Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 828  —  421. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um skipan heilbrigðismála á Austurlandi.

     1.      Hvers konar skipan heilbrigðisþjónustu er fyrirhuguð á Austurlandi á næstunni samkvæmt tillögum og ákvörðunum ráðuneytisins?
    Heilbrigðisstofnanir á Austurlandi, þ.e. á svæðinu frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri, hafa verið sameinaðar í eina stofnun, Heilbrigðisstofnun Austurlands. Skipuð hefur verið fimm manna stjórn stofnunarinnar og auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra. Þessi yfirstjórn leysir af hólmi sjö stjórnir sem áður voru yfir heilbrigðisstofnunum á Vopnafirði, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi og fram­kvæmdastjóri tekur við af sjö framkvæmdastjórum sem hingað til hafa starfað við stofnanirn­ar. Þannig fækkar stjórnarmönnum úr 35 í fimm. Gert er ráð fyrir auknu starfi héraðslæknis með stjórn, framkvæmdastjóra og öðrum stjórnendum samfara framangreindum breytingum. Jafnframt eru nú til skoðunar í ráðuneytinu óskir um að hjúkrunarheimilið Sundabúð á Vopnafirði og hugsanlega önnur hjúkrunarheimili á svæði stofnunarinnar, sem rekin eru af sveitarfélögum, verði felld undir Heilbrigðisstofnun Austurlands. Í framhaldi af þeim stjórn­skipulagsbreytingum sem hér hefur verið lýst munu nýskipuð stjórn og settur framkvæmda­stjóri vinna að þeim markmiðum sem stefnt er að með sameiningunni, þ.e. að styrkja heil­brigðisþjónustu á svæðinu, tengja saman stofnanir og skapa sterkari rekstrareiningar þar sem mönnun, samvinna og samnýting mun skapa öflugri einingar.

     2.      Á hvaða lögum og reglugerðarákvæðum er breytt skipan byggð að því er varðar heilbrigðisþjónustu og starfsfólk (viðkomandi lagaheimildir og reglugerðir óskast birtar með svari)?
    Breytt skipan er fyrst og fremst byggð á 2. mgr. 12. gr., 15. gr. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 590/1998, um sameiningu heilbrigðisstofnana.
    Þær lagaheimildir sem vitnað er til eru svohljóðandi:

Ákvæði laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.


    2. mgr. 12. gr.
    Þar sem aðstæður leyfa skulu heilsugæslustöð og sjúkrahús rekin sem ein stofnun undir einni stjórn, sbr. 2. mgr. 21. gr.

    15. gr.
    Ráðherra er heimilt að breyta skiptingu í heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsu­gæslustöðva og starfssvæði þeirra með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.

    2. mgr. 24. gr.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann getur jafnframt ákveðið sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu með reglugerð að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Reglugerð nr. 590/1998 um sameiningu heilbrigðisstofnana.


1. gr.


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að sameina eftirtaldar heilbrigðis­stofnanir;

1.1.     Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði
         Heilsugæslustöðina á Ísafirði ásamt útibúum á Súðavík og Suðureyri
         Öldrunarstofnun Önfirðinga á Flateyri
         Heilsugæslustöðina á Flateyri
         Sjúkraskýlið á Þingeyri
         Heilsugæslustöðina á Þingeyri
undir nafninu Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ;

1.2.     Heilbrigðisstofnunina á Egilsstöðum
         Heilbrigðisstofnunina á Seyðisfirði
         Heilbrigðisstofnunina í Neskaupstað
         Heilsugæslustöðina á Djúpavogi
         Heilsugæslustöðina á Eskifirði
         Heilsugæslustöðina á Fáskrúðsfirði
         Heilsugæslustöðina á Vopnafirði
undir nafninu Heilbrigðisstofnun Austurlands;

1.3.     Heilsugæslustöðina á Hellu
         Heilsugæslustöðina á Hvolsvelli
undir nafninu Heilsugæslustöðin Rangárþingi.

2. gr.


    Ráðherra skipar hverri hinna sameinuðu heilbrigðisstofnana fimm manna stjórn og fer um skipan þeirra samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 30. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.

3. gr.


    Ráðherra skipar fyrrgreindum heilbrigðisstofnunum framkvæmdastjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar viðkomandi stofnunar.

4. gr.


    Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, um heil­brigðisþjónustu og öðlast þegar gildi.


     3.      Hver er tilgangurinn með breytingunum og hvaða forsendur hafa verið lagðar til grundvallar þeim?
    Með breytingunum er stefnt að því að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu, tengja saman stofnanir og efla þær rekstrareiningar þar sem mönnun, samvinna og samnýting mun skapa öflugri einingar. Markmiðið er að auka jafnræði íbúa og styrkja þau svæði sem notið hafa hvað minnstrar heilbrigðisþjónustu. Stefnt er að fjölgun á stöðugildum lækna og seta þeirra treyst, eflingu sérfræðiþjónustu, aukinni samvinnu lækna og minni vaktabyrði en verið hefur. Með því verður unnt að bæta faglegt umhverfi og auka möguleika á því að manna stöður heilbrigðisstarfsmanna og efla sjálfstæði svæðisins að því er varðar heilbrigðisþjónustu. Síðast en ekki síst er breytingunum ætlað að auka sjálfræði og sjálfsákvörðunarvald heima­manna.
    Þær forsendur sem lagðar hafa verið til grundvallar eru í fyrsta lagi sú stefna stjórnvalda að bæta heilbrigðisþjónustu með aukinni samvinnu og samhæfingu innan heilbrigðisþjónust­unnar og sameiningu stofnana um land allt. Stjórnarfyrirkomulag heilbrigðiskerfisins hefur lengi verið til umræðu og fyrir liggur að á því hafa verið ágallar bæði á Austurlandi og á landsvísu. Einn af göllum fyrirkomulagsins á Austurlandi er smæð stofnana og að hver þeirra hefur verið mjög bundin sínu byggðarlagi þegar litið er til yfirstjórnar og fjárveitinga. Tengsl milli heilbrigðisstofnana innan fjórðungsins hafa verið fremur lítil. Því hefur reynst erfitt að vinna að ýmsum breytingum og úrbótum fyrir fjórðunginn í heild, svo sem varðandi sérfræði­þjónustu. Þetta hefur veikt stöðu heilbrigðisþjónustunnar í fjórðungnum þegar litið er á svæðið sem eina heild og möguleika til þróunar á einstökum stofnunum. Með óbreyttu fyrir­komulagi var talið að stofnanirnar yrðu áfram fremur ósjálfstæðar. Þessi mál hafa lengi verið til umfjöllunar í heilbrigðismálaráði Austurlands. Á fundi sem haldinn var á Egilsstöðum árið 1991 var m.a. rætt um hvernig efla mætti sérfræðiþjónustu en þá voru t.d. hugmyndir um að setja á laggirnar húðdeild á Seyðisfirði. Þá var einnig rætt hvernig treysta mætti setu lækna og fjallað var um hve erfitt væri að manna stöður, einkum hjúkrunarfræðinga. Sér­fræðiþjónustan var áfram rædd sérstaklega í vinnuhópi lækna en ekki tókst að skapa sam­starfsflöt. Því var ákveðið á fundi heilbrigðismálaráðs Austurlands sem haldinn var á Vopna­firði árið 1994 að breyta stjórnskipulaginu og fela Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og sjúkrahúsinu á Egilsstöðum að skipuleggja þjónustu sérfræðinga í umboði annarra stofnana til þess að þróun gæti átt sér stað á því sviði. Það er jafnframt mat héraðslæknisins á Austur­landi að ófullnægjandi stjórnkerfi í fjórðungnum hafi átt sinn þátt í þeirri þróun er leiddi til uppsagna heilsugæslulækna árið 1996.

     4.      Hverjir hafa staðið að samningum um breytta skipan mála af hálfu ráðuneytisins annars vegar og heimamanna hins vegar og hver hefur verið hlutur sveitarstjórna í því sambandi?
    Af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis hafa embættismenn á skrifstofu heilsugæslu-, sjúkrahúsa- og öldrunarmála komið að málinu auk ráðuneytisstjóra, aðstoðar­manns ráðherra og ráðherra. Embættismenn á lögfræði- og fjármálaskrifstofum hafa veitt faglega ráðgjöf og unnið að einstökum verkefnum við undirbúning málsins. Af hálfu heima­manna hefur héraðslæknir Austurlands átt mestan þátt í undirbúningi málsins en breyting­arnar hafa verið ræddar á vettvangi heilbrigðismálaráðs, Sambands sveitarfélaga í Austur­landskjördæmi (SSA), á fundi með alþingsimönnum Austurlandskjördæmis á Reyðarfirði 28. október 1997 og á sjö opnum kynningarfundum með stjórnum, starfsmönnum og íbúum dag­ana 4.–7. nóvember 1997. Fundirnir voru haldnir á Seyðisfirði, Vopnafirði, Stöðvarfirði, Hornafirði, Djúpavogi, Eskifirði og Egilsstöðum. Með bréfum, dags. 17. nóvember 1997, var óskað eftir formlegum athugasemdum sveitarstjórna. Málið var kynnt á fundum með hjúkrunarfræðingum 29. október 1997 og á fundi með læknum 7. nóvember sama ár. Kallað var eftir athugasemdum og ábendingum á öllum framangreindum fundum. Í kjölfar þessa sendu 11 sveitarfélög, þrjár stjórnir heilbrigðisstofnana, Austurlandsdeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Austurlands inn umsagnir sem sendar voru ráðuneytinu með skýrslu 15. desember 1997. Síðar bárust nokkrar umsagnir til viðbótar. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að hrinda sameiningu í framkvæmd og með bréfi, 16. febrúar 1998 til Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var óskað eftir afstöðu sveitarfélaga á Austurlandi til sameiningar heilbrigðisstofnana. Héraðslæknir Austurlands sat síðan stjórnarfund Sambands íslenskra sveitarfélaga í febrúar 1998 eftir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafði með bréfi 16. sama mánaðar sent málið þangað til umsagnar. Hinn 7. maí 1998 var haldinn fundur á Egilsstöðum með framkvæmdastjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjör­dæmi þar sem málið var kynnt og rætt var um framhaldið. Sérstakur sameiginlegur kynn­ingarfundur var haldinn sama dag með forsvarsmönnum stofnana á Seyðisfirði og Egils­stöðum. Síðar á árinu tók við frekari umfjöllun um málið í ráðuneytinu þar sem m.a. var rætt við fulltrúa flestra staða vegna athugasemda sem þaðan höfðu borist og á Seyðisfirði fór fram frekari kynning fyrir starfsmenn og stjórnendur heilbrigðisstofnunarinnar þar, að beiðni sveitarstjórnar. Í október sl. óskaði ráðuneytið eftir tilnefningu sveitarstjórna og starfsmanna í stjórn hinnar nýju sameinuðu stofnunar. Tilnefningar lágu fyrir þann 29. desember sl. og var stjórnin skipuð 31. sama mánaðar.

     5.      Hvernig hafa ákvarðanir verið teknar á einstökum stigum undirbúnings málsins?
    Eins og fram kemur í svari við 3. spurningu hefur stjórnarfyrirkomulag innan heilbrigðis­kerfisins á Austurlandi og um land allt lengi verið til umræðu. Á fundi heilbrigðismálaráðs Austurlands sem haldinn var á Egilsstöðum árið 1991 var rætt um hvernig efla mætti sér­fræðiþjónustu í fjórðungnum og treysta þar setu lækna og fjallað var um hve erfitt væri að manna stöður, einkum hjúkrunarfræðinga. Sérfræðiþjónustan var áfram rædd sérstaklega í vinnuhópi lækna en ekki tókst að skapa samstarfsflöt. Því var ákveðið á fundi heilbrigðis­málaráðs á Vopnafirði árið 1994 að breyta stjórnskipulagi og fela Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og sjúkrahúsinu á Egilsstöðum að skipuleggja þjónustu sérfræðinga í umboði annarra stofnana til þess að þróun gæti átt sér stað á því sviði. Að mati héraðslæknisins á Austurlandi átti ófullnægjandi stjórnkerfi í fjórðungnum sinn þátt í þeirri þróun er leiddi til uppsagna heilsugæslulækna árið 1996. Í byrjun apríl árið 1997 lagði héraðslæknir Austur­lands fram tillögur að breyttri stjórnskipan heilbrigðismála á Austurlandi þar sem gert var ráð fyrir þremur heilsugæslustöðvum og einu fjórðungssjúkrahúsi. Tillögurnar voru kynntar á fundi héraðslækna 23. og 24. maí 1997 og ræddar á fundi heilbrigðismálaráðs á Eskifirði 27. maí sl. Í framhaldi af því ákvað heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að láta kanna möguleika á því að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Austurlandi í eina stofnun undir einni yfirstjórn. Héraðslæknirinn á Austurlandi var fenginn til starfa í ráðuneytinu í september 1997 til þess að móta skipulag slíkrar stofnunar. Tillagan var kynnt ýmsum aðilum, sjá svar við 4. spurningu, og í framhaldi af fram komnum athugasemdum ákvað ráðuneytið í febrúar árið 1998 að undirbúa sameiningu heilbrigðisstofnana á svæðinu í eina stofnun, Heilbrigðis­stofnun Austurlands. Óskað var eftir afstöðu sveitarfélaga á Austurlandi og síðan var, eins og fram kemur í svari við 4. spurningu, óskað eftir tilnefningum sveitarstjórna og starfs­manna í stjórnina og hún síðan skipuð 31. desember sl.

     6.      Hvaða athugasemdir komu fram á heimavettvangi á undirbúningsstigi (óskast tilgreindar í einstökum atriðum ásamt þeim sem athugasemd gerði) og hvernig hefur verið brugðist við þeim hverri fyrir sig?
    Eins og fram kemur í svari við 4. spurningu hefur verið fjallað um málið á fjölmörgum fundum á breiðum vettvangi. Ekki er talið unnt að greina frá munnlegum umsögnum sem fram hafa komið en skriflegar umsagnir eru eftirfarandi:

Bréf, dags. 16. maí 1997, til héraðslæknis Austurlands frá Emil Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvar Vopnafjarðar, og Vilmundi Gíslasyni, framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.

    Efni: Hugmyndir að breyttri stjórnskipan heilbrigðisstofnana á Austurlandi.
    Stjórn heilsugæslustöðvar Vopnafjarðar og stjórn hjúkrunarheimilis Sundabúðar hafa tekið til umfjöllunar hugmyndir að breyttri stjórnskipan heilbrigðisstofnana á Austurlandi. Stjórnirnar telja margt gott í þeim hugmyndum sem fram hafa komið og telja nauðsynlegt að einfalda stjórnskipulag heilbrigðismála svæðisins. Mikið hefur verið rætt um að sameina stjórnir heilsugæslustöðvar og hjúkrunarheimilis á Vopnafirði og voru lagðar fram um það tillögur sl. haust og hafa þær verið til skoðunar. Vegna legu og landfræðilegrar einangrunar Vopnafjarðar við önnur byggðarlög á Austurlandi telja stjórnirnar nauðsynlegt að Vopna­fjörður–Bakkafjörður verði sjálfstætt umdæmi með einni stjórn yfir báðum heilbrigðisstofn­unum á svæðinu. Ástand heilbrigðisþjónustu hefur verið nokkuð gott á svæðinu og góð þjón­usta verið veitt. Meðan samgöngur austur eru ekki betri en raun er eru ekki forsendur fyrir sameiginlegri stjórn við Héraðssvæðið. Eins og tillögur bera með sér er gert ráð fyrir sér­stöku vaktsvæði á Vopnafirði og hlýtur því hið sama að gilda um yfirstjórn.
    Stjórnirnar telja nauðsynlegt að tryggja að annar læknir fáist til fastrar búsetu á Vopna­firði. Gæti það styrkt heilbrigðisþjónustu á Norð-Austurlandi. Undanfarin ár hafa Vopna­fjörður og Þórshöfn stöku sinnum haft samvinnu um bakvaktir og möguleiki væri á frekara samstarfi með bættum samgöngum. Stjórnir heilbrigðisstofnana á Vopnafirði vilja eiga áframhaldandi gott samstarf við heilbrigðisstofnanir á Austurlandi og taka þátt í mótun nýs skipulags heilbrigðismála á svæðinu.

Bréf, dags. 13. nóvember 1997, frá Seyðisfjarðarkaupstað til Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra, Stefáns Þórarinssonar héraðslæknis, stjórna og framkvæmdastjóra sjúkrahúsa Seyðisfjarðar, Neskaupstaðar og Egilsstaða og þingmanna Austurlands.

     Útskrift úr fundargerðarbók bæjarstjórnar Seyðisfjarðar.
    Mánudaginn 10. nóvember 1997 kl. 16.00 kom bæjarstjórn saman í fundarsal Herðubreiðar.
    Lögð fram eftirfarandi tillaga:
    „Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkir að beina því til heilbrigðisyfirvalda, héraðslæknis og heilbrigðisstofnana á Austurlandi að áður en svo róttæk breyting sem tillögur héraðs­læknis um nýtt stjórnskipulag heilbrigðisþjónustu á Austurlandi er fest í sessi, verði „skipu­lagið“ rekið sem reynsluverkefni viðkomandi heilbrigðisstofnana í tvö ár.“
    Tillagan samþykkt.


Bréf, dags. 17. nóvember 1997, til Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá Ágústu Þorkelsdóttur formanni, f.h. stjórnar heilsugæslustöðvar Vopnafjarðar.

    Stjórn heilsugæslustöðvarinnar á Vopnafirði hefur í dag tekið til umfjöllunar tillögur Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis Austurlands, um nýtt stjórnskipulag heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
    Stjórnin telur fyrirliggjandi sameiningarhugmyndir eins og þær liggja fyrir óaðgengilegar fyrir Vopnafjörð. Tillögurnar þurfi nánari útfærslu og lengri umsagnartíma en hér er boðið upp á. Stjórnin vill leggja áherslu á eftirfarandi:
     1.      Fjarlægð frá Vopnafirði til Egilsstaða og erfiðar og ótryggar vetrarsamgöngur gera það nánast óhugsandi að læknavakt verði sameiginleg.
     2.      Öll dagleg stjórnun og ákvarðanataka verður þung og flókin ef forstjóri stofnunar og aðrir yfirmenn sitja langt í burtu frá vettvangi.
     3.      Heilbrigðisstofnanir á Vopnafirði eru nú sniðnar að þeirri stærð sem heilsugæslusvæði heilsugæslustöðvarinnar á Vopnafirði þarfnast, hvorki of stórar eða of litlar og eru því mjög hagkvæmar í rekstri fyrir samfélagið, og alls ekki er um of mikla yfirbyggingu að ræða í rekstri þeirra. Því er ljóst að ekki er hægt að benda á nægjanleg rök fyrir því að Vopnafjarðarsvæðið hagnist á breyttu stjórnskipulagi. Hins vegar skal bent á að hugsan­lega mætti gera samning við Egilsstaði um mönnun, t.d. tímabundna afleysingu eða annað samstarf án þess að sameinast.
     4.      Í tillögum héraðslæknis Austurlands kemur ekkert fram um hvernig á að leysa ýmis hagnýt mál, t.d. varðandi starfskjör lækna. Það vita allir sem vilja vita að í þeim málum eru launamálin stór þáttur, það sama má segja um annað fagfólk í heilbrigðisgeiranum, svo sem hjúkrunarfræðinga, því er ljóst að þessi sameiginlega stofnun mun ekki leysa þau mál, nema til komi aukið fjármagn. Væntanlega er það hugmynd ráðuneytisins að spara peninga með þessari sameiningu og því ólíklegt að stofnunin sem slík geti bætt launakjör starfsmanna umfram samninga.
     5.      Stjórn heilsugæslustöðvarinnar á Vopnafirði hefur haft áhuga á að sameina rekstur sjúkrastofnana á Vopnafirði, þ.e. hjúkrunarheimilið Sundabúð og heilsugæslustöðina, og gerð hefur verið samþykkt þar um á stjórnarfundum beggja stofnana. Einnig er vísað í bréf dagsett 17. maí 1997 þar sem fjallað er um fyrri hugmyndir héraðslæknis Austur­lands um breytta stjórnskipan sjúkrastofnana á Austurlandi (og fylgir hér með sem fylgi­skjal).
     6.      Stjórnin telur skynsamlegt að stíga smærri skref í þessu máli, t.d. sameina staði sem liggja nær hver öðrum, þar sem raunveruleg samvinna getur orðið og síðan megi endur­skoða þessi mál þegar og ef forsendur breytast, t.d. í samgöngumálum.

Bréf, dags. 25. nóvember 1997, til Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis
Austurlands, frá Einari Rafni Haraldssyni, framkvæmdastjóra
heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss á Egilsstöðum.

    Á fundi stjórnar heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss á Egilsstöðum í dag var eftirfarandi samþykkt:
    „Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónusta í Egilsstaðalæknishéraði hafi um langa hríð staðið á traustum grunni vantar víða annars staðar í Austurlandskjördæmi lækna og hætta er á að æ erfiðara verði að manna stöður þeirra og annars heilbrigðisstarfsfólks í kjördæminu verði ekki brugðist strax við. Stjórn og framkvæmdaráð heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss á Egilsstöðum telur afar brýnt að styrkja heilbrigðisþjónustu á Austurlandi stjórnunarlega, faglega og fjárhagslega, þannig að hægt verði að leysa hugsanleg mönnunarvandamál innan fjórð­ungs í stað þess að kalla þurfi til starfsfólk heilsugæslustöðva í Reykjavík, eins og dæmi eru um.“

Bréf, dags. 2. desember 1997, til Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis
Austurlands, frá Helga Halldórssyni, bæjarstjóra Egilsstaðabæjar.

    Á fundi bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar í dag var eftirfarandi samþykkt:
    „Heilbrigðisþjónusta í Egilsstaðalæknishéraði hefur um langa hríð staðið á traustum grunni og bæjarstjórn Egilsstaðabæjar leggur á það áherslu að hún verði á engan hátt skert eða stefnt í hættu með skipulagsbreytingum.
    Hins vegar er bæjarstjórninni ljóst að annars staðar í Austurlandskjördæmi vantar lækna og hætta er á að æ erfiðara verði að manna stöður þeirra og annars heilbrigðisstarfsfólks í kjördæminu verði ekki brugðist strax við. Bæjarstjórn Egilsstaðabæjar telur afar brýnt að styrkja heilbrigðisþjónustu á Austurlandi stjórnunarlega, faglega og fjárhagslega þannig að hægt verði að leysa mönnunarvandamál innan fjórðungs og vill að hugmyndir héraðslæknis Austurlands verði skoðaðar í því samhengi.“

Bréf, dags. 3. desember 1997, til Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis
Austurlands, frá Ísak J. Ólafssyni sveitarstjóra Reyðarfjarðarhrepps.

    Hreppsráð Reyðarfjarðar lýsir yfir fullum stuðningi við tillögur Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis Austurlands, um nýtt stjórnskipulag heilbrigðisþjónustu á Austurlandi. Hrepps­ráð bendir á að áður en gengið er til slíkra stórbreytinga í skipan heilbrigðismála verður að tryggja nægjanlegt fjármagn til breytinganna þannig að ný heilbrigðisstofnun Austurlands geti ráðið í þær læknastöður sem tillögur Stefáns gera ráð fyrir og tekið við hreinu borði í rekstri þeirra stofnana sem fyrir eru. Hreppsráð bendir jafnframt á að nauðsynlegt sé að kjaramál lækna séu með þeim hætti að þeir fáist til starfa og einnig þarf þetta nýja skipulag að taka á málefnum annarra starfsstétta í heilbrigðisþjónustunni þannig að skipulagsbreyt­ingin skili tilætluðum árangri.
    Þetta tilkynnist hér með.

Bréf, dags. 11. desember 1997, til Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá Heilsugæslustöð Eskifjarðarlæknishéraðs.

     Útskrift úr fundargerðarbók stjórnar Heilsugæslustöðvar Eskifjarðarlæknishéraðs frá 5. desember 1997.
    Stjórn Heilsugæslustöðvar Eskifjarðarlæknishéraðs getur ekki fallist á tillögur Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis Austurlands, um nýtt stjórnskipulag eins og þær eru settar fram. Þær eru t.d. ekki í takt við tímann (breytt sveitarfélög), kostnaður við samnýtingu læknanna innan svæðisins verður mjög hár, héraðslæknir tryggir ekki fasta búsetu lækna á viss svæði og vafasamt hvort hjúkrunarfræðingar fengjust til starfa ef hjúkrunarforstjórum yrði fækkað úr tíu í fjóra.
    Hins vegar eru allar þessar vangaveltur og tillögur Stefáns Þórarinssonar af hinu góða því við þurfum einhvern veginn að gera þessi svæði áhugaverð fyrir starfsfólk í heilbrigðis­stéttum svo að það vilji koma og starfa hjá okkur.
    Með nýorðinni sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar liggur beinast við að heilbrigðisþjónusta á þessu svæði verði endurskoðuð og sameinuð og því er stjórn heilsugæslustöðvar Eskifjarðarlæknishéraðs hlynnt. Eðlilegt getur talist að fulltrúar hjá nýja sveitarfélaginu álykti um málið eða geri tillögur sem henta hagsmunum íbúa þess.
    Stjórn Heilsugæslustöðvar Eskifjarðarlæknishéraðs skorar á heilbrigðisráðuneytið að samþykkja ekki tillögur Stefáns Þórarinssonar að óbreyttu og vakin er athygli á að tryggja þarf búsetu lækna á Eskifirði og á Reyðarfirði.

