Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 779  —  474. mál.




Frumvarp til laga



um yrkisrétt.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Aðili, sem hefur ræktað, eða uppgötvað og þróað, nýtt yrki (afbrigði eða stofn af plöntu­tegund) eða öðlast rétt hans, yrkishafi, getur samkvæmt lögum þessum öðlast einkarétt til hagnýtingar þess í atvinnuskyni. Réttur til yrkis (yrkisréttur) er veittur á grundvelli umsóknar til yrkisréttarnefndar, sbr. 22. gr.
    Landbúnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara.

2. gr.

    Yrkisrétt má veita ef yrki er:
     1.      sérstætt, þ.e. unnt er að greina það frá öðrum yrkjum sem þekkt eru á umsóknardegi, sbr. 2. mgr.;
     2.      nægilega einsleitt;
     3.      stöðugt með tilliti til þeirra einkenna sem notuð eru til aðgreiningar þess frá öðrum yrkjum, sbr. 1. tölul., þegar því er fjölgað með þeirri aðferð sem yrkishafi hefur tilgreint; og
     4.      nýtt, þ.e. efniviður til fjölgunar þess eða uppskera af því hefur ekki, með samþykki yrkishafa, verið seld eða boðin til sölu á almennum markaði ellegar með öðrum hætti framseld til hagnýtingar í atvinnuskyni:
                  a.      hér á landi lengur en eitt ár; eða
                  b.      erlendis lengur en fjögur ár, þó í sex ár þegar um er að ræða tré eða vínvið.
    Yrki telst þekkt ef það hefur verið selt eða boðið til sölu á almennum markaði, er skráð á opinberum lista eða er almennt þekkt með öðrum hætti. Hafi yrki verið lýst í umsókn um yrkisrétt, einkaleyfisumsókn eða umsókn um skráningu á opinberum lista hér á landi eða í öðru ríki telst það þekkt frá umsóknardegi. Þetta gildir þó einungis hafi áðurnefndar um­sóknir leitt til samþykktar.

II. KAFLI
Umsókn.
3. gr

    Umsókn um skráningu í yrkisréttarskrá skal skila skriflega til yrkisréttarnefndar.
    Í yrkisumsókn skal vera lýsing á yrki og skal sérstaklega tekið fram hvað skilji það frá öðrum yrkjum. Í umsókn skal vera tillaga um heiti yrkis, nafn upphafsmanns yrkis og heim­ilisfang. Einnig skal þar greina nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda.
    Sé umsækjandi annar en upphafsmaður skal hann sýna fram á heimild sína til að sækja um yrkisrétt.
    Ef umsækjandi er ekki búsettur eða með aðsetur hér á landi eða í einhverju ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skal hann hafa umboðsaðila sem búsettur er eða hefur aðsetur hér á landi.
    Yrkisréttarnefnd getur krafist þess að umsækjandi veiti innan tilskilins frests nauðsynleg­ar upplýsingar til meðferðar á umsókn. Enn fremur getur nefndin krafist þess að umsækjandi leggi innan tilskilins frests fram gögn og efni til rannsóknar skv. 9. gr.
    Umsækjandi skal greiða tilskilið umsóknargjald.

4. gr.

    Umsókn, sem telst fullnægjandi, skal þegar við móttöku færð í dagbók yrkisréttarnefndar og afrit umsóknar sent umsækjanda með áritun um færslu í dagbókina.
    Dagbókin skal vera aðgengileg almenningi, þó ekki upplýsingar um línur sem mynda blendingsyrki og lýsing á þeim hafi umsækjandi óskað þess að þeim verði haldið leyndum.

5. gr.

    Veiti umsækjandi ekki þær upplýsingar eða leggi fram þau gögn og efni sem yrkisréttar­nefnd hefur krafist skv. 5. mgr. 3. gr. innan tilskilins frests getur nefndin fellt umsókn úr dag­bók.

6. gr.

    Frá umsóknardegi hefur umsækjandi rétt til verndar yrkisins fram yfir aðra sem síðar sækja um vernd á sama yrki.
    Óski umsækjandi þess getur yrkisréttarnefnd litið svo á að umsóknin hafi verið móttekin samtímis fyrstu umsókn um rétt til yrkis í einhverju aðildarríki Alþjóðasambandsins um vernd nýrra yrkja (UPOV) hafi hún verið lögð inn á síðustu tólf mánuðum fyrir umsóknardag hérlendis. Slík beiðni skal koma fram í umsókn og skal leggja fram sönnun fyrir móttöku fyrstu umsóknarinnar innan þriggja mánaða frá umsóknardegi hérlendis.

7. gr.

    Svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hefur verið færð í dagbók skal yrkisréttarnefnd láta fara fram bráðabirgðarannsókn á því hvort yrki fullnægi skilyrðum verndar.
    Telji nefndin eftir þá rannsókn að skilyrðunum sé fullnægt birtir hún tilkynningu um um­sóknina í Lögbirtingablaði með áskorun til þeirra er hugsanlega eiga hagsmuna að gæta um að andmæla skráningu yrkisins innan tilskilins frests.
    Telji nefndin hins vegar skilyrðum ekki fullnægt skal umsækjanda veittur frestur til at­hugasemda. Ef athugasemdir hans breyta fyrri niðurstöðu skal tilkynning um umsóknina birt í Lögbirtingablaði.

8. gr.

    Ákveði yrkisréttarnefnd á grundvelli andmæla að afskrifa umsókn úr dagbók og hætta við rannsókn skal birta tilkynningu um það í Lögbirtingablaði.
    Yrkisréttarnefnd úrskurðar ekki í málum er varða rétt umsækjanda til yrkis. Nefndin skal benda aðilum á að bera megi ágreining undir dómstóla. Sé nefndinni tilkynnt um málshöfðun skal árita umsóknina þar að lútandi.

III. KAFLI
Rannsókn og skráning.
9. gr.

    Áður en yrki getur öðlast vernd, sbr. þó 21. gr., skal yrkisréttarnefnd ganga úr skugga um það, með sérstakri rannsókn ef þörf krefur, að yrkið fullnægi skilyrðum fyrir vernd, sbr. 2. gr., og hvort það búi yfir þeim sérstöku eiginleikum sem nefndir eru í umsókn.
    Heimilt er að krefja umsækjanda um gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af rannsókn.

10. gr.

    Teljist yrki fullnægja skilyrðum fyrir vernd skal yrkisréttarnefnd skrá það í yrkisréttarskrá með samþykktu yrkisheiti, sbr. 11. gr.
    Yrkisréttarnefnd getur hafnað að skrá yrki verði umsækjandi eigi innan tilskilins frests við áskorun nefndarinnar um að gera tillögu um heiti yrkis eða tillögu um nýtt heiti þess telji nefndin fyrirhugað heiti ekki fullnægja settum skilyrðum.
    Hafi mál verið höfðað fyrir dómstólum, sbr. 2. mgr. 8. gr., skal færa athugasemd um það í yrkisréttarskrá.

11. gr.

    Yrki skal auðkenna með samþykktu yrkisheiti og skal heitið haldast og yrkið auðkennt með því einnig eftir að vernd lýkur.
    Ekki er heimilt að nota eingöngu tölustafi sem heiti nema það sé viðtekin venja við að auðkenna yrki af þeirri tegund er um ræðir. Heitið skal ekki vera villandi eða til þess fallið að valda ruglingi um einkenni eða gildi yrkisins, um hvert það sé eða hver yrkishafinn sé. Það skal frábrugðið öllum heitum sem þegar auðkenna yrki af sömu eða náskyldri tegund.
    Í tengslum við yrkisheitið má nota aukheiti.
    Í sérstökum tilvikum getur yrkisréttarnefnd að beiðni yrkishafa heimilað að yrki sé gefið annað heiti en upphaflega var samþykkt.
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að setja nánari reglur um yrkisheiti.

12. gr.

    Þegar yrkisréttarnefnd hefur skráð yrki gefur hún út yrkisréttarskjal sem afhent skal um­sækjanda gegn greiðslu skráningargjalds. Skjalið gildir eitt ár en framlengja má gildistíma þess eitt ár í senn í allt að 25 árum. Frestur reiknast frá útgáfudegi skjalsins, sbr. þó 1. mgr. 21. gr.
    Vernd samkvæmt yrkisréttarskjali framlengist með greiðslu árgjalds til yrkisréttarnefndar.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur landbúnaðarráðherra sett reglur um lengri gildistíma yrkisréttarskjals tiltekinna tegunda og ættkvísla þannig að yrki njóti verndar allt að 30 árum.

13. gr.

    Eftir skráningu getur yrkisréttarnefnd haft eftirlit með því að yrkishafi haldi yrkinu nægi­lega vel við. Innan þess frests, sem nefndin ákveður, skal yrkishafi í þessu skyni láta henni í té nauðsynlegan efnivið til fjölgunar yrkis.

14. gr.

    Yrkisréttarnefnd skal ógilda veitingu yrkisréttar frá upphafi ef í ljós kemur:
     1.      að yrki fullnægði ekki á skráningardegi skilyrðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. um að vera sérstætt og nýtt; eða
     2.      að í þeim tilvikum er veiting yrkisréttar byggist að verulegu leyti á upplýsingum og skjölum, sem yrkishafi lét í té, hafi skilyrðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr., um að yrki væri nægilega einsleitt og stöðugt, ekki verið fullnægt á skráningardegi.
    Yrkisréttarnefnd getur fellt yrki úr yrkisréttarskránni ef:
     1.      yrkishafi fer skriflega fram á það við nefndina;
     2.      árgjald hefur ekki verið greitt;
     3.      yrki fullnægir ekki lengur skilyrðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. um að vera nægilega einsleitt og stöðugt; eða
     4.      yrkishafi verður ekki fyrir lok tilskilins frests við áskorun nefndarinnar um að:
                  a.      láta nefndinni í té nauðsynlegan efnivið til fjölgunar þess vegna eftirlits eftir skráningu; eða
                  b.      gera tillögu um nýtt heiti yrkis hafi nefndin eftir skráningu þess komist að þeirri niðurstöðu að samþykkt heiti sé ekki í samræmi við reglur landbúnaðarráðherra.
    Yrki skal fellt úr yrkisréttarskránni tveimur mánuðum eftir að yrkishafa hefur verið til­kynnt ákvörðun yrkisréttarnefndar á sannanlegan hátt nema hann höfði mál fyrir lok frests­ins.

15. gr.

    Hafi yrki verið fellt úr yrkisréttarskrá verður það eigi skráð að nýju. Yrkisréttarnefnd skal birta tilkynningu þar um í Lögbirtingablaði og tilgreina ástæður.

IV. KAFLI
Yrkisréttur.
16. gr.

    Yrkisréttur nær til:
     1.      þess yrkis sem skráð er samkvæmt lögum þessum;
     2.      hvers annars safns plantna sem verður ekki með vissu greint frá hinu skráða yrki;
     3.      yrkis sem er í öllum aðalatriðum komið af hinu skráða yrki enda sé hið verndaða yrki ekki sjálft komið af öðru í öllum aðalatriðum; og
     4.      yrkis sem er ekki unnt að framleiða nema með endurtekinni notkun hins skráða yrkis.
    Yrki telst í 3. tölul. 1. mgr. komið af öðru í öllum aðalatriðum þegar:
     1.      það er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, eða af yrki sem sjálft er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, og heldur þeim megineinkennun sem ráðast af arfgerð eða samsetn­ingu arfgerða upphafsyrkisins;
     2.      greina má það með vissu frá upphafsyrkinu; og
     3.      það samsvarar, að frátöldum þeim mismun sem felst í aðgerðinni við að fá það fram, upphafsyrkinu í þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins.

17. gr.

    Yrkisréttur felur í sér að aðrir en yrkishafi mega ekki án hans samþykkis fara með efnivið til fjölgunar yrkis sem hér segir:
     1.      hagnýta efniviðinn í atvinnuskyni til framleiðslu, fjölgunar eða meðferðar vegna fjölgunar;
     2.      flytja hann inn eða út, bjóða til sölu, selja eða markaðssetja með öðrum hætti; eða
     3.      halda birgðir í þeim tilgangi sem greint er frá í 1. og 2. tölul.
    Yrkishafi getur bundið samþykki sitt skilyrðum, þar á meðal um greiðslu hæfilegs nytja­leyfisgjalds.
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að setja reglur um að sá sem fjölgar yrki af sérstaklega tilgreindum tegundum eingöngu til notkunar í eigin rekstri skuli einnig greiða nytjaleyfis­gjald.
    Sá sem í atvinnuskyni fjölgar yrki eða selur efnivið til fjölgunar þess skal gefa yrkishafa nauðsynlegar upplýsingar vegna innheimtu nytjaleyfisgjalds.
    Ákvæði 1.–4. mgr. gilda einnig um uppskeru af yrki sem fengist hefur með hagnýtingu á efniviði til fjölgunar þess hafi yrkishafi ekki:
     1.      heimilað þá hagnýtingu; og
     2.      haft tök á nýta réttindi sín skv. 1. mgr.
    Þau skilyrði sem yrkishafi setur skv. 2. mgr., m.a. um gjaldtöku, skulu aðeins eiga við þá notkun og framboð sem getur í 1. mgr. Skilyrðin skulu vera sanngjörn og skulu allir framleið­endur njóta sambærilegra kjara.

18. gr.

    Undanþegin yrkisrétti er:
     1.      notkun í einkaþágu sem tengist ekki viðskiptum;
     2.      notkun í tilraunum;
     3.      notkun í kynbótum;
     4.      notkun á efniviði til fjölgunar yrkis sem yrkishafi, eða einhver í umboði hans, hefur markaðssett á hinu Evrópska efnahagssvæði, svo fremi notkunin feli ekki í sér:
                  a.      frekari fjölgun yrkisins; eða
                  b.      útflutning á efniviði til fjölgunar yrkisins til lands þar sem yrkisvernd nær ekki til þeirrar ættkvíslar eða tegundar sem yrkið er af nema um sé að ræða útflutning til neyslu.

19. gr.

    Yrkisréttarnefnd skal samkvæmt beiðni kanna hvort þau skilyrði, sem yrkishafi hefur sett fyrir samþykki sínu skv. 2. mgr. 17. gr., samræmist 6. mgr. sömu greinar.

20. gr.

    Hafi yrkishafi ekki tryggt nægilegt framboð af efniviði til fjölgunar verndaðs yrkis hér á landi á sanngjörnum kjörum, í þeim mæli og með þeim hætti sem þörf krefur til að tryggja matvælaframleiðslu í landinu og aðra mikilvæga almannahagsmuni, getur landbúnaðarráð­herra veitt þeim er vill hagnýta yrkið leyfi til þess. Ákvæði 49. og 50. gr. laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, gilda eftir því sem við á um nauðungarleyfi fyrir yrki. Ráðherra getur skyldað yrkishafa til að afhenda leyfishafa nauðsynlegan efnivið til fjölgunar yrkisins gegn sanngjörnu gjaldi.

21. gr

    Frá umsóknardegi til skráningar í yrkisréttarskrá getur yrkishafi sett skilyrði skv. 2. mgr. 17. gr. enda tilkynni hann yrkisréttarnefnd það. Tímabil verndar skv. 12. gr. gildir þá frá skráningu þeirrar tilkynningar í dagbók yrkisréttarnefndar. Ákvæði 11. og 20. gr. gilda á sama hátt á umsóknartíma.
    Ef ræktandi greiðir nytjaleyfisgjald áður en umsókn er afgreidd skal gjaldið lagt inn á geymslufjárreikning á nafni yrkishafa. Fjárhæðin verður laus sé yrkið skráð. Verði umsókn hafnað skal hún endurgreidd með vöxtum.
    Sé umsókn um vernd yrkis dregin til baka eða henni er hafnað eru afnot yrkisins öllum frjáls til fjölgunar. Ræktandi, sem hefur notað yrkið á umsóknartímanum, fær sömu stöðu og við notkun óverndaðs yrkis.

V. KAFLI
Stjórnun.
22. gr.

    Landbúnaðarráðherra skipar yrkisréttarnefnd til fjögurra ára sem annast skal framkvæmd II.–IV. kafla laga þessara.
    Nefndin skal skipuð fæst þremur mönnum og flest fimm mönnum. Minnst einn nefndar­manna skal hafa þekkingu á ræktun og kynbótum nytjaplantna og annar þekkingu á hugverka­rétti.

23. gr.

    Ákvarðanir yrkisréttarnefndar á grundvelli II.–IV. kafla verða ekki bornar undir aðra stjórnsýsluaðila.

24. gr.

    Hafi yrkishafi ekki búsetu eða aðsetur hér á landi eða í einhverju ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er unnt að beina erindum til umboðsmanns hans. Náist ekki til yrkishafa eða umboðsmanns hans skal fara eftir lögum um meðferð einkamála og lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda eftir því sem við á.

25. gr.

    Landbúnaðarráðherra getur sett reglur um:
     1.      gjöld til greiðslu kostnaðar af meðferð umsókna, framlengingu verndar samkvæmt yrkisréttarskjali og rannsóknum;
     2.      kostnað vegna vanskila á greiðslu gjalda; og
     3.      gjöld vegna ítrekana.
    Kröfur samkvæmt framanskráðu eru aðfararhæfar.

26. gr.

    Sá sem af ásetningi skerðir yrkisrétt samkvæmt lögum þessum eða reglum á grundvelli þeirra skal sæta sektum.
    Nú er brotið framið af lögaðila og er þá heimilt að dæma hann í fésekt.
    Sókn sakar á sá er misgert er við.

VI. KAFLI
Gildistaka o.fl.
27. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

28. gr.

    Landbúnaðarráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Með aðild að samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (WTO) skuldbinda Ís­lendingar sig til að lögfesta reglur um vernd hugverka á sviði plöntukynbóta. Ákvæðin, sem kveða á um þetta, er að finna 1. viðauka C, þ.e. samningnum um hugverkarétt í viðskiptum (Agreement on Trade Related Aspects of Intellectual Property Rights, TRIPS).
    Iðnaðarráðherra skipaði nefnd til að vinna drög að frumvarpi um vernd á hugverkarétti í tengslum við plöntukynbætur með bréfi dagsettu 29. janúar 1996. Í nefndina voru skipuð Þorsteinn Tómasson, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, formaður, Jón Ögmundur Þormóðs­son, iðnaðarráðuneyti, Ásta Valdimarsdóttir, Einkaleyfastofunni, og Sveinbjörn Dagfinns­son, landbúnaðarráðuneyti. Einnig var Hólmgeir Björnsson, Rannsóknastofnun landbúnaðar­ins, skipaður til starfa með nefndinni.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að hér á landi verði lögfestur möguleiki á vernd á hug­verkarétti í plöntukynbótum, svonefndur yrkisréttur. Frumvarpið er samið með tilliti til þess að það samræmist alþjóðlegum samningi um vernd nýrra yrkja, UPOV-samningnum (Inter­national Convention for the Protection of New Varieties of Plants), og höfð er hliðsjón af framkvæmd hans í nágrannalöndunum. Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra muni leggja fram á þessu þingi tillögu til þingsályktunar um aðild Íslands að samningnum. Í aðild að samningnum felst jafnframt aðild að alþjóðlegri stofnun um framkvæmd hans. Mun samning­urinn fylgja með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.
    Lagt er til að landbúnaðarráðherra fari með framkvæmd laganna og skipi sérstaka yrkis­réttarnefnd í því skyni.
    Yrki, sem er nýtt og af hvaða plöntutegund sem er, getur, að uppfylltum vissum skilyrðum, fengið vernd í allt að 25 ár. Lagt er til að yrkisréttarnefnd annist skráningu yrkja. Teljist yrki nýtt samkvæmt ákvæðum laganna og standist það kröfur um að vera sérstætt, nægilega eins­leitt og stöðugt samkvæmt sérstakri rannsókn skal það skráð í yrkisréttarskrá og tilkynning þar um birt í Lögbirtingablaði. Yrkið skal skráð með viðurkenndu heiti og fer um það eftir sérstökum reglum og hefðum. Í vissum tilvikum getur yrkisréttur einnig náð til náskyldra yrkja.
    Aðalefni yrkisréttar er að hann veitir yrkishafa einkarétt til ræktunar, meðferðar og versl­unar með efnivið til fjölgunar yrkisins. Aðrir þurfa leyfi hans til hagnýtingar þess og er yrkishafa heimilt að krefjast sanngjarns gjalds (nytjaleyfisgjalds). Rétturinn nær hins vegar ekki til uppskeru af yrkinu, sé hún ekki notuð til fjölgunar þess, að því tilskildu að ekki hafi verið á neinn hátt brotið á rétti yrkishafa með ræktuninni. Þá er notkun yrkis í einkaþágu og til tilrauna og kynbóta heimil án sérstaks leyfis. Þó er heimilt að setja reglur um að bændur, sem fjölga yrki af nánar tilteknum tegundum til eigin nota, skuli greiða nytjaleyfisgjald en þó lægra en þegar efniviður til fjölgunar er ræktaðar til sölu.
    Með frumvarpi þessu er annars vegar stefnt að því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga og hins vegar að tryggja íslenskum kynbótaaðilum arð af starfi sínu til að standa straum af kostnaði við frekari kynbætur. Með aðild að UPOV-samningnum má komast hjá því að óþörf snurða hlaupi á samskipti við aðrar þjóðir. Íslenskur landbúnaður er þó þannig að í fáum tilvikum er hætta á hagsmunaárekstrum að óbreyttum lögum og reglum.
    Gert er ráð fyrir gjöldum til að standa undir hluta kostnaðar við framkvæmd laganna. Sektir liggja við brotum á þeim.

Gildi og ferill plöntukynbóta.
    Kynbætur hafa leitt af sér stórstígar framfarir og framleiðniaukningu í ræktun margra teg­unda nytjaplantna. Með kynbótum er meðal annars leitast við að auka uppskeru og bæta ýmsa þætti þeirra afurða sem áhugaverðar eru. Þar getur t.d. verið um að ræða mótstöðu gegn geymslusjúkdómum, efnasamsetningu, útlitseinkenni o.fl. Bætt aðlögun að vaxtarskil­yrðum, svo sem upphaf vaxtar á vorin og vaxtarlok á haustin og vetrarþol, eru einnig dæmi um viðfangsefni í plöntukynbótum.
    Frá því að vísindalegur grundvöllur kynbótastarfsins var lagður upp úr aldamótum með enduruppgötvun á erfðalögmálum Mendels hefur þróun í plöntukynbótum verið mjög ör og aukist jafnt og þétt með vaxandi þekkingu á sviði erfða og erfðatækni. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur aukning í uppskeru helstu nytjaplantna mannkyns verið um 1–1,5 % á ári vegna kynbóta en meiri ef ræktunartækni og illgresis- og sjúkdómavarnir eru teknar með. Unnið er að kynbótum á öllum tegundum plantna í landbúnaði, garðyrkju og skógrækt. Kynbætur hafa haft mikil áhrif á hvaða tegundir eru ræktaðar og jafnvel haft áhrif á þróun heimsviðskipta. Sem dæmi má nefna kynbætur á sykurrófunni (Beta vulgaris L) sem hófust í Frakklandi þegar Bretar settu hafnbann á landið á tímum Napóleons. Sykurhlutfallið í róf­unni var þá um 5%, en er nú liðlega 20%, og heildaruppskeruauki vegna kynbóta er enn tæpt prósent á ári. Þessar framfarir hafa breytt heimsverslun með sykur þar sem framleiðsla á sykri í Evrópu hefur styrkst í samkeppni við reyrsykur sem ræktaður er þar sem hiti er hár og vöxtur mikill.
    Ræktun í landbúnaði og garðyrkju byggist á kynbættum yrkjum. Kynbótastarfinu má skipta í nokkur stig þar sem fyrsta stigið felst í að prófa erlend yrki í tilraunum og gefa síðan út lista yfir þau yrki sem mælt er með í ræktuninni. Ýmsar rannsóknir eru gerðar og í fram­haldi af því koma stýrðar víxlfrjóvganir og úrval sem smám saman leiða til nýrra yrkja. Mis­munandi aðferðir eru notaðar eftir tegundum og því hvort yrki er ein arfgerð eða safn arf­gerða.

Verndun yrkisréttar.
    Margar þjóðir hafa sett löggjöf um yrkisrétt til að vernda hugverk á þessu sviði og stuðla með því að plöntukynbótum og tryggja framleiðendum og neytendum ný og betri yrki til nytja og prýði. Markmið kynbótaréttarins er því að tryggja þeim sem vinna að plöntukynbótum hlutdeild í arði, sem af starfinu leiðir, til að standa undir áframhaldandi kynbótum. Þessi vernd er nauðsynleg þar sem plöntukynbætur eru langtímaverkefni sem kostar mikla vinnu og tækniþróun. Með yrkisrétti fæst hvatning og öryggi sem nauðsynlegt er til að réttlæta þá miklu fjárfestingu er að jafnaði felst í kynbótastarfi. Þessi hvatning er í þágu samfélagsins sem hefur hag af því að framleiðni, öryggi og fjölbreytni í ræktun aukist.
    Í frumvarpi þessu er afurð kynbótastarfsins nefnt yrki. Eldri hugtök, sem oft hafa verið notuð, svo sem afbrigði og stofn, hafa þann ókost að hafa margræða merkingu í mæltu máli. Til dæmis er iðulega talað um afbrigði og stofna af kartöflum en í líffræði hafa þessi þessi orð mismunandi merkingu. Orðið afbrigði er vanalega notað þegar allar plönturnar í tilteknu safni eru af sömu arfgerð en stofn er notað um víxlfrjóvga tegundir þar sem yrkið er safn arfgerða.

