Ferill 82. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 837  —  82. mál.




Skýrsla



umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum af stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hval­firði, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. Beiðni um skýrslu.
    Með beiðni (á þskj. 82) frá Kristínu Halldórsdóttir og fleiri alþingismönnum er þess ósk­að að umhverfisráðherra flytji Alþingi skýrslu um mat á umhverfisáhrifum af stækkun járn­blendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Óskað er að fram komi lagalegar forsendur þeirrar niður­stöðu og ákvörðunar ráðherrans að ekki beri að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum af stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði.

II. Forsaga málsins.
    Íslenska járnblendifélagið hf. ritaði umhverfisráðuneytinu bréf 20. september 1995 1 þar sem óskað var samþykkis ráðuneytisins fyrir því að annaðhvort „þjónaði“ mat á umhverfis­áhrifum vegna 50–70% stækkunar verksmiðju félagsins ekki markmiðum laga um mat á um­hverfisáhrifum eða að slík stækkun félli undir ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, og væri því mat á umhverfisáhrifum ekki lögskylt sam­kvæmt þeim.
    Í umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis dagsettri 11. nóvember 1995 2 um erindi Íslenska járnblendifélagsins hf. sem óskað var eftir af umhverfisráðuneytinu með bréfi dag­settu 9. október 1995, 3 tekur ráðuneytið undir sjónarmið Íslenska járnblendifélagsins hf. um að stækkun verksmiðju félagsins falli undir ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 63/1993 og lögbundið umhverfismat þurfi ekki að fara fram með vísun til eftirfarandi röksemda:
         „1.     Með lögum nr. 18/1977 var veitt heimild til að reka járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.
         2.     Í 6. gr. laganna var sérstaklega kveðið á um heimild fyrir ríkisstjórnina til að standa að fjármögnun verksmiðju með tveimur 30–45 MW bræðsluofnum. Hins vegar er í lögum eða samningum sem gerðir voru á grundvelli laganna ekki neinar takmarkanir á stærð.
         3.     Við samningsgerðina var sérstaklega gert ráð fyrir síðari stækkun verksmiðjunnar og voru lóðarsamningar við það miðaðir.“

    Umhverfisráðuneytið svaraði erindi Íslenska járnblendifélagsins hf. með bréfi dagsettu 1. desember 1995. 4 Í því segir m.a.:
    „Það er mat ráðuneytisins að sú stækkun sem hér um ræðir og aukin afkastageta rúmist innan laga nr. 18/1977. Því ber fyrirtækinu ekki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, skylda til að láta meta umhverfisáhrif stækkunarinnar. Ráðuneytið beinir hins vegar þeim eindregnu tilmælum til félagsins, verði farið út í umrædda stækkun, að það láti meta áhrif hennar á umhverfið.“
    Íslenska járnblendifélagið hf. varð ekki við ósk ráðuneytisins um að láta meta áhrif þriðja ofns við verksmiðjuna á umhverfið.