Bréf, dags. 15. desember 1997, til Davíðs Á. Gunnarssonar,
ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis,
frá Stefáni Þórarinssyni, héraðslækni Austurlands.

     Ályktanir og samþykktir vegna tillagna um Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Héraðslækni hafa borist ályktanir og útskriftir úr fundagerðum 11 sveitarfélaga, þriggja stjórna heilbrigðisstofnana og frá fagfélögum hjúkrunarfræðinga og lækna í kjölfar kynn­ingarinnar á Austurlandi. Ráðuneytinu eru send þessi gögn hér með sem og samantekt fram­kvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um kynningarfundina.
    Eins og fram kemur í þessum gögnum lýsa níu sveitarstjórnir stuðningi við tillögurnar, ein hvetur til varkárni og ein svarar en tekur ekki afstöðu.
    Þrjár stjórnir heilsugæslustöðva af átta hafa tjáð sig, tvær eru ósáttar við tillögurnar og ein tekur ekki afstöðu.
    Hjúkrunarfræðingar lýsa jákvæðum undirtektum fundar og læknar telja að endurskoða þurfi stjórnkerfið og fjölga læknum.
    Frá sveitarstjórnum/bæjarstjórnum/bæjarráðum; Neskaupstaðar, Stöðvarhrepps, Jökul­dalshrepps, Breiðdalshrepps, Hofshrepps, Fáskrúðsfjarðarhrepps, Hornafjarðar, Reyðar­fjarðar og Eskifjarðar kom: „fullur stuðningur“, „stuðningur“ eða að „tekið er undir“ tillög­ur Stefáns Þórarinssonar. Jafnframt er lögð áhersla á að tryggja verði fjármagn til þess að tillögurnar verði framkvæmanlegar og að ný stofnun komi að hreinu borði hvað varðar eldri skuldir. Hornafjarðarbær bendir á góðan árangur þess að tengja saman heilbrigðis-, öldr­unar- og félagsþjónustu og vill varðveita hann. Eskifjörður telur það öryggisatriði að áfram búi læknar á Eskifirði og á Reyðarfirði.
    Bæjarstjórn Seyðisfjarðar vill að áður en svo róttæk tillaga verði fest í sessi verði „skipulagið“ rekið sem tilraunaverkefni í tvö ár.
    Bæjarstjórn Egilsstaða „telur afar brýnt að styrkja heilbrigðisþjónustu á Austurlandi stjórnunarlega, faglega og fjárhagslega þannig að hægt verði að leysa hugsanleg mönnunar­vandamál innan fjórðungs“ og vill að tillögur Stefáns Þórarinssonar verði skoðaðar í því samhengi en tekur ekki aðra afstöðu til þeirra. Stjórn sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Egilsstöðum telur einnig „afar brýnt að styrkja heilbrigðisþjónustuna á Austurlandi stjórn­unarlega, faglega og fjárhagslega“ en nefnir ekki fyrirliggjandi tillögur í samþykkt sinni.
    Stjórn heilsugæslustöðvar Eskifjarðarlæknishéraðs getur ekki fallist á tillögur Stefáns Þórarinssonar. „Þær eru ekki í takt við tímann (breytt sveitarfélög), kostnaður við samnýt­ingu læknanna innan svæðis verður mjög hár, héraðslæknir tryggir ekki fasta búsetu lækna á viss svæði, og vafasamt hvort hjúkrunarfræðingar fengjust til starfa ef hjúkrunarforstjórum yrði fækkað úr tíu í fjóra.“ Skorar stjórnin á heilbrigðisráðuneytið að samþykkja tillögurnar ekki „að óbreyttu“.
    Stjórn heilsugæslustöðvarinnar á Vopnafirði telur tillögurnar óaðgengilegar fyrir Vopna­fjarðarsvæðið, það muni ekki hagnast af breyttu stjórnskipulagi. Tillögurnar þurfi nánari útfærslu, lengri umsagnartíma og skynsamlegra sé að stíga smærri skref í einu.

    Þegar svör þeirra sveitarstjórna sem hafa tjáð sig eru skoðuð liggur ljóst fyrir að stuðningur við skipulagstillögurnar er þar mjög afgerandi. Sveitarfélög á Austurlandi eru enn 27 en verða í sumar orðin 16 og gæti enn átt eftir að fækka. Þau sem ekki hafa sagt hug sinn um tillögurnar gætu átt það eftir a.m.k. er von á áliti frá Vopnafjarðarhreppi. Neikvæð afstaða stjórnar heilsugæslunnar á Eskifirði-Reyðarfirði stingur í stúf við jákvæð viðbrögð sveitarstjórnanna þar. Virðist einhvers misskilnings gæta í stjórninni sem e.t.v. hefði mátt eyða á kynningarfundinum á Eskifirði ef hún hefði nýtt sér hann. Stjórn heilsugæslunnar á Vopnafirði samdi álit sitt áður en héraðslæknir setti fram breytingartillögu sína um að það yrði sérstakur yfirlæknir og hjúkrunarforstjóri fyrir Vopnafjarðarsvæðið. Héraðslæknir skýrði kjaranefnd frá skipulagstillögum sínum á fundi 24. nóvember.
    Þó að héraðslæknir hafi kallað eftir athugasemdum og áliti sveitarstjórna á tillögum sínum hefur ekki verið litið á það sem jafngildi formlegs álits á samruna stofnana á Austurlandi. Geri ráðuneytið tillögur Stefáns Þórarinssonar að sínum er það skilningur a.m.k. sumra sveitarstjórnamanna að ráðuneytið verði þá að leita formlegs álits á endanlegum tillögum.
    Geri ráðuneytið alvöru úr skipulagstillögunum og hrindi þeim í framkvæmd þarf að undir­búa stjórnkerfisbreytinguna sem best. Ráða þarf forstjóra í tíma og skipa stjórn til bráða­birgða. Þessir aðilar þurfa síðan ásamt héraðslækni að heimsækja allar stofnanir í fjórðungn­um og funda með stjórnum þeirra. Að þessum heimsóknum loknum verður komið að því að forma Heilbrigðisþjónustu Austurlands í endanlegri mynd. Ekki má vanmeta hve þetta getur tekið langan tíma. Miklu ræður um það hvernig til tekst að þessi undirbúningur sé sem vand­aðastur, fulls samráðs gætt og upplýsingar veittar þeim sem þurfa því að þetta starf mun koma róti á hugi margra starfsmanna og annarra er málið varðar. Þessi undirbúningur mun þýða tvöfaldan stjórnunarkostnað meðan á honum stendur og ýmsan aukakostnað fyrst í stað meðan breytingarnar eru að taka gildi og hin nýja stofnun að mótast.
    Það þarf einnig að athuga að héraðslæknir getur ekki unnið að þessum breytingum við óbreyttar aðstæður. Þetta krefst þess að auka verður starf hans í hálft starf hið minnsta og að gera héraðslæknisstarfið að aðalstarfi.

Bréf, dags. 30. desember 1997, til Ingibjargar Pálmadóttur
heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá Emil Sigurjónssyni,
formanni, f.h. stjórnar hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.

     Efni: Nýskipan í heilbrigðismálum á Austurlandi.
    Stjórn hjúkrunarheimilisins Sundabúðar, Vopnafirði, hefur tekið til umfjöllunar tillögu Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis Austurlands, um nýtt stjórnskipulag heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
    Stjórnin telur tillögur héraðslæknis athyglisverðar og ljóst er að þær henta vel þar sem samgöngur á milli staða eru góðar. Vegna landfræðilegrar einangrunar Vopnafjarðar við önnur byggðalög á Austurlandi telur stjórnin nauðsynlegt að Vopnafjörður og Bakkafjörður verði sjálfstætt umdæmi.
    Stjórnin vill að sjálfsögðu eiga áframhaldandi gott samstarf við heilbrigðisstofnanir á Austurlandi og telur rétt að skoðað verði nánara samstarf og jafnvel sameining þegar að­stæður leyfa.
    Að öðru leyti tekur stjórnin undir ályktun stjórnar heilsugæslustöðvar Vopnafjarðar þar sem bent er á annmarka samstarfs heilbrigðisstofnana á Vopnafirði við aðrar heilbrigðis­stofnanir í fjórðungnum vegna samgönguerfiðleika. Einnig er vísað í bréf frá 16. maí 1997 þar sem bent er á nauðsyn þess að sameina sjúkrastofnanir á Vopnafirði.