Alþjóðasamband um vernd nýrra yrkja (UPOV).
    Yrki, sem kynbætt eru í einu landi, geta iðulega reynst áhugaverð til ræktunar í öðru landi. Því er gagnkvæmur hagur þjóða að tryggja að yrkisréttur geti náð til fleiri landa. Í þeim tilgangi var gerður alþjóðlegur samningur um vernd nýrra yrkja í París árið 1961 (International Convention for the Protection of New Varieties of Plants) og var þá sett á fót stofnun, Al­þjóðasamband um vernd nýrra yrkja (International Union for the Protection of New Varieties of Plants). Sambandið nefnist UPOV sem er dregið af frönsku heiti stofnunarinnar (Union Internationale pour la Protection des Obtentions Végétales). Skrifstofur UPOV eru til húsa í höfuðstöðvum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (World Intellectual Property Organization, WIPO) í Genf. Samningurinn tók gildi árið 1968 og hefur verið endurskoðaður í Genf í þrígang, árin 1972, 1978 og 1991. Í byrjun árs 1996 höfðu þrjátíu ríki staðfest einhverja gerð samningsins, flestar gerðina frá 1978. Ríki annars staðar á Norðurlöndum hafa gerst aðilar að samningnum frá 1978 en Danmörk hefur staðfest samninginn frá 1991 fyrst ríkja. Sú gerð mun ekki öðlast gildi fyrr en fimm ríki hafa fullgilt samninginn. Nokkur lönd að auki hafa sett lög til samræmis við ákvæði hans.
    Meginmarkmið UPOV-samningsins er tvíþætt: að tryggja plöntukynbótamönnum í aðild­arríkjunum lágmarksvernd á nýjum yrkjum af nytjaplöntum og samræmi í reglum um nýmæli, sérstæði, einsleitni og stöðugleika og reglum um heiti nýrra yrkja. Í heild munu liðlega fjöru­tíu þúsund yrki njóta verndar í þeim löndum sem staðfest hafa samninginn og árleg skráning nýrra yrkja nálgast tíu þúsund.

Einkaleyfi og yrkisréttur.
    Uppfinningar og þróun nýrra aðferða liggja iðulega til grundvallar framförum í plöntu­kynbótum og því væri hugsanlegt að vernda ný yrki bæði á grundvelli einkaleyfalaga og sérlaga um yrkisrétt. Möguleikar á réttarvernd geta verið breytilegir eftir því hvort nýtt yrki er þróað með hefðbundnum aðferðum, hvort notast er við nýtt gen sem einangrað hefur verið eða hvort beitt er nýrri líftæknilegri aðferð sem hægt er að verja með einkaleyfalögum. Einkaleyfi er veitt fyrir uppfinningar sem fela í sér tæknilega nýsköpun en yrkisrétti er ætlað að vernda ný yrki. Skilyrði fyrir vernd samkvæmt þessum réttarsviðum eru ólík og einnig réttarverndin. Samkvæmt einkaleyfalögum eru skilyrðin þau að uppfinningin sé ný og frá­brugðin því sem þekkt er á umsóknardegi. Kröfur um nýmæli eru strangar og lýsing á upp­finningunni þarf að vera þannig að fagmaður geti endurtekið það ferli sem leiðir til uppfinn­ingarinnar. Frá þessari kröfu er vikið í yrkisrétti. Yrkið þarf að vera sérstætt en ekki er gerð krafa til að forsendum eða aðferðum við kynbæturnar sé lýst. Oftast er ekki mögulegt að endurtaka ferli sem leiði til nákvæmlega sama yrkis. Vegna þessa ólíku skilyrða fyrir vernd er að jafnaði ekki unnt að vernda yrki samkvæmt einkaleyfalöggjöf landa almennt. Sam­kvæmt 4. mgr. 1. gr. laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, er ekki unnt að öðlast einkaleyfi hér á landi fyrir „plöntuafbrigðum“.

Varðveisla erfðabreytileika, plöntukynbætur og yrkisréttur.
    Mikil umræða á sér stað á alþjóðavettvangi um plöntukynbætur og yrkisrétt, einkum innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Hér skal getið tveggja hugtaka sem eru ofarlega á baugi. Þau eru „réttur bóndans“ (farmer´s right) og „forréttindi bóndans“ (farmer´s privilege). Með seinna hugtakinu er átt við rétt bænda til að rækta eigið útsæði af vernduðu yrki en UPOV-samningurinn frá 1991 gefur færi á takmörkun á þeim rétti. Fyrra hugtakið vísar til þess að til voru verðmætar nytjajurtir og yrki af þeim áður en kynbætur með vísindalegum aðferðum hófust.
    Saga ræktunar nær liðlega tíu þúsund ár aftur í tímann og á þeim tíma hefur ræktunin leitt af sér þróuð form nytjaplantna sem eru undirstaða allrar ræktunar í heiminum. Flest eru yrkin og margbreytilegust á þeim landsvæðum þar sem ræktunarsagan er lengst. Það er mjög mikil­vægt að eiga aðgang að sem flestum og breytilegustum yrkjum í kynbótastarfinu. Af þessum ástæðum hefur miklum efniviði verið safnað á þessum miðsvæðum (centers of diversity) sem flest eru í svonefndum þróunarríkjum. Gömul yrki eru grundvöllur að nýjum og fulltrúar þróunarríkja hafa því gert kröfu til hlutdeildar í þeim arði sem plöntukynbætur hafa leitt af sér, með þeim rökum að framfarirnar byggist að verulegu leyti á efniviði sem safnað hefur verið í þróunarríkjunum og því sé hér um nokkurs konar erfðarétt að ræða (rétt bóndans).
    Málið er þó snúið þar sem mikill hluti ræktunar í þróunarríkjunum byggist einnig á að­fluttum tegundum.
    Samhliða þessari umræðu hefur afstaða til einkaréttar eða eignarhalds á erfðaefni verið að breytast. Hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur var lengi unnið að mótun skuldbindinga varðandi erfðaefni (Undertaking on plant genetic re­sources) sem meðal annars fólu í sér þá yfirlýsingu að allt plöntuerfðaefni væri sameiginleg eign alls mannkyns og þess vegna er til dæmis aðgangur að fræi, sem geymt er í Norræna genabankanum, öllum heimill. Á umhverfisráðstefnunni í Rio de Janeiro í Brasilíu varð breyting á þessarri afstöðu. Gerir samningurinn um líffræðilega fjölbreytni ráð fyrir að eign­arhald á erfðaefni fylgi upprunalandinu. Til dæmis má nefna að hagnýting íslenskra hvera­gerla og einstakra erfðaþátta í þeim er nú háð samþykki íslenskra stjórnvalda.

Plöntukynbætur og ræktun á Íslandi.
    Áhrif plöntukynbóta á íslenskan landbúnað eru mikil. Umfangsmiklar prófanir á erlendum yrkjum auk plöntukynbóta á vísindalegum grunni hafa einkum verið stundaðar á Rannsókna­stofnun landbúnaðarins og fyrirrennurum þeirrar stofnunar, búnaðardeild atvinnudeildar Há­skóla Íslands og gróðrarstöðvunum í Reykjavík og á Akureyri. Aðlögun að umhverfisþáttum er snar þáttur í kynbótastarfinu og því henta fá erlend yrki hinu sérstæða íslenska umhverfi. Vegna tegundafæðar íslensku flórunnar hefur einnig verið lögð mikil áhersla á söfnun villtra tegunda frá ýmsum landsvæðum í öðrum löndum til prófunar hér. Einkum á þetta við um grös til landbúnaðar og uppgræðslu, svo og trjágróður og skrautplöntur. Prófanir á yrkjum og margvíslegum plöntusöfnum hafa oft verðið gerðar í samstarfi við fleiri stofnanir, svo sem Bændaskólann á Hvanneyri, Garðyrkjuskóla ríkisins í Ölfusi og Landgræðslu ríkisins, svo og á vegum Skógræktar ríkisins. Einnig hafa garðyrkjustöðvar, auk grasagarðanna á Akur­eyri og í Reykjavík, flutt inn og reynt mikinn fjölda tegunda. Innflutningur og prófun nytja­plantna á sér langa sögu og má nefna störf Vísa-Gísla Magnússonar (1621–96) og Björns Halldórssonar (1724–94) í því sambandi.
    Íslensk yrki, sem seld eru erlendis, eru fá og ekki hefur verið sótt um yrkisvernd fyrir þau. Fjárhagsleg þýðing yrkisverndar vegna verslunar með íslensk yrki erlendis hefur ekki verið mikil til þessa. Vallarfoxgrasyrkin Adda og Korpa eru kynbætt á Rannsóknastofnun landbún­aðarins en ræktuð til fræs í Svíþjóð og í Kanada og þar eru þau einnig seld. Stofnunin hefur notið arðgreiðslna af sölunni sem fer eftir því magni af fræi sem selt er þótt ekki hafi verið sótt um yrkisvernd fyrir þau. Hagur íslensks landbúnaðar hefur hins vegar aukist verulega vegna kosta þessara yrkja, einkum í aðlögun og bættu vetrarþoli sem hefur aukið ræktunar­öryggi verulega. Kynbætur á byggi eru komnar á það stig að nú eru væntanleg á markað ný íslensk yrki sem eru allt að fimmtungi betri en það yrki sem mest hefur verið ræktað á Ís­landi. Þau eru einnig áhugaverð til ræktunar í norðurhéruðum Norðurlandanna og hugsanlega víðar og er nú unnið að undirbúningi að umsókn um yrkisvernd fyrir þau. Gæti markaðssetn­ing þeirra erlendis skilað umtalsverðum fjármunum, ef vel tekst til, auk þess að renna styrkari stoðum undir kornrækt á Íslandi.
    Kynbætur á íslensku birki hafa leitt til þess að eitt yrki af þessari trjátegund hefur verið sett á markað. Einnig hafa víðtækar prófanir á ýmsum innlendum og erlendum trjá- og runna­tegundum leitt til þess að sérstök yrki hafa verið sett á markað, svo sem Brekkuvíðir og Hreggstaðavíðir auk nokkurs fjölda yrkja af erlendum trjátegundum, svo sem Alaskaösp (Keisari, Pinni og fleiri). Á síðustu árum hefur aukist vitund manna á nauðsyn þess að rækt­endum séu boðin skilgreind yrki af trjáplöntum. Í samstarfi nokkurra stofnana og ræktunar­stöðva hefur verið unnið að prófunum og úrvali úr mikilli söfnun á fræi og plöntum í Alaska árið 1985. Í þessu samstarfi hefur verið leitast við að koma á þeirri skipan að ný yrki njóti verndar til að þeir aðilar njóti arðs sem mest kostuðu til að þróa viðkomandi yrki. Eins og fram kemur í frumvarpinu fylgir slíkum rétti sú mikilvæga kvöð að kynbótamaðurinn verður jafnan að geta afhent fræ eða plöntuhluta sem sannanlega sé af hinu nýja yrki og tryggja þannig bæði ræktunarstöðvum og neytendum gæði þess sem selt er.