III. Ákvæði til bráðabirgða II í lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Frumvarp til laga um umhverfismat var lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi af um­hverfisráðherra og tók frumvarpið miklum breytingum í meðförum þingsins. Meðal annars kom inn ákvæði til bráðabirgða II samkvæmt tillögu umhverfisnefndar og var heiti frum­varpsins breytt í frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum. Í 7. tölul. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, er kveðið á um að verksmiðjur þar sem fram fer frum- eða endurbræðsla á steypujárni, stáli og áli skuli háðar umhverfismati. Áðurnefnt ákvæði til bráðabirgða II í sömu lögum mælir fyrir um undanþágu frá þeirri skyldu sem fram kemur í 5. gr. laganna um hvaða framkvæmdir beri að setja í mat á umhverfisáhrifum, en það hljóðar svo:
    „Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyr­ir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.“
    Með þessu ákvæði var verið að fresta gildistöku laganna til 1. maí 1994 og einnig að ítreka að lögin væru ekki afturvirk, þ.e. þeim var ekki ætlað að ná til þegar ákveðinna fram­kvæmda. Í framsögu með breytingartillögum þeim sem umhverfisnefnd lagði fram sagði Tómas Ingi Olrich eftirfarandi um ákvæði til bráðabirgða II:
    „Þá er lagt til að við frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, II, sem feli í sér að fram­kvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 verði ekki háðar mati á umhverfis­áhrifum en nauðsynlegt er að gefa hlutaðeigandi aðilum nokkurn aðlögunartíma vegna þeirra breyttu réttarreglna sem lagðar eru til í frv. Með gildistöku frv., þó að það komi ekki til framkvæmda strax, er hægt að vinna að undirbúningi málsins og semja reglugerð en allri óvissu um það hvernig farið verður með leyfi sem útgefin eru fyrir 1. maí 1994 er eytt með þessu ákvæði.“ 5
    Hvergi er tekið á því hvers konar leyfi það er sem veiti undanþágu frá því að framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum. Engin vafi er hins vegar á því að það sé á valdsviði umhverfis­ráðherra að skera úr um hvort leyfi í skilningi bráðabirgðaákvæðis II sé fyrir hendi eður ei.
    Ráðuneytið hefur túlkað það svo að ef framkvæmd hefur verið heimiluð með sérlögum þá beri að líta svo á að í þeim lögum felist leyfi fyrir framkvæmdum í skilningi bráðabirgða­ákvæðis II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Sem dæmi má nefna Fljótsdals­virkjun þar sem almenn lög um raforkuver, nr. 60/1981, eru talin leyfi í skilningi bráða­birgðaákvæðis II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993.
    Í öðrum tilvikum þarf að meta sérstaklega hvort um sé að ræða leyfi í skilningi bráða­birgðaákvæðis II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Þau atriði sem geta haft áhrif á mat ráðuneytisins eru:
—    Viðhorf þess yfirvalds sem fer með leyfisveitingarvaldið.
—    Hvernig staðið var að framkvæmdum, t.d. hvort við lóðarsamninga hafi verið gert ráð fyrir aukinni starfsemi síðar og hún undirbúin með einhverjum hætti, svo sem með skipt­ingu jarðvegs.
—    Skipulag þess svæðis sem framkvæmdir eiga sér stað á.
—    Önnur leyfi, svo sem byggingarleyfi.
—    Fyrirliggjandi teikningar af framkvæmd.
    Hér er ekki um tæmandi talningu á þeim atriðum sem ráðuneytið hefur til hliðsjónar við mat á því hvort leyfi hafi verið veitt til framkvæmda í skilningi ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, en þau gefa vísbendingu um þá þætti sem ráðuneytið verður að skoða.

