Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 761  —  462. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Hjálmar Árnason.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa starfshóp er fái það hlut­verk að gera tillögur um hvernig stjórnvöld geti stutt íslenska matreiðslumenn í þeirri við­leitni að auka útflutning á þekkingu þeirra og matargerðarlist en auka um leið útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum, kjöti, grænmeti og mjólkurafurðum, einnig fiski og fiskaf­urðum og fullunnum matvælum. Verkefni starfshópsins verði að:
       1.      Leggja mat á þann árangur sem íslenskir matreiðslumenn hafa þegar náð á erlendri grund og hvernig sá árangur hefur náðst.
       2.      Leggja mat á hvort stjórnvöld geta stuðlað að frekari árangri á þessu sviði og þá gera tillögur um hvernig, þ.e. hvernig auka má útflutning á þekkingu og færni íslenskra matreiðslumanna.
       3.      Gera tillögur um hvernig auka megi útflutning íslensks hráefnis og fullunninna matvæla í tengslum við framangreint.
    Hópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum í skýrslu eigi síðar en 1. desember 1999.

Greinargerð.


    Íslenskir matreiðslumenn hafa sýnt það og sannað að þeir eru fagmenn á heimsmæli­kvarða, um það bera fjölmörg alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar vitni. Sá góði árangur sem þeir hafa náð getur orðið íslensku þjóðinni mikils virði ef rétt er á haldið. Með honum hefur hugsanlega verið lagður grunnur að auknum landvinningum þeirra og auknum útflutn­ingi á íslensku hráefni og unnum matvörum. Starf þeirra hefur einnig mikið gildi af því að hluti af ferðamennsku nútímans er að njóta matarins í viðkomandi löndum. Íslenskt hráefni er í sérflokki, hvort heldur um er að ræða fisk, kjöt, mjólkurafurðir eða grænmeti og ef hrá­efnið er meðhöndlað af snilld margfaldar það gildi sitt.
    Benda má á að íslenskir matreiðslumeistarar geta unnið uppeldis- og forvarnarstarf og lagt á ráðin með hollt mataræði. Athyglisverðir sjónvarpsþættir voru gerðir síðasta vetur í samstarfi þeirra og ríkissjónvarpsins þar sem ungu fólki var kennd matreiðsla. Um leið má nefna mikilvægt starf bænda og samvinnu þeirra við matreiðslumenn við framleiðslu á land­búnaðarvöru hvort heldur er hefðbundna, vistvæna eða lífræna.
    Klúbbur matreiðslumeistara tekur þátt í víðtæku alþjóðasamstarfi á Norðurlanda-, Evrópu- og alþjóðavísu, sbr. fylgiskjal I.
    Flutningsmenn tillögu þessarar hvetja stjórnvöld, framleiðendur, ferðaþjónustuaðila og forsvarsmenn annarra fyrirtækja til að gefa gaum mikilvægu starfi þessara samtaka að eflingu og kynningu á Íslandi og matvælum sem eru í sérflokki hvað gæði og hreinleika snert­ir.

Fylgiskjal I.


Gissur Guðmundsson,
skólastjóri Matreiðsluskólans okkar,
gjaldkeri Klúbbs matreiðslumeistara:


Starfsáætlun Klúbbs matreiðslumeistara fram til ársloka 2000.


    Klúbbur matreiðslumeistara hefur síðustu mánuði gert samninga við ýmis fyrirtæki um fjárhagslegan stuðning í formi vöruúttekta og peningastyrkja. Er þetta liður í þeirri stefnu klúbbsins að bjóða fyrirtækjum að gerast styrktaraðili að klúbbnum á því tímabili sem kokkalandsliðið er valið til. Vonast er til að þetta geti orðið til þess að þeir sem styrkja kúbbinn geti átt samstarf við hann svo að árangur sjáist í fyrirtækjum þeirra.