Bréf, dags. 8. janúar 1998, til Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis
Austurlands, frá Guðlaugi Valtýssyni, formanni stjórnar
heilsugæslustöðvar Djúpavogslæknishéraðs.

     Efni: Skipulagsmál heilsugæslustöðva.
    Stjórn heilsugæslustöðvar Djúpavogslæknishéraðs gerir eftirfarandi athugasemdir við hugmyndir að nýju skipulagi í heilsugæslumálum á Austurlandi.
    Stjórnin telur vafa á að þær breytingar sem lagðar eru til séu til þess fallnar að stuðla að öruggari læknisþjónustu í Djúpavogslæknishéraði. Þetta byggist á því að ekki er sýnt fram á í tillögunum að hægt verði að manna lausar stöður frekar eftir breytingar, en tryggt þarf að vera að stöðugildum lækna verði fjölgað. Að öðru leyti skiptir útkoma kjaranefndar höfuðmáli.
    Starfsumhverfi læknis á Djúpavogi breytist lítið (verður einn eftir sem áður) og ekki hægt að sjá að það sé áhugavert fyrir lækni t.d. frá Höfn að leysa af lengri eða skemmri tíma á Djúpavogi, ef á annað borð reynist hægt að fjölga læknum á því svæði.
    Þá teljum við að æskilegra væri að reynt yrði að koma á samstarfi við heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu með afleysingar í huga en áhugi fyrir slíku samstarfi hefur komið fram. Það gæfi læknum á landsbyggðinni kost á að starfa á stórum heilsugæslustöðvum í þéttbýlinu tíma og tíma.
    Við leggjum áherslu á að ekki verði hróflað við læknishéraðinu á þann hátt að því verði skipt þannig að heilsugæsluselinu á Breiðdalsvík verði þjónað frá heilsugæslustöðinni á Fá­skrúðsfirði þar sem stendur til að fjölga læknum í tvo. Það er skoðun stjórnar og þeirra lækna sem hafa starfað í héraðinu undanfarið að þá yrði erfitt að halda lækni á Djúpavogi vegna fámennis (innan við 600 íbúar), og það ástand gæti skapast að á Djúpavogi kæmi læknir t.d. frá Höfn aðeins tvisvar í viku.
    Meðan við höfðum fastan lækni í héraðinu var það ekki vandamál að fá afleysingamenn. Ástæða þess að læknir tók sér ekki frí eins oft og hann taldi nauðsynlegt er að þá lækkuðu laun hans. Þetta eru fyrst og fremst kjaramál og þau verður að leysa áður en farið er út í breytingar á skipulagi að okkar mati.
    Nauðsyn er að gera sér grein fyrir því að launamál eru aðalástæða þess hve erfiðlega gengur að fá lækni til starfa en ekki endilega að skipulagið sé orðið 50 ára gamalt og/eða úrelt. Þokkalegt ástand var hér í héraðinu þar til kjaradeila lækna náði hápunkti fyrir u.þ.b. hálfu öðru ári.
    Vegna þess að mikið var gert úr því á kynningarfundum um tillögurnar að erfitt væri fyrir stjórnendur stöðvanna að hafa samskipti við ráðuneytið út af daglegum rekstri er nauðsyn að eftirfarandi komi fram.
    Stöðvarnar fá ákveðið fjármagn á ári til reksturs samkvæmt fjárlögum. Það er síðan í verkahring stjórnar að ráðstafa þessum fjármunum. Það þarf því ekki að leita til ráðuneytis með hvert smáatriði eins og þeir sem ókunnugir eru þessari starfsemi gætu hafa skilið á kynningarfundunum.
    Að lokum viljum við benda á eftirfarandi. Í dag er stjórn heilsugæslustöðva skipuð á eftir­farandi hátt: Sveitarfélögin skipa þrjá menn, starfsmenn skipa einn mann og heilbrigðisráð­herra skipar einn mann (skilyrt búseta í byggðarlaginu), þ.e. stjórnunin er alfarið í höndum heimamanna. Eftir fyrirhugaðar breytingar er ekki líklegt að smærri sveitarfélög hafi mikið með stjórnun stöðvanna að gera.
    Við viljum að farið verði með varúð í þessum málum áður en breytingar eru gerðar svo að við stöndum ekki uppi með verra fyrirkomulag á eftir en það sem við búum við í dag.

Bréf, dags. 13. febrúar 1998, til Stefáns Þórarinssonar,
héraðslæknis Austurlands frá sveitarstjóra Búðahrepps.

     Efni: Svar við tillögum um heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Á fundi hreppsnefndar Búðahrepps 11. febrúar sl. var fjallað um tillögur Stefáns Þór­arinssonar um Heilbrigðisstofnun Austurlands. Á fundinum var samþykkt að senda eftir­farandi svar frá hreppsnefnd Búðahrepps:
    Fáskrúðsfirðingar hafa um árabil haft sameiginlega heilsugæslustöð með Stöðfirðingum. Það samstarf hefur gengið mjög vel þótt tímabil hafi komið sem erfiðlega hefur gengið að ráða lækni til starfa í heilsugæsluumdæminu.
    Helst hefur valdið vonbrigðum síðustu ár að ekki hefur fengist fjárveiting til að ráða annan lækni að stöðinni þótt henni hafi fyrir nokkru verið breytt í H-2 stöð. Einnig telja Fáskrúðsfirðingar að öryggi íbúanna á svæðinu frá Fáskrúðsfirði til Djúpavogs hefði verið betur tryggt ef stjórnendur heilbrigðismála hefðu staðfest samkomulag sem stjórnir heilsu­gæslustöðva á svæðinu gerðu með sér árið 1991. Þá hefði verið ráðinn annar læknir á Fá­skrúðsfjörð og þrír læknar þjónað svæðinu öllu.
    Komi tillögur Stefáns Þórarinssonar til framkvæmda gerbreytist staða Fáskrúðsfirðinga og Stöðfirðinga. Þeir munu verða í þeirri deild innan heilbrigðisstofnunar Austurlands sem nær yfir svæðið frá Norðfirði til Stöðvarfjarðar og jafnvel til Breiðdals. Í tillögum Stefáns er gert ráð fyrir að þrír til fjórir læknar verði á Eskifirði og einn til tveir á Fáskrúðsfirði. Þá er reiknað með að samstarf geti orðið um vaktir að hluta milli þessara staða og einnig er verkaskipting möguleg.
    Vandkvæði á því samstarfi gætu helst stafað af slæmri vetrarfærð. Með bættum vegum minnka þau vandkvæði og eftir að jarðgöng verða komin milli byggðanna verða erfiðleikar í samgöngumálum vonandi flestir að baki.
    Hreppsnefnd Búðarhrepps getur fallist á þessa skipan mála með þeirri breytingu að tveir læknar verði í framtíðinni búsettir á Fáskrúðsfirði.
    Afstaða þessi mótast ekki síst að því að útséð virðist nú um að öflugt heilsugæsluumdæmi á Suðurfjörðum geti orðið að veruleika.
    Hreppsnefnd leggur áherslu á að Heilbrigðisstofnun Austurlands verði gert kleift að tryggja Austfirðingum betri heilbrigðisþjónustu en þeir hafa áður haft. Tryggja þarf einnig að yfirbyggingu stofnunarinnar verði í hóf stillt og leiði ekki til stóraukins kostnaðar.
    Er þessu hér með komið á framfæri.

Bréf, dags. 18. febrúar 1998, til sveitarstjórna á starfssvæði Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi frá Bjarna Hafþóri Guðmundssyni
f.h. Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi.