Eftirlit með sölu útsæðis.
    Ræktun og sala á útsæði til notkunar í landbúnaði stýrist af lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og reglugerð með þeim. Samkvæmt þessum lögum er óheimilt að flytja til landsins slíkar vörur nema þeim hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Hluti af þeirri lýsingu lýtur að erfðafræðilegum eiginleikum fræs, svo sem af hvaða yrki það er og hvernig staðið hefur verið að fjölgun þess. Stofnræktun í kartöflum er stýrt af svo nefndri útsæðis­nefnd sem starfar samkvæmt lögum nr. 51/1981, um plöntusjúkdóma, og reglugerð nr. 61/1995, um kartöfluútsæði. Einungis skilgreind yrki eru tekin inn í þann vottunarferil. Innan Evrópusambandsins er öll sala á fræi til landbúnaðarnota háð því að fræið sé af yrki sem skráð er á opinberan sáðvörulista.
    Til að komast á opinberan lista yfir landbúnaðarplöntur þarf viðkomandi yrki ekki einung­is að hafa staðist þau próf sem leiða til yrkisréttar heldur þarf það einnig að vera nýmæli hvað varðar uppskeru og/eða gæði og taka fram eldri yrkjum á listanum. Yrkisréttur veitir því ekki sjálfkrafa rétt til markaðsfærslu á nýju yrki í landbúnaði.
    Nokkrar plöntutegundir, sem kynbættar eru á Íslandi, verða ekki með tryggilegum hætti ræktaðar til fræs hér á landi. Bygg og vallarfoxgras eru dæmi um slíkar tegundir.

Erfðabreyttar lífverur, yrkisréttur og sala.
    Yrki getur verið búið til með þeim hætti að það flokkist til erfðabreyttra lífvera. Sem slíkt getur hið nýja yrki staðist allar kröfur sem gerðar eru til þess með hliðsjón af vernd á yrki. Hins vegar getur engu að síður verið óheimilt að selja það eða rækta samkvæmt ákvæðum laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.
    Sala á sáðvöru (fjölgunarefni) af tilteknu yrki gæti því ráðist af fjórum þáttum: að það njóti yrkisréttar, að það standist lög og reglur um útsæði, að það teljist framför miðað við eldri yrki til ræktunar og að sala á því samræmist lögum um erfðabreyttar lífverur ef um það er að ræða.

Framkvæmd og áhrif laganna.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að framkvæmd laganna heyri undir landbúnaðarráð­herra. Skipuð verði sérstök yrkisnefnd þar sem saman komi lögfræðileg og líffræðileg þekk­ing til að takast á við starfið. Skráning nýrra yrkja og árleg endurskráning þeirra mun vænt­anlega skila nokkrum tekjum en þó er vart við því að búast að þessi gjöld standi undir starfseminni.
    Yrkisréttur mun væntanlega leiða til nokkurra bóta í framleiðslu og sölu á fræi og plöntum til ræktunar á Íslandi. Áhugi og skilningur framleiðenda og neytenda á mikilvægi þess að verslað sé með skilgreindar afurðir mun aukast og það mun skila sér í bættum árangri rækt­unar. Hliðstæð löggjöf erlendis hefur ávallt leitt til þess að plöntukynbætur hafa eflst. Gagn­vart erlendum samstarfsaðilum mun yrkisréttur auðvelda verslun og auka möguleika á því að hér verði ræktað fjölgunarefni af erlendum yrkjum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr

    Í greininni segir hvernig öðlast má yrkisrétt með umsókn til sérstakrar yrkisréttarnefndar og er kveðið á um að landbúnaðarráðherra fari með framkvæmd laganna. Upphafsmaður nýs yrkis (einstaklingur eða lögaðili), sem hefur ræktað það með kynbótum eða uppgötvað og þróað það með úrvali úr náttúrulegum efniviði, getur öðlast einkarétt til hagnýtingar þess í atvinnuskyni, yrkisrétt. Skilyrði er að nokkur þróunarvinna hafi verið lögð í yrkið ef um einfalt úrval úr náttúrulegum efniviði er að ræða.
    Upphafsmaður getur framselt rétt sinn til yrkis til annars aðila. Yrkishafi, þ.e. upphafs­maður eða framsalshafi, verður að sækja um og fá skráðan yrkisrétt til að geta neytt yrkis­réttar samkvæmt lögum þessum.
    Hér er notað orðið yrki (á ensku variety, cultivar) um það sem áður hefur verið nefnt ýms­um nöfnum, svo sem afbrigði, t.d. í lögum um einkaleyfi, eða stofn. Orðið yrki er þó ekki alveg nýtt í málinu og hefur oft verið notað um t.d. skrautplöntur og tré. Sá greinarmunur hefur verið gerður á merkingu orðanna afbrigði og stofn að afbrigði hefur verið notað um yrki, þar sem allar plöntur eru af sömu arfgerð, en stofn um yrki af víxlfrjóvga tegundum þar sem yrkið er safn arfgerða. Hér er lagt til að nota eitt orð í báðum þessum merkingum. Nánar kemur fram í skýringum með næstu grein hvað yrki er.
    Samkvæmt Alþjóðasamningnum um vernd nýrra yrkja (UPOV), eins og honum var breytt 1991, getur vernd nýrra yrkja náð til allra tegunda plantna þegar breytingin hefur öðlast gildi. Samkvæmt eldri gerð samningsins skyldi talið upp í hverju landi til hvaða tegunda verndin næði. Sá listi er víða orðinn mjög langur, en þó misjafn eftir löndum, þannig að gagnkvæmur réttur var ekki tryggður milli aðildarlanda UPOV eins og að var stefnt. Heimilt er þó að láta verndina ná til takmarkaðs fjölda tegunda í allt að tíu ár eftir að ríki gerist aðili að samningnum en ekki þykir tilefni til að nýta þessa heimild hér. Því verður heimilt að sækja um vernd þá sem lögin gera ráð fyrir á yrki af hvaða tegund plantna sem er. Það er því yrkishafa sjálfs að meta hvort hagur geti verið að því að vernda rétt til yrkis af tegund þar sem slík vernd hefur ekki tíðkast fyrr.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvaða skilyrðum yrki þarf að fullnægja til að veita megi yrkisrétt. Í 1.–3. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að yrki skuli vera sérstætt, nægilega einsleitt og stöðugt. Þessi skilyrði fela jafnframt í sér hvað yrki er. Það þarf að vera sérstætt til að unnt sé í ræktun eða með annarri rannsókn að greina það frá öllum öðrum þekktum yrkjum. Jafnframt verður það að vera nægilega einsleitt til að greining á því í sáðvörueftirliti verði trygg. Loks verður það að vera stöðugt. Með því er átt við að það haldi einkennum sínum í nýjum kynslóðum af plöntum.
    Til þess að yrki sé sérstætt er nóg að það greinist með einu ótvíræðu einkenni frá öllum örum yrkjum. Um getur verið að ræða útlits- eða byggingareinkenni eða einkenni sem má finna með rannsókn á eðliseiginleikum eða með efnarannsókn. Þeir eiginleikar, sem greina yrki að, þurfa ekki að hafa neitt hagnýtt gildi. Framfarir í hagnýtum eiginleikum, sem fást með hverju nýju yrki, eru oft minni og annars eðlis en svo að þeir nægi til að greina yrki að. Margir hagnýtir eiginleikar eru þó einnig mikilvægir til aðgreiningar, t.d. þroskatími, hæð, styrkur, vetrarþol, viðnám eða þol gegn sjúkdómum og skaðvöldum, efni sem hafa áhrif á gæði eða næringargildi uppskerunnar o.fl. Í flestum löndum Evrópu og víðar þurfa yrki af landbúnaðarplöntum hins vegar að taka eldri yrkjum fram í einhverjum hagnýtum eiginleika til að þau fáist skráð á opinberan sáðvörulista, þ.e. lista yfir yrki sem heimilt er að votta fræ af til sölu. Hagnýtt gildi nýrra yrkja af landbúnaðarplöntum er prófað í sérstökum opinberum ræktunartilraunum eða yrkisprófunum sem tengjast ekki á neinn hátt veitingu yrkisréttar. Yrki þurfa að standast sömu kröfur um sérstæði, einsleitni og stöðugleika til þess að vera skráð á opinberan sáðvörulista og þegar um yrkisrétt er að ræða.
    Við mat á einsleitni verður að taka tillit til þess hvaða breytileiki getur talist eðlilegur vegna umhverfisáhrifa og vegna blöndu arfgerða hjá víxlfrjóvga tegundum.
    Við mat á stöðugleika verður að taka tillit til þeirrar aðferðar sem yrkishafi hefur tilgreint að eigi að nota við fjölgunina því að ræktunarumhverfi og fjölgunaraðferð geta haft áhrif á stöðugleikann. Ef stöðugleika skortir getur farið svo að ekki verði lengur um sama yrkið að ræða er frá líður. Einnig er í 13. gr. gert ráð fyrir eftirliti á verndartímanum. Getur þá komið í ljós að stöðugleiki reynist ekki nægur þótt það hafi ekki komið í ljós á hinum tiltölulega stutta rannsóknartíma.
    Rannsókn á nýjum yrkjum af helstu tegundum nytjaplantna með tilliti til sérstæði, eins­leitni og stöðugleika er gerð á sérstökum stofnunum víða um lönd og gilda um hana reglur sem UPOV hefur samræmt. Nokkur sérhæfing er á milli þessara stofnana þannig að víða þarf að leita til annarra landa til að prófa yrki af einstökum tegundum. Slík rannsókn tekur venju­lega tvö ár.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er tekið fram að yrki skuli vera nýtt til að veita megi yrkisrétt. Ekki má líða meira en eitt ár frá því að það er boðið fram á markaði í landinu, eða fjögur ár erlendis. Á það jafnt við um uppskeru til neyslu og efnivið til fjölgunar. Lengri frestur eða sex ár er þó gefinn um tré og vínvið, þar með talin ágræðsluyrki, enda er æviskeið trjáa lengra en flestra annarra nytjaplantna. Sá tímafrestur (griðtími) sem gefinn er frá markaðssetningu þar til sótt er um yrkisrétt er í samræmi við ákvæði UPOV. Yrki telst nýtt þótt það hafi verið ræktað í því skyni að prófa það jafnvel þótt uppskeran hafi verið seld. Það sem skiptir máli er að uppskeran hafi einungis verið aukaafurð, prófunin hafi verið aðalmarkmiðið með rækt­uninni. Hið sama gildir þótt yrkið hafi verið framselt öðrum til prófunar eða annarra rann­sókna og kynbóta.
    Í 2. mgr. er tilgreint hvað þurfi til að yrki teljist þekkt á umsóknardegi og jafnframt að það teljist þekkt gagnvart umsókn, sem kemur seinna fram, frá þeim degi sem umsókn með lýsingu hefur verið lögð inn. Þær stofnanir, sem rannsaka ný yrki, hafa aðgang að safni með eldri þekktum yrkjum, eða lýsingu á þeim, og geta ræktað til samanburðar hvert það yrki sem getur líkst því sem rannsakað er. Eftir að rannsókn lýkur getur komið fram vitneskja um nýtt yrki sem þó er eldra en það sem rannsakað var. Ber þá að taka fullt tillit til þess, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. um ógildingu yrkisréttar frá upphafi.