IV.    Lög um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, nr. 18/1977, og önnur lög er varða byggingu verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf.
    Lög voru sett um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði 11. maí 1977, nr. 18/1977. 6 Með þeim var ríkisstjórninni ætlað að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisti og ræki verksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði til framleiðslu á kísiljárni og hefði með höndum þá framleiðslu og tengdan atvinnurekstur. Með frumvarpi til laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði fylgdu tvö fylgiskjöl: Fylgiskjal I. „Greinargerð um járnblendiverksmiðu í Hvalfirði“ sem gerð var af Íslenska járnblendifélaginu hf. og dagsett 18. nóvember 1976. Fylgiskjal II. „Aðalsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Elkem-Spigerverket a/s“ sem gerður var 8. desember 1976.
    Í 3. mgr. 6. gr. laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, nr. 18/1977, er ríkisstjórninni veitt heimild til að semja við samstarfsaðila um gagnkvæmar skuldbindingar til að tryggja félaginu fjármagn til að ljúka byggingu á verksmiðju með tveimur 30–45 MW bræðsluofnum fyrir kísiljárn. Í lögunum er að öðru leyti ekki kveðið á um stærð verksmiðjunnar, enda verð­ur að gera skýran greinarmun á heimildum Íslenska járnblendifélagsins hf. annars vegar og heimildum ríkisstjórnarinnar til að fjármagna framkvæmdir hins vegar.
    Í 11. gr. laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði eru gerðar eftirfarandi kröfur sem byggjast á svipuðum eða sömu sjónarmiðum og mat á umhverfisáhrifum samkvæmt sam­nefndum lögum:
    „Hlutafélaginu ber að gera varúðarráðstafanir til að varna tjóni á umhverfi verksmiðjunn­ar við Grundartanga af hennar völdum, og skulu hönnun verksmiðjunnar, bygging og rekstur í öllu vera í samræmdi við núgildandi og síðari lög og reglugerðir hér á landi verðandi meng­unarvarnir og náttúruvernd og öryggi, heilbrigði og hreinlæti á vinnustað, og þá staðla, sem settir eru samkvæmt þeim.
    Áður en framleiðsla hefst skal gerð líffræðileg athugun á umhverfi verksmiðjunnar, þann­ig að fylgjast megi með áhrifum hennar á lífríkið. Ríkisstjórnin ákveður tilhögun athugunar­innar að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs, og skal hlutafélagið greiða allan kostnað við framkvæmd hennar.“
    Gerðar voru ýmsar rannsóknir áður en starfsemi járnblendiverksmiðjunnar hófst. Þar ber einkum að nefna rannsóknir á ryki og brennisteinssamböndum, rannsóknir á rennsli og efnasamsetningu grunnvatns, auk líffræðilegrar athugunar á umhverfi verksmiðjunnar. 7 Þær rannsóknir voru ekki einskorðaðar við rekstur tveggja ofna.
    Við skilgreiningu á verksmiðjunni er hvergi getið stærðarmarka. Á það jafnt við um lög og samninga sem undirritaðir voru á grundvelli laganna, sbr. 13. tölul. 1. gr. aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Elkem-Spigerverket a/s, hér eftir nefndur aðalsamningurinn. 8 Í 7. gr. aðalsamnings 9 er fjallað um byrjun framkvæmda, en í 1. mgr. 8. gr., um rekstur, segir:
    „… skal Járnblendifélagið halda framleiðslugetu hinna ýmsu áfanga verksmiðjunnar í horfi og framleiða kísiljárn í þeim mæli, sem æskilegur er í tæknilegu og efnahagslegu tilliti miðað við aðstæður á hverjum tíma. Framleiðslunni skal hagað í samræmi við þann grund­völl, sem lagður er með tæknisamningnum og sölusamningum, í öllum atriðum sem við á.“
    Af ákvæðinu verður ráðið að félaginu var ekki einasta heimilt heldur á það rétt á að stækka verksmiðju sína ef tæknilegar og efnahagslegar aðstæður mæla með því. Það hefur um nokkurn tíma verið vitað að það væri fjárhagslega hagkvæmt að stækka verksmiðjuna og að rekstur hennar yrði mun öruggari ef framleiðslugeta hennar væri aukin. Þá má enn fremur draga þá ályktun af orðalagi 2. mgr. 7. gr. aðalsamningsins að orðin „í upphafi“ feli í sér að ætlunin hafi verið að ráðast í frekari framkvæmdir síðar.
    Í III. kafla aðalsamningsins segir eftirfarandi í d-lið 1. mgr. 6. gr.:
    „Leigulóðarsamninginn við ríkissjóð. Leigulóðarsamningurinn skal tryggja félaginu verk­smiðjulóð, er sé nægilega stór til að rúma ekki færri en fjóra bræðsluofna, ásamt nauðsynleg­um réttindum Járnblendifélagsins til stöðugrar vatnsöflunar, er nægi til rekstursþarfa félags­ins, svo og varðandi aðstöðu til þess að losna við hvers konar úrgangsefni.“ 10
    Af framangreindu ákvæði í aðalsamningi má ráða að strax í upphafi hafi verið gert ráð fyrir stækkun verksmiðjunnar þótt lög um járnblendið hafi einungis heimilað ríkinu í byrjun að fjármagna tvo ofna.

    Í aðalsamningi kemur einnig fram í 3. mgr. 12. gr. að í sölusamningnum skuli kveðið á um bráðabirgðareglur, er beita skuli í því tilviki, að ES (Elkem-Spigerverket) eða Járn­blendifélagið byggi eða eignist nýja bræðsluofna. 11
    Á þeim tíma er lög um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, nr. 18/1977, voru samþykkt var löggjöf í byggingarmálum áfátt. Engin heildstæð löggjöf var í gildi innan málaflokksins fyrr en við gildistöku byggingarlaga, nr. 54/1978, en sett höfðu verið lög nr. 19/1905, um bygg­ingarsamþykktir með síðari breytingu nr. 84/1943 en með þeim var gildissvið laganna frá 1905 útvíkkað þannig að það næði ekki einungis til verslunarstaða heldur einnig til annarra staða sem voru skipulagsskyldir samkvæmt lögum um skipulag kauptúna. Einnig höfðu verið sett lög um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp sem ekki eru löggiltir verslunarstaðir, nr. 108/1945.
    Í 1. gr. laga um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp sem ekki eru löggiltir verslunar­staðir, nr. 108/1945, segir að sýslunefndum sé heimilt að gera byggingarsamþykktir fyrir sýsluna. Í lögunum er síðan fjallað um hvað koma eigi fram í byggingarsamþykktum, t.d. sagði í 3. tölul. 5. gr. „að engin [mætti] byggja nýtt hús úr varanlegu efni, nema hann [hefði] áður fengið til þess skriflegt leyfi byggingarnefndar“. Í 6. gr. laganna sagði enn fremur að verkefni byggingarnefndar væri í fyrsta lagi að veita byggingarleyfi.
    Byggingarsamþykkt var sett fyrir Vesturlandsumdæmi 26. apríl 1965 12 en hún tók til Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu, Hnappadalssýslu, Snæfellsnessýslu og Dalasýslu. Í 8. gr. byggingarsamþykktar Vesturlandsumdæmis er kveðið á um að verkefni byggingarnefndar séu m.a. „að veita byggingarleyfi samkvæmt uppdráttum, sem skulu gerðir eða samþykktir af Teiknistofu landbúnaðarins, þegar um lánveitingar úr Byggingasjóði og Ræktunarsjóði er að ræða“. 13
    Eftir því sem ráðuneytið hefur komist næst liggur ekki fyrir skriflegt byggingarleyfi fyrir fyrsta og öðrum áfanga járnblendiverksmiðjunnar. Hins vegar liggur fyrir lóðarsamningur og teikningar þar sem gert er ráð fyrir fjórum ofnum.