    Hjálagt er afrit bréfs heilbrigðisráðuneytisins dags. 16. febrúar 1998 og fylgigögn varð­andi áform um að sameina heilbrigðisstofnanir á Austurlandi í eina, Heilbrigðisstofnun Austurlands. Eins og sveitarstjórnarmönnum ætti að vera í fersku minni byggjast þessi áform á hugmyndum héraðslæknis Austurlands, Stefáns Þórarinssonar, sem kynntar voru á sjö fundum á Austurlandi sl. haust. Á þeim óskaði Stefán eftir athugasemdum við framangreind áform og fékk viðbrögð nokkurra sveitarstjórna sem hann kom efnislega inn á í skýrslu sinni um fundina og m.a. var send öllum sveitarstjórnum á Austurlandi.
    Um er að ræða athugasemdir sveitarstjórna eftirtalinna sveitarfélaga: Neskaupstaðar, Stöðvarhrepps, Jökuldalshrepps (hins forna), Breiðdalshrepps, Hofshrepps, Fáskrúðsfjarðar­hrepps, Hornafjarðar, Reyðarfjarðarhrepps, Eskifjarðarkaupstaðar, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Egilsstaðabæjar. Þeim og nýlegri athugasemd frá Búðarhreppi hefur Stefán komið á framfæri við ráðuneytið og mun senda afrit á skrifstofu Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.
    Eins og fram kemur í fyrrgreindu bréfi heilbrigðisráðuneytisins ber ráðherra að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög áður en hann gengur frá reglugerðarbreytingum um starfssvæði sjúkrastofnana eins og hér er rætt um.
    Með vísan til þess að sveitarstjórnum hefur þegar gefist kostur á að gera athugsemdir við áform um að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Austurlandi tilkynnist hér með að undir­ritaður hefur ákveðið, að höfðu samráði við Stefán Þórarinsson, að líta beri svo á, að bæði framangreindar og aðrar austfirskar sveitarstjórnir hafi ekki frekari athugasemdir fram að færa, hafi þær ekki borist ráðuneytinu fyrir lok febrúar 1998.
    Vinsamlega sendið Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi og Stefáni Þórarinssyni afrit þeirra athugasemda sem við kunna að bætast.

Bréf, dags. 26. febrúar 1998, til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá Þórði Skúlasyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.

     Umsögn um sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi.
    Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 20. febrúar 1998 var tekið fyrir bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 16. febrúar 1998, þar sem óskað er eftir afstöðu sambandsins til sameiningar heilbrigðisstofnana á Austurlandi.
    Stjórnin gerði svofellda bókun:
    „Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mælir með samþykkt þeirra tillagna um sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi sem liggja fyrir og að framkvæmd þeirra verði unnin í nánu samráði við sveitarstjórnir í landshlutanum.“
    Ólafur H. Sverrisson óskaði bókað að með samþykkt þessari væri ekki gefið fordæmi um breytingu á skipulagi heilbrigðismála á öðrum svæðum.
    Ofanritað tilkynnist hér með.

Bréf, dags. 3. mars 1998, til Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðis-
og tryggingamálaráðherra frá Vilmundi Gíslasyni
sveitarstjóra í Vopnafjarðarhreppi.

     Efni: Nýskipan í heilbrigðismálum á Austurlandi.
    Vegna tillagna Stefáns Þórarinssonar héraðslæknis um sameiningu allra heilbrigðis­stofnana á Austurlandi vill hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps taka fram eftirfarandi.
    Hreppsnefndin telur tillögurnar um margt athyglisverðar og vill eiga gott samstarf við heilbrigðisstofnanir á Austurlandi. Ýmis vandkvæði eru á því að stofnanir á Vopnafirði taki þátt í þessu samstarfi og vega þar þyngst erfiðar samgöngur milli Vopnafjarðar og annarra sveitarfélaga á Austurlandi. Ekkert flug er á milli Vopnafjarðar og annarra þéttbýlisstaða á Austurlandi og hefur því öll sjúkrahússþjónusta verið sótt til Akureyrar eða Reykjavíkur. Einnig sækja einstaklingar alla sína læknisþjónustu norður eða suður fáist hún ekki á Vopna­firði. Þjónusta heilbrigðisstofnana á Vopnafirði er nú mjög góð og ekki verður séð að skipu­lagsbreytingar verði til þess að þjónustan verði á nokkurn hátt betri eða ódýrari nái þessar tillögur fram að ganga.
    Það skal ítrekað að hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps vill eiga gott samstarf við heil­brigðisstofnanir á Austurlandi og hefur áhuga á að fylgjast með framgangi sameininga verði af þeim. Hreppsnefndin telur vel athugandi að kanna möguleika á sameiningu þegar sam­göngur hafa verið bættar milli byggðarlaga og reynsla hefur komist á í samstarfi stofnana á Austurlandi. Einnig vísar hreppsnefnd til ályktana stjórnar Heilsugæslustöðvar Vopna­fjarðarhrepps og hjúkrunarheimilis Sundabúðar Vopnafirði.

Bréf, dags. 27. apríl 1998, til Davíðs Á. Gunnarssonar, ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, frá Lárusi Gunnlaugssyni framkvæmdastjóra, f. h. stjórnar heilbrigðisstofnunarinnar Seyðisfirði.

     Efni: Fundur í stjórn heilbrigðisstjórnarinnar á Seyðisfirði 4. febrúar 1998.
    Á fundi í stjórn heilbrigðisstofnunarinnar á Seyðisfirði miðvikudaginn 4. febrúar var fjallað um skýrslu héraðslæknis Stefáns Þórarinssonar frá kynningarfundum á stjórnskip­unartillögum í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi sem hann sendi Davíð Á. Gunnarssyni ráðu­neytisstjóra 21. nóvember 1997.
    Gerð var svohljóðandi bókun:
    Það er mat stjórnar heilbrigðisstofnunarinnar á Seyðisfirði að of mikið sé gert úr jákvæð­um viðbrögðum í skýrslu héraðslæknis Stefáns Þórarinssonar um breytingar á stjórnskipulagi á heilbrigðisþjónustu í fjórðungnum og ekki komi fram sú gagnrýni sem fram hefur komið á fundum með honum og þar sé um oftúlkun hans að ræða.

Bréf, dags. 12. maí 1998, til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Ingibjargar Pálmadóttur, Davíðs Á. Gunnarssonar ráðuneytisstjóra, Stefáns
Þórarinssonar, héraðslæknis Austurlands, stjórnar Heilbrigðisstofnunar Seyðisfjarðar og framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar
Seyðisfjarðar frá Seyðisfjarðarkaupstað.

    Mánudaginn 10. nóvember 1997 kl. 16.00 kom bæjarstjórn saman í fundarsal Herðu­breiðar. Allir aðalmenn mættir nema Arnbjörg, í hennar stað mætir María V. Ólafsdóttir. Fundarritari Ólafía Þ. Stefánsdóttir.
     Gerðir fundarins:
    
Svohljóðandi tillaga lögð fyrir bæjarstjórn.
    „Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkir að beina því til heilbrigðisyfirvalda, héraðslæknis og heilbrigðisstofnana á Austurlandi að áður en svo róttæk breyting sem tillögur héraðs­læknis um nýtt stjórnskipulag heilbrigðisþjónustu á Austurlandi er fest í sessi verði „skipu­lagið“ rekið sem reynsluverkefni viðkomandi heilbrigðisstofnana í tvö ár.“
    Tillagan samþykkt.

Bréf, dags. 14. maí 1998, til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Ingibjargar Pálmadóttur, Davíðs Á. Gunnarssonar ráðuneytisstjóra, Stefáns Þórarinssonar, héraðslæknis Austurlands, stjórnar heilbrigðisstofnunar Seyðisfjarðar
og framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar Seyðisfjarðar,
frá Seyðisfjarðarkaupstað.

    Mánudaginn 11. maí 1998 kom bæjarstjórn Seyðisfjarðar saman í fundarsal Félags­heimilisins Herðubreiðar kl. 16.00.
    Allir aðalfulltrúar auk bæjarstjóra eru mættir utan Jónasar Hallgrímssonar í hans stað mætir Sigríður Stefánsdóttir. Fundarritari er Friðrik Aðalbergsson.
     Gerðir fundarins:
    Í tilefni af fundi bæjarstjóra, bæjarráðsmanna og sjúkrahússtjórnar með héraðslækni og ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytis 7. maí sl. óskar bæjarstjórn eftir því að ákvörðun um Heilbrigðisstofnun Austurlands verði frestað. Tímasetning þessarar ákvörðunar er afar óheppileg og undirbúningur ekki nægjanlega góður. Ekki liggur fyrir t.d. hvort þetta verður rekið sem tilraunaverkefni í tvö ár eins og bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur lagt áherslu á, sbr. samþykkt á fundi 10. nóvember 1997.
    Óljóst er hvað þetta nýja stjórnskipulag heilbrigðisþjónustu á Austurlandi felur í sér og hvaða áhrif það hefur á rekstur sjúkrahússins á Seyðisfirði.
    Nauðsynlegt er að skoða vandlega hvernig heildarhagsmunum heilbrigðisþjónustunnar í kaupstaðnum er best sinnt í framtíðinni.
    Óskað er eftir frekari viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um málið.
    Tillagan samþykkt.