Um 3. gr.

    Yrkisvernd er veitt á grundvelli umsóknar. Hver umsókn getur aðeins tekið til eins yrkis. Í greininni er nánar kveðið á um hvernig umsókn um yrkisvernd skuli úr garði gerð.
    Umsókn þarf að hafa að geyma lýsingu á yrki og tiltaka þarf hvað það sé sem geri það hæft til verndunar. Einnig þarf að koma fram heiti yrkis og nafn þess sem hefur ræktað yrkið, eða uppgötvað og þróað það, þ.e. upphafsmanns. Ef upphafsmaður er ekki umsækjandi þarf að liggja fyrir sönnun á rétti umsækjanda til að sækja um yrkisrétt. Nánari reglur um frágang umsókna og efni má setja í reglugerð.
    Í 4. mgr. kemur fram krafa um umboðsaðila hérlendis, einstakling eða lögaðila, sé um­sækjandi búsettur í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Umsækjandi, sem er búsettur í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, þarf hins vegar ekki að hafa umboðsaðila hérlendis. Ekki er nægilegt að umsækjandi, sem er búsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins, hafi umboðs­aðila í öðru ríki á svæðinu en Íslandi heldur verður umboðsaðilinn að vera búsettur hérlend­is.
    Skv. 5. mgr. er yrkisréttarnefnd heimilt að krefjast upplýsinga, efnis og gagna sem til þarf vegna rannsóknar á yrki til að ganga úr skugga um að yrki fullnægi skilyrðum laganna.
    Í 6. mgr. er kveðið á um umsóknargjald. Nánari ákvæði um greiðslutíma og fjárhæð gjaldsins verða sett í reglugerð.

Um 4. gr.

    Þegar umsókn, sem fullnægir gerðum formskilyrðum, hefur verið lögð inn hjá yrkisréttar­nefnd er hún skráð í dagbók. Afrit skal sent umsækjanda sem kvittun fyrir móttöku yrkis­umsóknar. Nánari reglur um form og efni umsókna er yrkisréttarnefnd látið eftir að setja.
    Meðal þeirra atriða, sem óskað er eftir í lýsingu yrkis, er uppruni, aðferð við kynbætur og önnur skyld atriði sem geta verið gagnleg við að meta umsóknina. Í 2. mgr. er undanþágu­ákvæði þess efnis að yrkishafi geti farið fram á að upplýsingar um línur, sem mynda blend­ingsyrki, og lýsingar á þeim verði ekki gerðar aðgengilegar almenningi. Þessi leynd getur ekki átt við ef blendingsyrki eru fengin með víxlun á yrkjum sem sjálf njóta verndar.

Um 5. gr.

    Skv. 5. mgr. 3. gr. getur yrkisréttarnefnd krafist þess að umsækjandi leggi fram ýmsar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að nefndin geti rannsakað yrkisumsókn. Veiti um­sækjandi ekki slíkar upplýsingar verður umsóknin felld úr dagbók sem hefur þau réttaráhrif að umsóknin er ógild frá upphafi, þ.e. talið er að hún hafi aldrei verið lögð inn. Ákvæði þessu er ætlað að veita yrkisréttarnefnd möguleika á að koma í veg fyrir að skráðar verði umsóknir sem einungis eru lagðar inn vegna forgangsréttar en ekki er ætlunin að fylgja eftir.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er skýrlega greint frá því hvaða réttur er bundinn við innlagningu umsóknar. Þegar yrki hefur verið skráð telst verndin frá umsóknardegi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um svonefndan forgangsrétt. Aðili, sem sækist eftir vernd á yrki, getur í raun valið í hvaða aðildarríki UPOV hann leggur fyrst inn umsókn. Leggi hann inn umsókn í öðru aðildarríki innan tólf mánaða frá fyrstu umsókninni ber að telja þá umsókn hafa borist á sama tíma og hin fyrsta. Umsækjandi þarf þó að bera fram slíka ósk.
    Umsækjandi þarf að leggja fram gögn er sanna móttöku fyrstu umsóknarinnar. Í samræmi við 2. mgr. 11. gr. UPOV-samningsins er þess krafist að umsækjandi láti í té, innan þriggja mánaða frá umsóknardegi hér á landi, afrit af fyrstu umsókninni, staðfesta af viðtökuyfir­valdinu, og sýnishorn eða aðrar sannanir fyrir því að um sama yrkið sé að ræða í báðum umsóknunum.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um bráðabirgðarannsókn yrkisréttarnefndar á því hvort yrki full­nægi skilyrðum verndar. Hér er ekki átt við formrannsókn eins og kveðið er á um í 4. gr. Eftir að kannað hefur verið hvort umsókn fullnægir formskilyrðum og hún hefur verið færð í dagbók fer slík bráðabirgðarannsókn fram. Á þessu stigi rannsakar nefndin aðeins hvort eitthvað standi augljóslega í vegi fyrir skráningu samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í umsókninni sjálfri og öðrum aðgengilegum heimildum. Endanlegt samþykki fyrir skráningu er aðeins hægt að veita á grundvelli rannsóknar sem lýst er í 9. gr. Ef yrkisréttar­nefnd telur umsókn fullnægja þeim skilyrðum sem gerð eru til verndar er umsóknin birt til andmæla í Lögbirtingablaði. Í þeirri birtingu skal koma fram að þeir sem hagsmuna hafa að gæta geti innan tilskilins frests mótmælt skráningu yrkisins til yrkisréttarnefndar.
    Telji nefndin hins vegar að umsókn uppfylli ekki sett skilyrði skal umsækjanda tilkynnt um það og gefinn kostur á að tjá sig um synjun nefndarinnar.

