Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 727  —  381. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um stuðning Framleiðnisjóðs við útflutning og markaðssetningu íslenskra hrossa.

     1.      Hvert er hlutverk Framleiðnisjóðs landbúnaðarins í beinum stuðningi við útflutning og markaðssetningu hrossa erlendis? Hver eru áform sjóðsins þar að lútandi?
    Hlutverk Framleiðnisjóðs landbúnaðarins í beinum stuðningi við útflutning og markaðs­setningu hrossa erlendis ræðst af þeim áherslum sem stjórn sjóðsins metur mikilvægastar á hverjum tíma að teknu tilliti til álits þeirra sem eru í forsvari fyrir búgreinina. Í samræmi við það hefur stefna stjórnarinnar verið sú að uppbygging kennslu- og rannsóknaraðstöðu í þágu hrossaræktarinnar að Hólum í Hjaltadal ætti að vera forgangsverkefni í stuðningi sjóðsins við búgreinina en stuðningur við markaðsmál væri hlutverk útflutnings- og markaðsnefndar. Í samræmi við þessa stefnumörkun hefur Framleiðnisjóður hætt að mestu beinum stuðningi við hrossaútflutning. Samkvæmt upplýsingum frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins var þessi afstaða staðfest á fundi stjórnar sjóðsins með formanni Félags hrossabænda og fulltrúa frá Útflutnings- og markaðssjóði í desember sl. og áhersla lögð á mikilvægi þess að Framleiðni­sjóður styddi rannsóknir í þágu útflutnings. Voru rannsóknir á sumarexemi metnar til for­gangs. Fram kemur í upplýsingum frá stjórn Framleiðnisjóðs að við afgreiðslu fjárhags­ramma þessa árs á fundi sjóðstjórnar 12. janúar sl. hafi þessi sjónarmið verið lögð til grund­vallar.

     2.      Er áformað að veita stuðning við búháttabreytingar, t.d. að breyta fjósum í hesthús eða breyta sauðfjár- eða kúabúum í hrossaræktarbú?
    Á síðasta ári var mjög dregið úr stuðningi Framleiðnisjóðs landbúnaðarins við uppbygg­ingu tamningaaðstöðu á bújörðum með það að markmiði að hætta slíkum stuðningi a.m.k. um sinn. Því verður ekki um slíkan stuðning að ræða á þessu ári.

     3.      Mun Framleiðnisjóður veita stuðning við þá fækkun hrossa um 1.600 sem fyrirhuguð er?
    Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um stuðning við fyrirhugaða fækkun hrossa en erindi liggur fyrir hjá stjórninni og bíður afgreiðslu.