Bréf, dags. 9. júní 1998, til heilbrigðisráðherra Ingibjargar Pálmadóttur
frá Stefáni Þórarinssyni, formanni heilbrigðismálaráðs Austurlands.

    Heilbrigðismálaráð Austurlands hélt árlegan fund sinn á Egilsstöðum 4. júní sl. Þar var aðalefni fundarins: Heilbrigðisstofnun Austurlands, staða málsins og næstu skref.
    Talsverð umræða varð um málið og að henni lokinni var eftirfarandi ályktun samþykkt:
    „Heilbrigðismálaráð Austurlands ályktar á fundi sínum 4. júní 1998 að það líti svo á að ef ráðherra heilbrigðismála ákveður að sameina heilbrigðisstofnanir á Austurlandi eins og tillögur héraðslæknis Austurlands gera ráð fyrir séu úrbætur í heilbrigðisþjónustu Austfirð­inga innifaldar þar í og á ábyrgð ráðherra að gera hinni nýju stofnun kleift að hrinda þeim í framkvæmd.“
    Þessari ályktun er hér með komið á framfæri.

Bréf, dags. 31. júlí 1998, til Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá Jónasi A. Þ. Jónssyni, forseta bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar, f.h. bæjarstjórnarinnar.

    Á fundi í heilbrigðisráðuneytinu 15. júlí sl. upplýsti ráðuneytisstjóri Davíð Á. Gunnars­son bæjarráðsmenn og bæjarstjórann á Seyðisfirði að það væri ætlun heilbrigðisráðherra, að setja reglugerð sem lögleiddi stofnun Heilbrigðisþjónustu Austurlands á næstu vikum. Í máli ráðuneytisstjórans kom fram að ætlunin væri að öll sveitarfélög á Austurlandi að Höfn undanskilinni væru aðilar að téðri stofnun. Á þessum sama fundi kom fram í máli Jóns Kristjánssonar alþingismanns að ein meginrökin fyrir breytingu á heilbrigðiskerfinu á Aust­urlandi hafi verið að útrýma einmenningslæknaumdæmum“ og er tekið heilshugar undir að það sé brýnt. Benti Jón einnig á að sérstaða Seyðfirðinga fælist í að á Seyðisfirði er sjúkra­hús og starfandi tveir læknar og að mikilvægt væri að þessi sérstaða yrði áfram tryggð.
    Tilefni þessa bréfs er að tilkynna ráðuneytinu þann eindregna vilja bæjarstjórnar Seyðis­fjarðar að standa utan við fyrirhugaða stofnun. Hér á eftir verða raktar helstu ástæður þessarar óskar Seyðfirðinga en jafnframt er vísað til fyrri tillagna bæjarstjórnar Seyðisfjarð­ar sem sendar hafa verið ráðuneytinu vegna þessa máls auk þess sem vísað er til umrædds fundar þar sem sérstakar aðstæður Seyðfirðinga voru kynntar ráðuneytismönnum:
     1.      Meiri hluti bæjarstjórnar hefur haft víðtækt samráð við þá aðila sem koma að málinu. Má hér t.d. nefna lækna, hjúkrunarfólk, stjórnarmenn í sjúkrahússtjórn, minni hluta bæjarstjórnar auk þingmanna kjördæmisins. Fyrir liggur að pólitísk samstaða er um málið á Seyðisfirði.
     2.      Á Seyðisfirði er nú veitt mjög góð þjónusta á sjúkrahúsi og heilsugæslustöð og þar hefur verið komið upp vinnukerfi sem mikil sátt ríkir um meðal starfsfólks og er eindreginn vilji starfsfólks að varlega verði farið í að hrófla við því fyrirkomulagi sem nú ríkir.
     3.      Bent er á að fjármagn til boðaðra breytinga hefur ekki verið tryggt á fjárlögum.
     4.      Engan veginn liggur fyrir að unnt verði að „manna“ stöður í kjölfar þeirra breytinga sem að er stefnt. Erfiðlega hefur gengið að ráða hæft starfsfólk í heilbrigðisþjónustuna út á landsbyggðinni.
     5.      Miklar efasemdir eru um að forsendur og vinnubrögð héraðslæknis sem vann að undirbúningi stofnunar Heilbrigðisþjónustu Austurlands séu með nægilega vönduðum hætti en sú skoðun hefur rækilega verið kynnt ráðuneytisstjóra.
     6.      Algjör óvissa er hvernig til muni takast með fyrirhugaða breytingu og óvissa Seyðfirðinga mikil þar sem Seyðfirðingar hafa verið mjög sáttir við sína heilbrigðisþjónustu og vandséð að hún verði bætt með hinu boðaða fyrirkomulagi.
     7.      Það er eindregin skoðun allra sem að málinu koma að hægt sé að auka samstarf og samvinnu í heilbrigðismálum á Austurlandi með það að markmiði að auka þjónustu við íbúana og að hugmyndir ráðuneytisins um aukningu á stöðugildum hér austanlands séu heilbrigðismálum til góðs. En til að svo megi verða teljum við skynsamlegra að hafist verði handa við að manna þær stöður sem á að bæta við og manna þær stöður sem nú þegar vantar.
    Á það er minnt að síðustu ár hefur átt sér stað veruleg fólksfækkun á Seyðisfirði. Sjúkra­húsið er mikilvægur atvinnuveitandi á staðnum. Öll skerðing á starfseminni gæti haft alvar­legar afleiðingar fyrir byggð á Seyðisfirði og því nauðsynlegt að fara varlega í allar breyt­ingar.
    Á sjúkrahúsinu er nú rekin ný deild og hefur sú starfsemi þótt fara vel af stað og sannað þörf sína þrátt fyrir hrakspár ýmsra. Nauðsyn er á að núverandi starfsemi verði styrkt og sú mikla fjárfesting sem sjúkrahúsið er verði nýtt sem best. Áfram er vænst góðrar samvinnu um málefni og framtíð sjúkrahússins.
    Með bréfi þessu fylgir sú eindregna ósk/krafa bæjarstjórnar Seyðisfjarðar að fyrst um sinn verði Seyðisfjörður utan við Heilbrigðisþjónustu Austurlands. Komi til þess að stofn­unin verði sett á laggirnar, fjármagn og starfsfólk tryggt er áhugi fyrir því að ákvörðun þessi verði endurskoðuð innan skamms tíma. Það er ósk bæjarstjórnar Seyðisfjarðar að nú þegar verði hafist handa við að auka samstarf og samvinnu í heilbrigðismálum á Austurlandi. Í framhaldi af slíku samstarfi sjáum við fyrir okkur að skoða þann möguleika að sameina heil­brigðisstofnanir á Austurlandi í eina stofnun.

Bréf, dags. 10. nóvember 1998, til Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra
frá Ólafi Hr. Sigurðssyni, bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar.

    Á fundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar í gær mánudaginn 9. nóvember 1998 var gerð eftir­farandi samþykkt. „Bæjarstjórn Seyðisfjarðar beinir þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra að við ráðningu á framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands verði þess gætt að hlutlaus aðili verði ráðinn til starfsins, þ.e. að hann hafi ekki áður verið tengdur störfum heil­brigðisstofnananna á Austurlandi.“
    Tillagan var samþykkt einróma.
    Greinargerð sem fylgdi tillögunni hljóðaði svo: „Með þessari tillögu telur bæjarstjórn Seyðisfjarðar að nýr aðili eigi betra með að skipuleggja og samhæfa starfsemi þessarar stofnunar með tilliti til faglegra sjónarmiða og án allrar togstreitu.“

    Jafnframt ítreka bæjaryfirvöld við heilbrigðisráðuneytið fyrri ábendingar sínar um að á Seyðisfirði er þegar tilbúið skrifstofuhúsnæði fyrir stofnun þessa í eigu ráðuneytisins. Skrif­stofuhúsnæði þetta er í gamla sjúkrahúsinu og hefur nýlega verið gert upp til að hýsa tíma­bundið skrifstofur sýslumannsembættisins.
    Það er einlæg von okkar Seyðfirðinga að vel takist til með þessa nýju stofnun. Framtíð okkar Austfirðinga byggist meðal annars á því að vel sé staðið að heilbrigðismálum hér í fjórðungnum öllum og ég held að það sé öllum að verða ljóst að sennilegast er þessi nýja ráðstöfun, þ.e. stofnun Heilbrigðisþjónustu Austurlands, framfaraspor. Það veltur hins vegar mikið á því að samstaða verði um stofnunina á öllum þéttbýlisstöðunum. Ég tel eftir að hafa rætt þessi mál hér við marga sem er málið skylt að þeir séu almennt sammála þeirri afstöðu sem fram kemur í framangreindri tillögu.