V.    Lög nr. 64/1997, um breytingu á lögum nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.
    Í tengslum við samninga um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. var lögum nr. 18/1977 breytt, sbr. lög nr. 64/1997. Breytingar sem gerðar voru á lögunum vegna stækkunarinnar snerust eingöngu um sölu ríkisins á hlut sínum í félaginu en hvergi var í breytingarlögunum vikið að því að félaginu væri veitt heimild til að stækka verksmiðjuna. Af umræðum á Alþingi má sjá að þingmenn töldu ekki þörf á að veita heimild til að stækka verksmiðjuna þar sem slík heimild væri til staðar. Í ræðum iðnaðarráðherra, Finns Ingólfs­sonar, og framsögumanns meiri hluta iðnaðarnefndar var tekið fram að stækkun verksmiðj­unnar bæri ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum þar sem stækkunin félli undir ákvæði II til bráðabirgða í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Iðnaðarráðherra Finnur Ing­ólfsson sagði m.a.:
    „Frumvarp þetta snertir einungis þann þátt laganna sem snýr að eign ríkisins á meiri hluta í járnblendifélaginu. Jafnframt er leitað heimildar til sölu á eignarhlut ríkisins á almennum markaði. Aðrar breytingar sem verða á samstarfinu kalla ekki á lagabreytingar en sérstaklega skal tekið fram að eldri samningar og gildandi lög um járnblendiverksmiðjuna í Hval­firði gera ráð fyrir að verksmiðjan stækki án þess að lagabreytingar þurfi til. Hefur þetta m.a. þau áhrif að ekki er nauðsynlegt að fram fari sérstakt mat á umhverfisáhrifum í sam­ræmi við lög nr. 63, 21. maí 1993, um mat á umhverfisáhrifum. Félagið þarf hins vegar að afla starfsleyfis fyrir þriðja ofninn og í því verður kveðið á um skilmála þar að lútandi.“ 14
    Í áliti meiri hluta iðnaðarnefndar segir m.a.:
    „Meiri hlutinn vekur athygli á því að lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, ná ekki til framkvæmda samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994. Telur hann eðlilegt að fyrir hugsanlega framtíðarstækkun járnblendiverksmiðjunnar (IV. og V. ofn) verði gert mat á um­hverfisáhrifum með tilliti til starfsemi á svæðinu í heild.“ 15
    Ekki komu fram mótmæli við framangreinda túlkun iðnaðarráðherra og meiri hluta iðn­aðarnefndar að lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, nái ekki til stækkunar járn­blendiverksmiðjunnar. Styðja þessar umræður ótvírætt þá túlkun umhverfisráðherra að Ís­lenska járnblendifélaginu hf. hafi ekki borið lagaskylda til að láta fara fram mat á umhverfis­áhrifum af þriðja ofni verksmiðjunnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993.