Um 8. gr.

    Ákvæði 1. mgr. fjalla um andmælamál almennt. Ef niðurstaða í slíku máli er sú að taka beri andmælin til greina skal það birt í Lögbirtingablaði.
    Niðurstaða í andmælamáli er endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi, sbr. 23. gr. frum­varpsins. Aðilar geta þó að sjálfsögðu alltaf borið mál undir dómstóla.
    Í 2. mgr. er í raun að finna undantekningu frá þeirri reglu að yrkisréttarnefnd úrskurði í andmælamálum. Þegar andmælt er skráningu yrkis á þeim grundvelli að umsækjandi sé ekki réttur eigandi yrkis er talið nauðsynlegt að dómstólar fjalli um málið. Í slíkum málum getur verið þörf á vitnaleiðslum og sönnunarmat verið erfitt. Því er gert ráð fyrir því í greininni að aðilum sé bent á að leita megi til dómstóla.

Um 9. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um skyldu yrkisréttarnefndar til að athuga hvort yrki fullnægi settum skilyrðum fyrir vernd. Getur þá komið til sérstakrar rannsóknar á því hvort yrki sé sérstætt, nægilega einsleitt og stöðugt, sbr. 1.–3. tölul. 1. mgr. 2. gr. og athugasemdir við þá grein. Yrki þarf jafnframt í þeirri ræktun, sem er grundvöllur rannsóknarinnar, að sýna þá eiginleika sem lýst er í umsókn. Nefndin skal meta þörf á slíkri rannsókn og getur t.d. viður­kennt rannsókn sem yrkishafi lætur gera.
    Í 2. mgr. segir að krefja megi umsækjanda um gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af rann­sókn. Um heimild er að ræða en ekki skyldu.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. þessarar greinar er fjallað um skráningu yrkis í yrkisréttarskrá með samþykktu yrkisheiti. Nánari ákvæði eru í 11. gr.
    Í 2. mgr. er fjallað um það hvernig með skuli fara ef ekki er gerð tillaga um heiti yrkis eða tillaga um nýtt heiti sem yrkisréttarnefnd telur fullnægjandi.
    Í 3. mgr. segir að færa skuli athugasemd um málshöfðun fyrir dómstólum í yrkisréttarskrá.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um skráningu í yrkisréttarskrá en felast í greininni, sbr. almenna reglugerðarheimild í 28. gr.

Um 11. gr.

    Í greininni eru ákvæði um yrkisheiti og kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja reglur þar um. Í reglunum mætti m.a. kveða á um birtingu yrkisheita. Nefna má að í 2. mgr. 20. gr. UPOV-samningsins eru ákvæði um yrkisheiti sem tekin eru upp í þessa grein.
    Gera má ráð fyrir að aukheiti, sem nota má samkvæmt 3. mgr. í tenglum við yrkisheitið, geti verið vörumerki, nafn einstaklings eða firma, staðarnafn eða nafn á fasteign enda sé tek­ið tillit til réttinda annarra.
    Hið skráða yrkisheiti skal notað við sölu eða annað framsal á efni til fjölgunar yrkis og á það jafnt við um vernduð yrki sem önnur. Sú skylda á einnig við þótt notað sé aukheiti og skal yrkisheitið jafnan vera greinilegt.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um yrkisréttarskjal og gildistíma þess sem er almennt 25 ár en í undantekningartilvikum 30 ár. Yrkisréttarnefnd gefur skjalið út gegn greiðslu skráningar­gjalds og jafnframt afrit til þeirra sem um biðja. Í reglugerð ráðsins nr. 2001/94/EB er gert ráð fyrir 25–30 ára gildistíma eins og hér. Í dönskum lögum er farið eftir árafjöldanum í þeirri reglugerð. Samkvæmt UPOV-samningnum skal gildistíminn vera 20 ár að lágmarki.
    Gildistími yrkisréttarskjals er eitt ár í senn og skal greiða árgjald til að tryggja vernd sam­kvæmt skjalinu. Kvittun fyrir greiðslu gjaldsins telst næg sönnun fyrir því að vernd sé enn í gildi.
    Hvað varðar hugsanlegar reglur um lengri gildistíma yrkisréttarskjals en 25 ár má nefna að í Danmörku hefur yrkjum af kartöflum verið veitt vernd umfram þann tíma.

Um 13. gr.

    Hér er kveðið á um heimild til eftirlits eftir skráningu en það yrði í höndum yrkisréttar­nefndar og fælst í því að athuga hvort yrkishafi héldi yrkinu nægilega vel við. Er það skilyrði þess að unnt sé með rannsókn að staðfesta að um viðkomandi yrki sé að ræða sem er svo aftur forsenda þess að unnt sé að neyta yrkisréttar.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar eru nefnd tilvik þegar skylt er að ógilda veitingu yrkisréttar frá upphafi en í 2. mgr. tilvik þegar heimilt er að fella yrki úr yrkisréttarskrá.

Um 15. gr.

    Hér er kveðið á um að yrki, sem fellt hefur verið úr yrkisréttarskrá, verði eigi skráð þar að nýju. Eftir að yrki hefur verið fellt úr skránni nýtur það eigi verndar og er frjálst að nota það. Væri leyft að skrá slíkt yrki á ný gæti það skaðað þá aðila sem hefðu hafið framleiðslu á því í trausti þess að um væri að ræða yrki sem ekki þyrfti að greiða nytjaleyfisgjald af.

Um 16. gr.

    Í greininni er kveðið á um til hvaða yrkja yrkisrétturinn skuli ná. Auk skráð yrkis, sbr. 1. tölul. 1. mgr., getur rétturinn náð til annarra plöntuhópa eða yrkja sem tengjast því með nánar tilgreindum hætti, sbr. 2.–4. tölul. Skv. 2. tölul. getur verið um að ræða plöntur eða efnivið til fjölgunar sem annar aðili býður en ekki verður greindur með vissu frá verndaða yrkinu og skv. 3. tölul. yrki sem er í öllum aðalatriðum komið af verndaða yrkinu, þó ekki ef það er sjálft komið af öðru í öllum aðalatriðum eins og nánar er kveðið á um í 2. mgr. Með ákvæðum 4. tölul. um yrki, sem ekki er unnt að framleiða nema með endurtekinni notkun hins skráða yrkis, er einkum átt við blendingsyrki sem fást við víxlun á tveimur eða fleiri línum eða yrkjum en með því móti getur áunnist blendingsþróttur.
    Ákvæðið um yrki, sem er í öllum aðalatriðum komið af hinu verndaða yrki, er talið meðal mikilvægustu nýjunga sem komu inn í UPOV-samninginn þegar hann var endurskoðaður 1991, sbr. 5. tölul. 14. gr. hans. Slíkt yrki getur uppfyllt skilyrði til verndar skv. 2. gr. en samkvæmt þessu ákvæði er réttur til þess einnig hjá upphafsyrkinu. Einfalt dæmi um yrki, sem er í öllum aðalatriðum komið af hinu verndaða yrki, er þegar frábrugðin planta er valin úr þekktu yrki af tegund sem er fjölgað með vaxtaræxlun. Þetta getur t.d. verið litarafbrigði sem hefur orðið til við stökkbreytingu og getur talist nýtt yrki skv. 2. gr. Ekki þykir sann­gjarnt að þetta yrki njóti sömu verndar og upphafsyrkið sem getur verið árangur hefðbundins kynbótastarfs með víxlunum og úrvali í tíu til fimmtán ár. Með aðferðum erfðatækninnar hafa opnast fljótvirkar leiðir til að koma einstökum genum, sem stýra mikilvægum hagnýtum eiginleikum, inn í eldri yrki. Þessi aðgerð eða genið sjálft getur verið verndað með einka­leyfi. Einkaleyfishafa er heimilt að setja nýja eiginleikann inn í hvaða yrki sem er en hann skal virða rétt yrkishafa, sé yrkið verndað, og ná samkomulagi við hann þegar kemur að markaðssetningu. Með þessu ákvæði er ætlunin að tryggja að þessar leiðir í kynbótastarfinu geti notið sín hlið við hlið.
    Samkvæmt niðurlagsákvæði 14. gr. UPOV-samningsins getur yrki, sem er komið af öðru í öllum aðalatriðum, fengist með því að velja náttúrulegt eða framkallað stökkbrigði, klónað líkamsfrumubrigði eða einstaka plöntu sem víkur frá plöntum af upphafsyrkinu, með bakvíxl­un eða með aðferðum erfðatækninnar.

Um 17. gr.