Verkefni árin 1998–2000.
          6.–13. nóvember, Heimsmeistarakeppni matreiðslumanna í Lúxemborg.
          23.–30. janúar 1999, Bocuse de Or í Lyon, einstaklingskeppni.
          18.–20. apríl 1999, Norðurlandakeppni matreiðslumeistara í Svíþjóð.
          6.–10. maí 1999, 60 ára afmælisþing Norðurlandasamtaka matreiðslumanna á Hótel Loftleiðum.
          21.–23. maí 1999, Landsliðskeppnin Culinary Classic í Chicago í Bandaríkjunum, Íslandi er sérstaklega boðið.
          23.–27. janúar 2000, Alheimsþing matreiðslumanna í Maastricht.
          Árið 2000, fiskkeppni á milli allra menningarborga Evrópu í samstarfi við Reykjavík 2000.
          Ýmis verkefni úti á landsbyggðinni í samstarfi við Reykjavík 2000.
          21.–29. október 2000, Ólympíuleikar í matreiðslu í Berlín, hápunktur í starfi landsliðsins.
    
    Ýmis önnur verkefni koma upp reglulega og er tekin ákvörðun um þau hverju sinni. En einnig sitja tveir menn úr Klúbbi matreiðslumanna í stjórn Norðurlandasamtaka matreiðslu­manna og eru stjórnarfundir 2–3 á ári og skiptast þeir jafnt á löndin.
    Átta félagar úr Klúbbi matreiðslumanna sátu alheimsþing matreiðslumanna í Ástralíu í mars 1998. Klúbburinn lagði fram hugmyndir um að Ísland yrði gestgjafi þingsins eftir 10–12 ár. Þess má geta að þegar þingið var haldið í Stavanger árið 1994 komu þangað 2000 manns.


Fylgiskjal II.


Gissur Guðmundsson,
skólastjóri Matreiðsluskólans okkar,
gjaldkeri Klúbbs matreiðslumeistara:


Efling útflutnings á fullunnum íslenskum afurðum.


    Setja þarf upp skrá yfir allar þær vörur sem núna eru fullunnar á Íslandi og hvaða fyrir­tæki gera það, sömuleiðis þarf að skrá þær vörur sem seldar eru til útlanda. Síðan þarf að skrá allar vörur sem hægt er að fullvinna í neytendapakkningar hér heima áður en þær eru sendar út.
    Þegar skráin er tilbúin er hægt að meta hvaða fyrirtæki geta byrjað að fullvinna vörur og hvernig og einnig hvar hægt er að fá langtímafjármagn til að styrkja þau.
    Síðan mundu þessi fyrirtæki kalla saman hóp manna sem sæi eingöngu um markaðssetn­ingu á vörunum í heild. Væri hægt að fá matreiðslumeistara til að fara með vörur út og kynna þær á hótelum, í veitingahúsakeðjum, hótel- og matvælaskólum og á sýningum víðs vegar um heim. Einnig mætti halda íslenska daga í erlendum borgum en það gæti stuðlað að góðri kynningu á landi og þjóð og skilað sér í auknum straumi ferðamanna. Hægt er að gera t.d. fimm ára áætlun sem yrði fjármögnuð að hluta af fyrirtækjunum og að hluta til af sjóðum hér heima og erlendis (ath. ESB).
    Þessi hópur þarf að sækja námskeið sem ætti að stuðla að samhæfni, bæta sölutækni, tungumálakunnáttu og framkomu. Til að kenna á þessu námskeiði þarf að fá aðstoð erlendis og hér heima.
    Innan hópsins þyrftu einnig að starfa ungir markaðsfræðingar með fjölbreytilega hæfi­leika. Þeir þyrftu að hafa þekkingu á vörunum, geta kynnt þær í básum á sýningum og komið fram sem talsmenn heima og erlendis.
    Fyrirtækin þurfa síðan að gera bækling árlega til að kynna nýjungar og hugmyndir um matreiðsluaðferðir og námskeiðahald, ásamt dagskrá fyrir starf hópsins allt árið.
    Mikilvægt er að setja í upphafi takmörk sem þurfa að nást og tímamörk, því að þegar svona hópur kemur saman er mikilvægt að hann vinni undir ákveðnu álagi til að ná takmarki sínu. Einnig þarf að velja þá aðila sem gott er að komast í samband við í hverju landi fyrir sig, svo hægt sé að virkja félög og fyrirtæki sem mögulega hafa áhuga á vörum og starfsemi sem tengist þeim. Ætti að vera hægt að fá þessa aðila til samstarfs fyrir litla eða jafnvel enga peninga heldur frekar upp á samstarf í framtíðinni