..............



    Farið var yfir allar umsagnir og athugasemdir sem fram komu á undirbúningsstigi. Voru þær metnar í heild og var það mat ráðuneytisins að í umsögnunum kæmi ekkert það fram sem drægi úr mikilvægi þess að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Austurlandi. Þvert á móti telur ráðuneytið að flestar umsagnir styðji þau markmið sem ráðuneytið hefur stefnt að með sameiningunni. Jafnframt voru haldnir fundir með heimamönnum um einstök atriði sem fram komu í umsögnum eins og fram kemur í svari við 4. spurningu.

     7.      Sé þarna um tilraunaverkefni að ræða, hversu lengi á það að standa og hver metur niðurstöðu af því?
    Hér er ekki um tilraunaverkefni að ræða heldur framtíðarskipan sem er í samræmi við þá stefnu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að sameina í auknum mæli heilbrigðis­stofnanir um land allt með það að markmiði að efla þjónustuna þannig að hún verði sem jöfnust meðal allra íbúa landsins. Jafnframt eru rekstrarverkefni færð til þessara stofnana, en þau hefði að öðrum kosti orðið að vinna í ráðuneytinu. Á nokkrum stöðum hafa hliðstæðar skipulagsbreytingar þegar gengið í gildi svo sem á Vestfjörðum og á Suðurlandi, sbr. reglu­gerð nr. 590/1998, um sameiningu heilbrigðisstofnana, sem birt er í svari við 2. spurningu. Víða annars staðar er undirbúningur vel á veg kominn.

     8.      Hvernig verður stjórn heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi háttað? Hverjir hafa þegar verið tilnefndir eða skipaðir í stjórnina? Hvernig hljóðar erindisbréf væntan­legrar stjórnar?
    Heilbrigðisstofnun Austurlands starfar undir einni fimm manna stjórn sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði þann 31. desember síðastliðinn. Stjórnina skipa: Katrín Ásgrímsdóttir formaður, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Hreinn Sig­marsson, Þóra Kristjánsdóttir og Adolf Guðmundsson, tilnefnd af sveitarstjórnum. Varamenn tilnefndir af sama aðila eru Benedikt Sigurjónsson, Guðlaugur Valtýsson og Ólafur Hr. Sig­urðsson. Emil Sigurjónsson er tilnefndur af starfsmannaráði. Stjórninni hefur ekki verið sett sérstakt erindisbréf en í skipunarbréfi til stjórnarmanna segir að þeir séu skipaðir með vísan til 21. og 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.


     9.      Hvernig verður staðið að fjármögnun og skiptingu fjár til heilbrigðisþjónustu á Austurlandi framvegis?
    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1999 hafa ekki verið gerðar breytingar á fjármögnun heil­brigðisstofnana á Austurlandi, þ.e. rekstur þeirra er fjármagnaður með framlögum samkvæmt fjárlögum auk þess sem til koma eftir atvikum lögbundnar sértekjur, svo sem komugjöld. Framlög á fjárlögum fyrir árið 1999 eru mörkuð hverri stofnun fyrir sig og skipting fjár er því á þessu ári byggð á ákvörðun Alþingis. Í framtíðinni má gera ráð fyrir að í stað aðskil­inna fjárveitinga til þeirra stofnana sem nú heyra undir Heilbrigðisstofnun Austurlands verði ein fjárveiting til hinnar nýju stofnunar. Það verði síðan í höndum stjórnar og framkvæmda­stjóra stofnunarinnar að skipta fjárveitingum á milli rekstrareininga sem undir hana heyra.

     10.      Liggja fyrir áætlanir um fjárþörf vegna heilbrigðisþjónustu á Austurlandi til næstu ára? Ef svo er, hverjar eru meginforsendur þeirra og niðurstöður, í krónum?
    Ekki liggja fyrir sérstakar áætlanir um fjárþörf vegna heilbrigðisþjónustu á Austurlandi til næstu ára. Að jafnaði liggur fjárþörf heilbrigðisstofnana hverju sinni gleggst fyrir við frá­gang fjárlaga á ári hverju.

     11.      Hver tekur ákvarðanir um úthlutun fjár til einstakra þátta heilbrigðisþjónustu á svæðinu (einstakra heilsugæsluumdæma, sjúkrahúsa, dvalarheimila o.s.frv.)?
    Almennt er það svo að hver heilbrigðisstofnun fyrir sig sækir um tiltekna fjárveitingu við undirbúning fjárlagafrumvarps og á fjárlögum fyrir árið 1999 er hverri heilbrigðisstofnun á Austurlandi mörkuð tiltekin fjárveiting sem starfað mun eftir á yfirstandandi ári. Fjár­veitingar á þessu ári byggjast því á forsendum og tillögum hverrar stofnunar fyrir sig og á rauntölum fyrra árs eða fyrri ára. Ef margar rekstrareiningar eru undir sama hatti tekur stjórn viðkomandi stofnunar ákvarðanir um skiptingu fjár til einstakra rekstrareininga og gert verður ráð fyrir einni fjárveitingu til Heilbrigðisstofnunar Austurlands í frumvarpi til fjár­laga fyrir árið 2000.

     12.      Hvaða áhrif hafa fyrirhugaðar breytingar á heilbrigðisþjónustu á svæðinu á réttarstöðu starfsfólks, starfstilhögun og kjör starfsmanna?
    Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á réttarstöðu starfsfólks eða kjörum starfsmanna að öðru leyti en því sem rekja má til fækkunar í yfirstjórn stofnana. Verði stofnanir sem áður hafa verið reknar af sveitarfélögum sameinaðar hinni nýju stofnun mun þurfa að semja sérstaklega um kjör starfsmanna. Hvað varðar starfstilhögun bíða ákvarðanir um breytingar á þeim þætti nýrrar stjórnar og framkvæmdastjóra en markmið með sameiningunni er m.a. að bæta starfsaðstöðu starfsmanna.

     13.      Hver er staða heilbrigðismálaráðs Austurlands eftir breytingarnar?
    Staða heilbrigðismálaráðs Austurlands er óbreytt gagnvart lögum eftir breytingarnar, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Hins vegar fækkar fulltrúum í heilbrigðismálaráði en það er m.a. skipað fulltrúum tilnefndum af stjórn hverrar heilsugæslustöðar og sjúkrahúss í viðkomandi héraði. Þær skipulagsbreytingar sem nú hafa átt sér stað á Austurlandi gefa hins vegar tilefni til að endurskoða ákvæði um heilbrigðis­málaráð.


     14.      Hver er staða heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu Hornafirði í þessari nýskipan?
    Hornafjörður tekur þátt í reynslusveitarfélagaverkefni á grundvelli heimildar í lögum nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög. Heilbrigðisþjónusta á svæðinu er í samræmi við það grund­völluð á sérstökum samningi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Hornafjarðar­bæjar sem öðlaðist gildi 1. janúar 1996 og gildir til 31. desember 1999. Sú nýskipan sem komið er á með Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur því engin áhrif á heilbrigðisþjónustu í Hornafirði enn sem komið er. Hins vegar mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti skoða í samvinnu við Hornfirðinga hvaða fyrirkomulag sé æskilegt í heilbrigðisþjónustu á Hornafirði til frambúðar. Niðurstaðan mun m.a. byggjast á þeirri reynslu sem fengist hefur á grundvelli framangreinds reynslusveitarfélagaverkefnis.

     15.      Hvaða þáttum er ólokið að mati ráðuneytisins áður en breytt skipan kemst á og hvenær er gert ráð fyrir að hún gangi í gildi?
    Heilbrigðisstofnanir á Austurlandi hafa þegar verið sameinaðar. Það er hlutverk nýrrar stjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands og framkvæmdastjóra stofnunarinnar ásamt starfs­mönnum að taka frekari ákvarðanir um þá þjónustu sem veitt er á svæði stofnunarinnar og útfærsla á einstökum þáttum er í þeirra höndum. Með því telur ráðuneytið tryggt að fagþekk­ing, reynsla, sjónarmið og ábyrgð heimamanna sjálfra ráði mestu og tryggi íbúum á Austur­landi jafna, stöðuga og góða heilbrigðisþjónustu hvar sem þeir eru í sveit settir.