnunar.

     2.      Hverjir bera faglega ábyrgð á vinnu við svæðisskipulagið?
    Árið 1993 var með lögum nr. 73/1993 bætt bráðabirgðaákvæði við skipulagslög, nr. 19/1964, sem gerði kleift að skipa sérstaka samvinnunefnd sem í ættu sæti einn fulltrúi frá hverri héraðsnefnd sem liggur að miðhálendinu í stað þess að í samvinnunefnd ættu sæti tveir fulltrúar frá hverju þeirra 38 sveitarfélaga sem lágu að miðhálendinu eins og gert var ráð fyr­ir í skipulagslögunum þegar um samvinnunefnd á vegum sveitarfélaga væri að ræða. Um­hverfisráðherra skipaði samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu formann nefndarinnar en ekki skipulagsstjórn ríkisins eins og lögin gerðu annars ráð fyrir.
    Hinn 13. október 1994 staðfesti umhverfisráðherra reglur fyrir samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið en í henni áttu sæti 13 fulltrúar. Heimild til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétt hafði skipulagsstjóri ríkisins og fulltrúi hans sem var ritari nefndarinnar.
    Hlutverk samvinnunefndarinnar var að vinna að svæðisskipulagi fyrir miðhálendi Íslands, sbr. 2. kafla skipulagsreglugerðar, nr. 318/1985, eftir því sem við átti.
    Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins bar faglega ábyrgð á vinnu við svæðis­skipulagið og skipulagsstjóri bar faglega ábyrgð á þeirri ráðgjöf sem embætti hans veitti nefndinni.

     3.      Hvað bárust mörg tilboð þegar vinna við svæðisskipulag fyrir miðhálendið var boðin út árið 1994, hversu há voru þau, frá hverjum, hvaða tilboði var tekið og hvaða fag­legar forsendur voru lagðar til grundvallar ákvörðuninni?
    Í forvali sem fram fór 2.–24. maí 1994 á vegum Framkvæmdasýslunnar sendu 16 aðilar inn upplýsingar. Framkvæmdasýslan valdi í samráði við Skipulag ríkisins úr þeim hópi fimm aðila til að taka þátt í lokuðu útboði. Að ósk umhverfisráðherra var þeim aðilum fjölgað í tíu. Tilboð bárust frá níu aðilum og voru þau opnuð 10. ágúst 1994:
millj. kr.

1. Alfa, Fjarhitun og Hagvangur
24,7

2. Landmótun
26,7

3. Lendisskipulag
27,5

4. Skipulags-, arkitekta- og verkfræðistofan
39,3

5. Nýsir
43,3

6. Ragnhildur og Ögmundur, Línuhönnun og LH-tækni
49,5

7. Landslagsarkitektar, Ingvi Þorsteinsson og Almenna verkfræðistofan
49,8

8. Gylfi Guðjónsson og Pétur Jónsson
53,9

9. Vinnustofa arkitekta og VS
149,8


    Ákveðið var að taka tilboði Landmótunar. Í útboðsgögnum var tekið fram að ekki væri sjálfgefið að lægsta tilboði yrði tekið. Framkvæmdasýslan úrskurðaði að tilboð Alfa, Fjarhit­unar og Hagvangs uppfyllti ekki ákvæði laga um lokað útboð þar sem hópurinn sem gerði tilboðið var ekki sá sami og valinn var í forvali.
    Framkvæmdasýslan fór yfir tilboð í samráði við Skipulag ríkisins, mat þau og gerði til­lögu til samvinnunefndar um hvaða tilboði yrði tekið. Lagt var mat á reynslu bjóðenda, stjórnunarhæfni, áreiðanleika, færni og ýmislegt fleira, sbr. upplýsingar sem bjóðendur gáfu sjálfir í forvali og útboði, svo og viðmiðanir sem fram komu í kafla B í útboðslýsingu.

     4.      Hefur kostnaður við svæðisskipulagið farið fram úr því tilboði sem tekið var, sbr. 3. lið? Ef svo er, hvers vegna, hversu mikið, hver ber ábyrgð á því og hafa útgjöld ríkis­ins aukist vegna þessa umfram það sem áætlað var?
    Ráðgjafarkostnaður við gerð svæðisskipulagsins hefur verið meiri en fyrsti samningur við ráðgjafa á grundvelli tilboðs gerði ráð fyrir. Samvinnunefndin ákvað í tvígang að gera við­bótarsamninga við ráðgjafa og má það rekja til nánari afmörkunar skipulagssvæðisins, tafa á afhendingu grunngagna, nákvæmari útfærslu tillögu í greinargerð og á uppdrætti, mikillar fjölgunar funda, fjölgunar kynnisferða, verulega aukins umfangs kynningar verksins, leng­ingar auglýsingatíma og fjölda innsendra athugasemda, breytinga á gögnum vegna athuga­semda og undirbúnings fyrir prentun. Í því sambandi er bent á svör við fyrirspurnum frá bjóðendum vegna útboðsins þar sem kemur fram að ákveðið hafi verið að samið yrði sérstak­lega við ráðgjafa ef samvinnunefnd ákvæði að breyta skipulagsgögnum í kjölfar formlegrar auglýsingar.
    Viðbótarsamningur sem gerður var við Landmótun 23. júlí 1996 var að upphæð 5 millj. kr. og viðbótarsamningur sem gerður var 29. maí 1998 6,7 millj. kr. eða samtals 11,7 millj. kr. með virðisaukaskatti. Af þeirri upphæð greiddu héraðsnefndir 25%.
    Ábyrgð á því að verkið fór fram úr áætlun og að gerðir voru viðbótarsamningar bera sam­vinnunefnd og skipulagsstjóri ríkisins sem skrifaði undir samninga f.h. verkkaupa.
    Að frádregnum virðisaukaskatti, sem er endurgreiddur, og hlut héraðsnefnda hafa útgjöld ríkisins vegna skipulagsráðgjafa aukist um 6,7 millj. kr. miðað við þann samning sem gerður var við ráðgjafa á grundvelli tilboðs árið 1994.

     5.      Var tekið fullt tillit til fyrri samþykkta Alþingis um landnotkun á miðhálendinu við gerð skipulagsins og hvað bindur það landnotkun á þessu svæði til margra ára ef það hlýtur staðfestingu ráðherra?
    Að svo miklu leyti sem Alþingi hefur tekið ákvarðanir um landnotkun á miðhálendinu hef­ur verið tekið tillit til þess að öðru leyti en því að samvinnunefndin gerði sérstakan fyrirvara um stærð Eyjabakkalóns vegna fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.
    Í svæðisskipulaginu er gerð áætlun um landnotkun til ársins 2015. Staðfesting svæðis­skipulagsáætlana er ekki tímabundin, en samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, ber að meta að afloknum sveitarstjórnarskosningum hvort nauðsynlegt er að endur­skoða svæðisskipulag. Þess utan er unnt að gera einstakar breytingar á svæðisskipulagsáætl­un, sbr. 14. gr. laganna.
    Ætla verður að lagareglur um meðferð skipulagsáætlana muni líka eiga við um endurskoð­un og möguleika á breytingum svæðisskipulags miðhálendis.
    Verði frumvarp umhverfisráðherra til breytinga á skipulags- og byggingarlögum sem nú liggur fyrir Alþingi að lögum verður að gera ráð fyrir að nefnd sú sem komið verður á lagg­irnar muni fylgja fyrirmælum laganna um meðferð og framkvæmd svæðisskipulagsins.

