Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 827  —  419. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um fyrirkomulag á innheimtu hjá tollstjóranum í Reykjavík.

     1.      Hvaða breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi innheimtumála hjá tollstjóranum í Reykjavík vegna yfirtöku á verkefnum Gjaldheimtunnar í Reykjavík?
    Gjaldheimtan í Reykjavík var lögð niður 1. janúar 1998 og innheimta á hennar vegum færð til embættis tollstjórans í Reykjavík og sameinuð innheimtustarfsemi sem þar var fyrir. Jafnframt þessu nýja verkefni fól fjármálaráðuneytið tollstjóranum í Reykjavík ákveðin verkefni sem ráðuneytið hafði áður sinnt á sviði innheimtu opinberra gjalda.
    Frá upphafi var ljóst að ný og umfangsmeiri starfsemi hjá embætti tollstjórans í Reykjavík kallaði á endurskoðun innheimtustarfseminnar. Flestir starfsmenn gjaldheimtunnar þáðu störf hjá tollstjóranum í Reykjavík þegar verkefni gjaldheimtunnar fluttust yfir auk þess sem einn starfsmaður úr fjármálaráðuneytinu fór til tollstjórans. Nú eru því 55 starfsmenn í innheimtu­sviði embættisins í stað u.þ.b. 30 áður. Endurskoðun starfseminnar hófst þegar í upphafi síð­asta árs og stendur enn þá yfir. Markmið hennar er að auka skilvirkni í innheimtumálum, samræma störf innheimtumanna, draga úr dýrum innheimtuaðgerðum vegna lágra fjárhæða og tryggja jafnræði meðal gjaldenda.
    Í upphafi árs 1998 var gefið út skipurit fyrir innheimtusvið Tollstjórans í Reykjavík þar sem starfseminni var skipt í þrjár deildir, gjaldadeild, eftirstöðvadeild og þjónustudeild, en áður voru deildirnar tvær, gjaldadeild og eftirstöðvadeild. Þjónustudeild var sett á laggirnar fyrst og fremst til að sinna verkefnum sem embættið tók við frá fjármálaráðuneytinu.
    Fljótlega kom í ljós að heppilegt þótti að skipta verkefnum frekar niður og stofna fjórðu deildina í tilraunaskyni, svokallaða milliinnheimtudeild. Gert er ráð fyrir flæði verkefna milli deildanna samkvæmt reglum þar um.
    Markmið með starfsemi milliinnheimtudeildar er að tilkynna og veita gjaldendum upplýs­ingar um vanskil og gefa þeim kost á að leysa mál sín án þess að til frekari og kostnaðarsam­ari innheimtuaðgerða þurfi að koma. Jafnframt hefur verið sett á fót starfsemi sérstaks þjón­ustufulltrúa frá 1. október sl. Megintilgangur með starfi hans er móttaka, almenn og sérstök upplýsingagjöf og aðstoð við gjaldendur í vanskilum. Þjónustufulltrúinn tekur á móti gjald­endum, upplýsir þá um stöðu mála sinna og veitir leiðbeiningar og aðstoð í málum viðkom­andi. Þjónustufulltrúinn skal m.a. vera í sambandi við skattyfirvöld vegna málefna gjaldenda ef á þarf að halda.
    Með starfsemi milliinnheimtudeildar og þjónustufulltrúa er reynt að koma til móts við gjaldendur eins og unnt er og bæta þjónustu við þá frá því sem verið hefur.
    Tollstjórinn í Reykjavík hefur í samvinnu við aðra innheimtumenn ríkissjóðs unnið að gerð verklagsreglna fyrir innheimtu opinberra gjalda. Tilgangurinn með reglunum er m.a. að tryggja jafnræði gjaldenda, auka öryggi í innheimtu og að stuðla að sem hagkvæmastri fram­kvæmd.
    Hjá tollstjóranum í Reykjavík er talin þörf á að setja nýjar reglur á eftirfarandi sviðum:
          Reglur um framkvæmd innheimtustarfsemi innheimtumanna á árinu 1999.
          Reglur um meðferð og miðlun upplýsinga um gjaldendur opinberra gjalda o.fl.
          Reglur um afdrátt af launum vegna skattskulda.
          Reglur um eðlilegan málshraða við innheimtu skattskulda.
          Viðmiðunarreglur um hvenær innheimtumenn ríkissjóðs skulu krefjast gjaldþrotaskipta á búum einstaklinga og félaga vegna skattskulda.
          Viðmiðunarreglur um það hvenær innheimtumenn ríkissjóðs skulu senda skattrannsóknarstjóra tilkynningu um vanskil gjaldenda.
          Reglur um skjalavistun og skráningu upplýsinga um innheimtumál.
    Þegar hafa verið settar reglur um innheimtuferli í sköttum þar sem lagaheimild til stöðv­unar atvinnurekstrar gjaldanda er til staðar. Aðrar reglur eru í undirbúningi eða vinna við þær um það bil að hefjast.

     2.      Hvaða áhrif hafa þessar breytingar haft á:
                  a.      fjölda fjárnámsaðgerða,
                  b.      fjölda gjaldþrotamála,
                  c.      innheimtuárangur hjá tollstjóranum í Reykjavík?