    Í greininni kemur fram hvað felst í þeim einkarétti sem yrkisréttur veitir. Einnig er þar greint frá skilyrðum sem yrkishafi getur sett um hagnýtingu yrkis, m.a. um greiðslu nytja­leyfisgjalds. Rétturinn nær til efniviðar til fjölgunar yrkis, hvort sem um er að ræða fræ, stöngulhnýði eins og kartöflur, græðlinga eða annað, og hvers konar viðskipti og meðferð á efniviðnum í atvinnuskyni enda sé hann ætlaður til fjölgunar. Hins vegar nær rétturinn samkvæmt þessu ekki til þess ef efniviðurinn er seldur til endanlegrar neyslu jafnvel þótt hann sé hæfur til fjölgunar. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. nær rétturinn einnig til þess t.d. ef fræhreinsistöð tekur að sér hreinsun á fræi fyrir annan aðila sem ræktar það í eigin þágu þótt sú ræktun kunni að vera undanþegin yrkisrétti skv. 18. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til að setja reglur um greiðslu nytjaleyfisgjalds þegar um er að ræða fjölgun yrkja af sérstaklega tilgreindum tegundum eingöngu til notkunar í eigin rekstri. Um er að ræða frávik frá reglunni um forréttindi bóndans (farmer´s privilege) sem felur í sér óskoraðan rétt bænda til ræktunar á eigin útsæði. Kom þetta inn í UPOV-samning­inn við endurskoðunina 1991, m.a. vegna þess að búrekstur er nú orðið víðast í mun stærri einingum en áður tíðkaðist. Áður var þó búið að taka í lög eða reglur frávik varðandi ein­stakar tegundir þegar um er að ræða ræktun í atvinnuskyni, t.d. skrautplöntur í Noregi og Svíþjóð og sérstaklega tilgreindar skrautplöntur og ávaxta- og berjategundir í Danmörku, m.a. jólastjörnu og rósir. Án slíkrar undantekningar hefði ekki verið um neina raunverulega vernd yrkja af þessum tegundum að ræða þar sem auðvelt er að fjölga þeim með græðlingum. Í reglugerð ráðsins nr. 2001/94/EB, um yrkisrétt sem veittur er í öllu sambandinu í einu, eru forréttindi bóndans takmörkuð og í kornrækt skulu einungis smábændur njóta óskertra for­réttinda. Aðrir greiði nytjaleyfisgjald af eigin útsæði, þó lægra en þegar sáðvara er ræktuð til sölu. Samkvæmt endurskoðuðum bandarískum lögum munu forréttindi bóndans hins vegar haldast óskert hvað varðar yrki af tegundum sem fjölgað er með kynæxlun.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að yrkisréttur nái einnig til uppskeru af yrki hafi yrkishafi ekki heimilað þá hagnýtingu og haft tök á að nýta réttindi sín. Þetta ákvæði á t.d. við um innflutn­ing frá ríki þar sem yrkið nýtur ekki verndar. Þetta ákvæði er nauðsynlegt samkvæmt UPOV-samningnum. Í 3. mgr. 14. gr. samningsins er ákvæði um vernd sem nær einnig til afurða, framleiddra úr uppskeru sem hefur fengist án þess að yrkishafi hafi haft tök á að nýta réttindi sín. Aðildarríkjum samningsins er þó í sjálfsvald sett hvort þau taka upp þetta ákvæði. Hér er lagt til að það verði ekki gert og er það í samræmi við það sem gert er í nágrannalönd­unum.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að skilyrði þau sem yrkishafi setur skuli vera sanngjörn og að framleiðendum skuli ekki mismunað. Ágreiningi má skv. 19. gr. vísa til yrkisréttarnefndar.

Um 18. gr.

    Eins og komið hefur fram er í 17. gr. kveðið á um hvað felst í yrkisrétti. Hér koma fram undanþágur frá því ákvæði. Notkun í einkaþágu er heimil en þessi undanþága er þó tak­mörkuð, sbr. 16. gr. og athugasemdir við hana. Þá er notkun verndaðs yrkis öllum frjáls til tilrauna og frekari kynbóta. Byggist það á því sjónarmiði að erfðaefni plantna sé sameiginleg auðlind sem skuli öllum frjáls til hagnýtingar.
    Í 4. tölul. er ákvæði um um svonefnda réttindaþurrð eða tæmingu réttinda, sbr. 16. gr. UPOV-samningsins. Þessi regla felur í sér að ráðstöfunarréttur rétthafa er takmarkaður þannig að eftir að hann hefur markaðssett vöru getur hann ekki lengur beitt réttindum sínum ótakmarkað. Réttindaþurrð getur verið landsbundin, náð til tiltekins svæðis, t.d. EES-svæð­isins, eða talist ná til alls heimsins. Á hinum ýmsu sviðum hugverkaréttar er þetta mismun­andi, t.d. nær tæming vörumerkjaréttar til alls heimsins en í þessum lögum er tæmingin bundin við EES-svæðið.

Um 19. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að yrkisréttarnefnd skuli, sé þess óskað, kanna réttmæti þeirra skilyrða sem yrkishafi setur skv. 17. gr.

Um 20. gr.

    Samkvæmt greininni er heimilt að skylda yrkishafa til að bjóða fram efnivið til fjölgunar yrkis í ríkari mæli eða á annan hátt en hann hefur gert. Í þessu ákvæði felst að veittum yrkis­rétti fylgir kvöð um að sinna þörfum íslenskra ræktenda þótt yrkishafi kjósi e.t.v. að veita öðrum markaðssvæðum forgang. Einnig má hugsa sér að skylda megi yrkishafa til að leyfa ræktun hér á landi á efniviði til fjölgunar yrkis þótt framboð erlendis sé nægilegt ef það er talið nauðsynlegt til að vinna gegn innflutningi plöntusjúkdóma.

Um 21. gr.

    Meðferð umsóknar tekur að jafnaði langan tíma, oft meira en tvö ár ef um nýtt yrki er að ræða. Yrkið getur verið orðið tilbúið til almennrar markaðssetningar áður en sá tími er lið­inn. Með ákvæðum greinarinnar er yrkishafa gefinn kostur á að neyta hins væntanlega réttar síns, t.d. með því að leggja á nytjaleyfisgjald, áður en umsóknin er afgreidd. Er það í sam­ræmi við þá hagsmuni sem þessum lögum er ætlað að tryggja, jafnt þeirra sem fást við kyn­bætur og bænda, að sem minnst töf verði á að nýtt yrki komi til nytja.
    Í 2. og 3. mgr. eru ákvæði um hvernig skuli farið með nytjaleyfisgjald, sem innheimt er í samræmi við ákvæði greinarinnar, á umsóknartíma og þegar umsókn hefur verið afgreidd.

Um 22. gr.

    Eins og frumvarp þetta ber með sér fylgja margvísleg stjórnunarleg viðfangsefni fram­kvæmd laga um yrkisrétt. Ákvæði þar að lútandi eru í II.–IV. kafla frumvarpsins.
    Greinin mælir fyrir um að til þeirra viðfangsefna skuli skipuð nefnd af ráðherra og að í nefndina séu m.a. skipaðir fulltrúar sem hafi sérþekkingu á ræktun plantna og hugverkarétti.
    Þetta fyrirkomulag á sér hliðstæðu á Norðurlöndum. Í Danmörku er þó tveimur nefndum ætlað það hlutverk sem einni nefnd er ætlað í frumvarpi þessu.

Um 23. gr.

    Störf yrkisréttarnefndar verða í mörgum tilvikum það sérhæfð að ekki þykir ástæða til að ákvörðunum nefndarinnar verði skotið til annarra stjórnsýsluaðila til breytingar eða ógild­ingar. Slíkt verður því að gerast fyrir dómstólum.

Um 24. gr.

    Nauðsynlegt er við framkvæmd laga þessara að geta beint erindum og ákvörðunum, sem réttaráhrif hafa, til yrkishafa eða umboðsmanns hans. Verði því ekki komið við er birting erinda heimiluð á þann hátt sem lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lög um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943, mæla fyrir um.

Um 25. gr.

    Rétt þykir að heimila álagningu gjalda til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna að nokkru.

Um 26. gr.

    Eftir að yrkisréttur hefur verið skilgreindur og nýtur lagaverndar er eðlilegt að brot á þessum lögum varði refsingu. Um einkarefsimál er að ræða.

Um 27. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringar.

Um 28. gr.

    Hér er að finna almenna reglugerðarheimild til handa landbúnaðarráðherra sem fer sam­kvæmt 2. mgr. 1. gr. með framkvæmd laga þessara. Auk þess getur ráðherrann sett reglur um nánar tiltekin atriði, t. d. yrkisheiti, samkvæmt öðrum greinum laganna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um yrkisrétt.

    Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði möguleiki á vernd á hugverkarétti í plöntukynbótum, yrkisréttur, í samræmi við samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem Íslendingar eru aðilar að.
    Gert er ráð fyrir að stofnuð verði þriggja til fimm manna yrkisréttarnefnd sem veitir yrkis­rétt og hefur eftirlit með því að yrkishafi uppfylli lögboðnar skyldur. Umsækjendur um yrkis­rétt greiða gjald fyrir umsókn og kostnað við rannsókn á því að yrkið fullnægi skilyrðum fyrir vernd. Einnig greiða þeir gjald fyrir skráningu yrkisins fyrsta árið og árgjald eftir það. Áætlað er að tekjur af gjöldunum standi undir kostnaði við nefndarstarfið.