     6.      Hvaða umhverfissjónarmið voru lögð til grundvallar við gerð skipulagsins, hvernig var tekið tillit til þeirra og til hvaða ráðgjafa var leitað á því sviði?
    Í kafla 1.3 í útboðsgögnum segir að aðalatriðið sé að nýting verði á þann veg að ákvarð­anir séu teknar að vel athuguðu máli, jafnvægi haldist og manngert umhverfi styrki frekar náttúrulegt umhverfi en eyðileggi það, sbr. þau meginmarkmið sem fram komu í útboðsgögn­um af hálfu verkkaupa. Þessi markmið eru að:
          varðveita sem best landslag og ásýnd svæðisins,
          vernda náttúru og menningarminjar,
          vernda gróður og lífríki,
          skilgreina svæði til uppgræðslu og gróðurverndar,
          heildarstefna verði mörkuð í leyfisveitingum fyrir mannvirkjagerð á hálendinu,
          ekki verði ráðist í mannvirkjagerð nema ljós séu áhrif hennar á umhverfið,
          skilgreina vegakerfið, bæta samgöngur á helstu leiðum og draga þannig úr akstri utan vega,
          skilgreina virkjanasvæði, svæði fyrir uppistöðulón og framtíðarlegu háspennulína,
          velja hálendismiðstöðvum stað,
          velja svæði fyrir þyrpingar fjallaskála,
          skilgreina veiðirétt og aðra hlunnindanýtingu,
          skilgreina nýtanleg vatnsból,
          gera tillögur til úrbóta í sorp- og frárennslismálum.
    Í kafla 1.1 í útboðsgögnum kemur jafnframt fram að miðhálendi Íslands hafi sérstöðu sem sé auðlind sem á engan hátt megi eyðileggja og að þau svæði þar sem byggingarframkvæmd­ir verða heimilaðar skuli vera eins fá og kostur er.
    Einnig skal bent á að samvinnunefnd auglýsti tvívegis í blöðum sumarið 1994 eftir hug­myndum hagsmunaaðila að nýtingu eða skipulagi á svæðinu í heild eða einstökum hlutum þess. Hugtakið hagsmunaaðili var skilgreint í auglýsingunni sem allir notendur svæðisins, einstaklingar jafnt sem stofnanir eða félagasamtök. Hugmyndir bárust frá um 20 aðilum.
    Framangreind umhverfissjónarmið voru höfð til hliðsjónar við vinnslu svæðisskipulags­tillögunnar. Í henni:
          eru skilgreind svæði sem hafa verndargildi vegna sérstaks náttúrufars og gerðar tillögur um verndun þeirra,
          er reynt að takmarka allar framkvæmdir við sérstök mannvirkjabelti og þá miðað við að halda sem stærstum ósnortnum víðernum á hálendinu,
          eru gerðar tillögur um staðsetningu hálendismiðstöðva og skálasvæða,
          er vegakerfið flokkað og tillögur gerðar um meginleiðir og miðað við að vegakerfið sé eins gisið og mögulegt er til að halda ósnortnum víðernum,
          eru gerðar tillögur að landnotkun orkuvinnslu til uppistöðulóna,
          er gert ráð fyrir að byggingarsvæði séu deiliskipulögð og að þar sem við á fari einnig fram mat á umhverfisáhrifum,
          er gert ráð fyrir að engin sorpeyðing eigi sér stað á hálendinu.
    Ráðgjafar sem leitað var til í þessu sambandi eru: Ferðamálaráð Íslands, Fornleifastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Land­græðsla ríkisins, Landsvirkjun, Orkustofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Vegagerð­in, Veðurstofa Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, ýmis félög, félagasamtök og einstaklingar tengd útivist, verndun, ferðamálum o.fl. og flest ráðuneytin.
    Nánari útfærsla kemur fram í kafla 1.4 í greinargerð svæðisskipulagsins þar sem fjallað er um samráð.

     7.      Liggur fyrir til lokaafgreiðslu hjá Skipulagsstofnun og/eða ráðherra endanleg skipulagstillaga fyrir miðhálendið og ef svo er, hvenær var hún gerð opinber og hvenær má vænta afstöðu stofnunarinnar og/eða ráðherra?
    Tillaga að svæðisskipulagi miðhálendisins sem samþykkt er í samvinnunefnd og í 38 sveitarfélögum var afhent Skipulagsstofnun 23. nóvember 1998 og liggur þar til afgreiðslu. Jafnframt var umhverfisráðherra afhent tillagan sama dag til fróðleiks. Tillagan var auglýst til kynningar frá 10. maí til 10. desember 1997. Samtals bárust 95 athugasemdir. Helstu breytingar í einstökum málaflokkum sem gerðar voru að lokinni umfjöllum um athugasemdir voru kynntar fulltrúum helstu hagsmunaaðila 2. júlí 1998 á fundi í Borgartúni 6. Helstu breytingar á samþykktu svæðisskipulagi frá auglýstri tillögu voru síðan kynntar á frétta­mannafundi og opnum almennum fundi í Reykjavík 26. ágúst 1998.
    Samvinnunefnd auglýsti niðurstöðu sína skv. 3. mgr. 13. gr. skipulags- og byggingarlaga í lok nóvember 1998. Auglýsingar birtust í Morgunblaðinu 27. nóvember 1998 og Degi 28. nóvember 1998.
    Skipulagsstofnun stefnir að því að afgreiða svæðisskipulagið til umhverfisráðherra eigi síðar en í lok febrúar 1999 en sú tímasetning er háð afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um­hverfisráðherra til breytinga á skipulags- og byggingarlögum vegna miðhálendisins.