    Fjárnámsbeiðnum hefur fækkað gríðarlega á milli ára. Árið1997 báðu Gjaldheimtan og tollstjórinn í Reykjavík samtals um 16.000 fjárnám vegna skulda í öllum gjaldflokkum en ár­ið 1998 voru fjárnám að beiðni tollstjórans í Reykjavík tæplega helmingi færri eða 8.164. Útlagður kostnaður við hverja fjárnámsbeiðni er að lágmarki 3.500 kr. Því hafa sparast a.m.k. 28 millj. kr. á árinu 1998 vegna færri fjárnámsbeiðna og kemur sá sparnaður aðallega fram hjá gjaldendum.
    Gjaldþrotaskiptabeiðnum frá tollstjóraembættinu hefur einnig fækkað verulega milli ára eða um 286, sem er um 31% fækkun. Jafnframt hefur uppkveðnum úrskurðum um gjaldþrota­skipti fækkað um 86 eða 23% milli áranna 1997 og 1998. Þegar mál eru tekin til gjaldþrota­skipta þarf tollstjóri að leggja fram 150.000 kr. tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar við skipt­in. Miðað við endanlegan kostnað sem embætti tollstjóra hefur haft af búskiptum undanfarin ár má gera ráð fyrir því að færri gjaldþrotabeiðnir hafi sparað ríkissjóði a.m.k. 8 millj. kr. á árinu 1998.

Tafla 1. Fjöldi gjaldþrotaskiptamála hjá héraðsdómi Reykjavíkur á árunum 1997 og 1998.

Gerðar-
beiðandi
Árið 1997 Árið 1998 1997–98
Beiðnir um
gjaldþrotaskipti
Gjaldþrota-
úrskurðir
Beiðnir um
gjaldþrotaskipti
Gjaldþrota-
úrskurðir
Breyting á fjölda
beiðna úrskurða
Fjöldi % Fjöldi % Fjöldi % Fjöldi % % %
Tollstjórinn
í Reykjavík

917

73,1

381

83,6

631

63,2

295

71,3

-31,2

-22,6
Aðrir 338 26,9 75 16,4 368 36,8 119 28,7 8,9 58,7
Samtals 1.255 100,0 456 100,0 999 100,0 414 100,0 -20,4 -9,2

    Þegar tekin var ákvörðun um að færa verkefni Gjaldheimtunnar í Reykjavík til tollstjóra var reiknað með því að það gæti haft áhrif á innheimtuárangur til lækkunar fyrst um sinn. Jafnframt var talið að breytingar á fyrirkomulagi innheimtu hjá tollstjóra gætu leitt til verri innheimtuárangurs þegar til skamms tíma væri litið en þegar frá liði ætti innheimtuárangur að batna og verða jafnvel betri en hann hefur verið bestur. Ástæðan fyrir þessu er sú ákvörð­un að reyna að gera gjaldendum kleift að greiða skatta sína áður en málin eru send í van­skilainnheimtu með ærnum tilkostnaði fyrir gjaldendur. Hins vegar kemur í ljós þegar inn­heimtuárangur hjá embættinu 1998 er borin saman við árangurinn 1997 að hann hefur al­mennt batnað milli áranna.
    Í fylgiskjölum eru yfirlit yfir innheimtuárangur innheimtumanna ríkissjóðs í þinggjöldum einstaklinga og félaga, virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda árið 1998 með samanburði við fyrri ár. Við mat á innheimtuárangri innheimtumanna er miðað við stöðu inn­heimtu 1. janúar 1999 samanborið við stöðuna 1. janúar árið áður.
    Innheimtuárangur tollstjórans í Reykjavík á þinggjöldum félaga batnaði um 5,44% milli áranna 1997 og 1998. Innheimtuárangur annarra innheimtumanna í þinggjöldum félaga var hins vegar um 6,70% lakari árið 1998 miðað við árangurinn 1997.
    Innheimtuárangur tollstjórans í Reykjavík í þinggjöldum einstaklinga batnaði um 5,07% milli áranna 1997 og 1998. Innheimtuárangur annarra innheimtumanna í þinggjöldum ein­staklinga batnaði jafnframt um 1,48% milli áranna 1997 og 1998.
    Innheimtuárangur tollstjórans í Reykjavík í virðisaukaskatti batnaði um 0,45% milli ár­anna 1997 og 1998. Innheimtuárangur annarra innheimtumanna batnaði um 0,31% milli ár­anna 1997 og 1988.
    Innheimtuárangur tollstjórans í Reykjavík í staðgreiðslu opinberra gjalda versnaði um 0,18% milli áranna 1997 og 1998. Innheimtuárangur annarra innheimtumanna versnaði á sama tíma um 0,07%.
    Í heild hefur bættur innheimtuárangur tollstjórans í Reykjavík í framangreindum gjald­flokkum leitt til þess að innheimtar hafa verið um það bil 650 millj. kr. meira á árinu 1998 en verið hefði ef innheimtuárangur hefði verið óbreyttur miðað við árið 1997 að teknu tilliti til lakari innheimtuárangurs í staðgreiðslu opinberra gjalda.

Tafla 2. Breyting á innheimtuárangri milli áranna 1997 og 1998.


Í millj. kr.

Staðgreiðsla
Virðisaukaskattur Opinber gjöld
einstaklinga
Opinber gjöld
fyrirtækja

Samtals
Tollstjórinn í Reykjavík -62 111 246 355 650
Aðrir innheimtumenn -15 42 74 -216 -117
Samtals -75 157 340 138 560

Fylgiskjal I.


Innheimta opinberra gjalda.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu




Fylgiskjal II.


Innheimta staðgreiðslu og virðisaukaskatts.



Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu