Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 722  —  367. mál.



Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um fjárframlög til rannsókna á hrossaexemi.

     1.      Hversu miklu af úthlutuðu fé útflutnings- og markaðsnefndar hefur verið varið til rannsókna á hrossaexemi við Bændaskólann að Hólum?
    Fjárframlög til rannsókna á hrossaexemi til embættis yfirdýralæknis og Bændaskólans á Hólum nema 3,1 millj. kr.

     2.      Hversu miklar greiðslur frá nefndinni hafa runnið til markaðsfulltrúa Félags hrossabænda?
    Fjárframlög til markaðsfulltrúa Félags hrossabænda nema 5,6 millj. kr.

     3.      Hvaða lönd eiga samstarf við Íslendinga um rannsóknir á hrossaexemi?
    Rannsókn á arfgengi sumarexems í íslenskum hrossum er á vegum Hólaskóla, Yfirdýra­læknis, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Bændasamtaka Íslands. Erlendir samstarfsaðilar eru:
     a.      Erfðafræðideild Animal Health Trust í Newmarket í Englandi sem ber á ábyrgð á og kostar erfðatæknilegan hluta verkefnisins. Ábyrgðarmaður er dr. Matthew Binns.
     b.      Erfðafræðistofnun Dýralæknaháskólans í Bern í Sviss leggur okkur lið í verkefninu með faglegri ráðgjöf en erfðagreiningin miðar að því m.a. að staðfesta samband sjúkdómsins við gen sem stjórna vefjaflokkum í hrossum. Vísbendingar um slíkt samband hafa komið fram í rannsóknum stofnunarinnar. Ábyrgðarmaður er dr. Eliane Marti.
     c.      Dýralæknaháskólinn í Uppsölum tekur þátt í verkefninu. Dr. Hans Broström sem unnið hefur á rannsóknum á sumarexemi í Svíþjóð hefur aðstoðar við gagnaöflun þar og veitt faglega ráðgjöf.
     d.      Starfsmaður Dýralæknaháskólans í Kaupmannahöfn, Birgitte Langvad Færch dýralæknir, hefur einnig aðstoðað við gagnaöflun og veitt ráðgjöf.
    Ræktunarfélög íslenska hestsins í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi aðstoðuðu við að útvega hross í rannsóknina. Félag hrossabænda veitti einnig aðstoð við þá vinnu.

     4.      Hvenær hófust þessar rannsóknir í hverju landi fyrir sig?
     5.      Hver er staða rannsóknanna nú?
    Undirbúningur verkefnisins hófst árið 1996 með heimsókn dr. Matthew Binns og dr. Eliane Marti til Íslands en þá buðu þau fram aðstoð sína við verkefni á þessu sviði. Í fram­haldinu var kannaður áhugi annarra vísindastofnana, íslenskra sem erlendra, og meginlínur verkefnisins lagðar. Í framhaldinu voru sendar umsóknir um styrki til Vísindasjóðs Rann­sóknarráðs Íslands og Útflutnings- og markaðsnefndar. Styrkur til að hefja gagnaöflun fékkst frá nefndinni og verkefnið hófst formlega árið 1997 með sameiginlegum fundi þátttakenda í Uppsölum. Þar var framkvæmdaáætlun og þátttaka hvers og eins skilgreind. Kostnaður við verkefnið var metinn, sem og framlög þátttakenda. Fjármögnunarleiðir voru ræddar.
    Síðsumars 1997 hóf íslenskur dýralæknir gagnaöflun í Danmörku og Svíþjóð og voru um 200 hross sjúkdómsgreind með tilliti til sumarexems, blóðprufur teknar og upplýsingar um umhverfisaðstæður hrossanna skráðar. Blóðsýnin voru send til Newmarket þar sem DNA var einangrað og það fryst. Sumarið 1998 var gagnaöfluninni haldið áfram í Þýskalandi þar sem safnað var upplýsingum um 200 hross til viðbótar. Blóðprufur úr þeim hrossum voru einnig sendar til Newmarket. Nú er verið að færa gögnin á tölvutækt form og er það gert á Hólum. Í framhaldinu verða gerðar frumgreiningar á gögnunum og er reiknað með að erfðagreiningin geti hafist um svipað leyti. Ráðgert er að íslenskur vísindamaður taki þátt í erfðagreiningar­vinnunni í Newmarket því að áríðandi er að tækni og þekking á sviði erfðatækni hrossa verði í framtíðinni notuð í rannsóknum hér á landi. Einnig tryggir það enn fremur hlutdeild Íslend­inga í niðurstöðunum.

     6.      Hver eru áform til eflingar hrossarækt og útflutningi hrossa á Íslandi?
    Tilgangur verkefnisins er að finna leiðir til að greina með erfðaprófi hvaða hross beri með sér veikleika fyrir sumarexemi áður en þau eru flutt úr landi. Þannig mætti lækka tíðni sjúk­dómsins í hrossum héðan erlendis. Einnig gæfist möguleiki á að nýta aðferðina í ræktunar­starfinu hér heima og vinna þannig gegn þessum leynda galla. Í framtíðinni má vera að erfða­tækni geti orðið öflugt vopn við lækningu sjúkdómsins. Því er ljóst að megintilgangur verk­efnisins er að bæta markaðsstöðu íslenskra hrossa erlendis og efla útflutning.
    Nú er einnig unnið að því að taka saman upplýsingar um helstu leiðir sem nú eru þekktar til fyrirbyggjandi aðgerða gegn sjúkdómnum og til lækninga og gera þær upplýsingar að­gengilegar fyrir eigendur íslenskra hrossa erlendis.
    Víðtækari rannsóknir á sumarexemi með samvinnu þýskra og íslenskra vísindamanna á sviði ónæmisrannsókna eru í undirbúningi og stefna þær að sama markmiði og greint var frá að framan.
    Að undanförnu hefur verið unnið að gæðastjórnun í hrossarækt á vegum fagráðs í hrossa­rækt í samvinnu við landsráðunaut í hrossarækt, dýralækni hrossasjúkdóma og Landgræðsl­una. Tilgangur gæðastjórnunar er að bæta framleiðsluna og taka á nokkrum þeim þáttum sem kvartað hefur verið yfir af erlendum kaupendum, svo sem einstaklingsmerkingum, faðernis­greiningum, heilbrigðismálum, ormameðhöndlun, landnýtingu o.fl. Vonast er til að þetta fyrirkomulag, sem öllum sem vilja er heimilt að notfæra sér, skili íslenskum hrossaræktend­um aukinni markaðshlutdeild og efli hrossarækt hér á landi.
    Þá hefur landbúnaðarráðuneytið beitt sér fyrir fjárveitingu að upphæð 10 millj. kr. á fjár­aukalögum 1998 til að styðja við markaðsstarfsemi og til að efla félagsstarf hrossabænda vegna erfiðleika búgreinarinnar í kjölfar smitandi hitasóttar sem barst til landsins í byrjun síðasta árs. Enn fremur hefur verið unnið að lækkun eða afnámi tolla sem lagðir eru á við innflutning reiðhesta til Noregs. Þá hefur einnig að beiðni ráðuneytisins verið gerð ítarleg úttekt á stöðu hrossaræktarinnar í landinu til að lýsa starfsskilyrðum búgreinarinnar og framtíðarmöguleikum.