VI. Undirbúningur og framkvæmdir við járnblendiverksmiðjuna.
    Frá því hafist var handa við að koma á laggirnar járnblendiverksmiðju á Grundartanga var gert ráð fyrir að í fyrstu yrðu byggðir tveir ofnar en síðan yrði hafist handa við næstu tvo ofna þannig að verksmiðjan fullgerð hefði fjóra ofna.
    Í útboðsgögnum vegna undirbúnings verksmiðjulóðar járnblendiverksmiðjunnar á Grund­artanga frá maí 1975 er gert ráð fyrir í útboðsskilmálum að skipt sé um jarðveg á allri lóð verksmiðjunnar og var hafist handa við það verk 26. júlí 1975. Af stærð lóðar og umfangi jarðvegsskipta má ráða að gert hafi verið ráð fyrir fjórum ofnum.
    Aðalteikning af verksmiðjunni frá maí 1974 16 sýnir glögglega að skipulag verksmiðjunnar allrar miðast við fjóra ofna og er framtíðarstækkun sett inn á teikninguna með brotnum lín­um. Af minnisblöðum „Scope engineering design memorandum“ frá 24. janúar og 21. febrúar 1975 má sjá að í hönnun verksmiðjunnar er gert ráð fyrir að hún muni stækka um tvo ofna.
    Úttekt var gerð í júlí 1980 á tæknilegri úrlausn og kostnaðarmati vegna ofns III 17 en byrjað var á þessari úttekt áður en byggingu ofns II var lokið. Ekki var farið í stækkun verk­smiðjunnar þá vegna óhagstæðs verðs á framleiðslu hennar.
    Aðrar framkvæmdir benda enn fremur til þess að ætíð hafi verið gert ráð fyrir að ekki yrði látið staðar numið í járnblendiverksmiðjunni eftir byggingu tveggja ofna. Þannig getur Grundartangaveitan flutt allt að 30 lítra á sekúndu, en meðaltalsnotkun verksmiðjunnar er nú um 15 lítrar á sekúndu. 18 Holræsakerfið á Grundartanga er „tvöfalt kerfi“ sem byggt var upp um leið og verksmiðjan og lagt frá öllum húsum þar. Þá var einnig byggð rotþró, sem annað getur öllu svæðinu með þeirri stækkun, sem þar getur orðið innan girðingar. 19 Flutningsgeta núverandi raforkukerfis til Grundartangasvæðisins er t.d. 300 MW en járnblendi­verksmiðjan nýtir aðeins um 70 MW.

VII. Skipulag svæðisins.
    Aðalskipulag var gert fyrir stóriðnaðarsvæðið á Grundartanga 16. júní 1975 en í því er einungis afmarkaður sá reitur sem er stóriðnaðarsvæðið á Grundartanga. Deiliskipulag var ekki gert fyrir lóðina fyrr en árið 1996 og voru þá settar inn teikningar af lóð Íslenska járn­blendifélagsins hf. þar sem gert er ráð fyrir stækkun verksmiðjunnar um tvo ofna.
    Svæðisskipulag sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar tók gildi 26. apríl 1994 eða fyrir gildistöku laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Það gildir fyrir sveitarfélögin Akra­nes, Innri-Akraneshrepp, Hvalfjarðarstrandarhrepp, Leirár- og Melahrepp og Skilmanna­hrepp. Þar er gert ráð fyrir stóriðnaðarsvæði á Grundartanga.

VIII. Evrópuréttur.
    Í 74. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er vísað til viðauka XX, en í honum er að finna tilskipun frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið (tilskipun 85/337/EBE). Í 12. mgr. inngangs þeirrar tilskipunar segir:
    „Tilskipun þessi tekur þó ekki til framkvæmda sem landslög hafa þegar verið sett um í einstökum atriðum, þar eð í slíkum tilvikum hefur markmiðum hennar, þar á meðal upplýs­ingamiðlun, verið náð með lagasetningu.“
    Af þessum orðum tilskipunarinnar er ljóst að gert var ráð fyrir að framkvæmdir sem sér­stök lög hefðu verið sett um hefðu hlotið svipaða kynningu og fer fram þegar mat á um­hverfisáhrifum framkvæmda á sér stað.

IX. Lokaorð.
    Með hliðsjón af framanrituðu var það mat ráðuneytisins að ekki væru lagaleg skilyrði til þess að krefjast mats á umhverfisáhrifum af stækkun járnblendiverksmiðjunnar um einn ofn samkvæmt lögum nr. 63/1993, sbr. ákvæði til bráðabirgða II. Þrátt fyrir ábendingu ráðu­neytisins til Íslenska járnblendifélagsins hf. um að æskilegt væri að mat á umhverfisáhrifum færi fram, þótt ekki lægi fyrir því skylda samkvæmt lögum, var það ekki gert.




Fylgiskjal I.


Bréf Íslenska járnblendifélagsins hf. til umhverfisráðuneytisins.
(20. september 1995.)


(1 síða mynduð Athugið pdf-skjalið.)


Virðingarfyllst,

Íslenska járnblendifélagið hf.

Jón Sigurðsson.




Fylgiskjal II.


Bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis til umhverfisráðuneytisins.
(11. nóvember 1995.)


(1 síða mynduð Athugið pdf-skjalið.)



Fylgiskjal III.


Bréf umhverfisráðuneytis til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.
(9. október 1995.)


(1 síða mynduð Athugið pdf-skjalið.)



Fylgiskjal IV.


Bréf umhverfisráðuneytis til Íslenska járnblendifélagsins hf.
(1. desember 1995.)


(1 síða mynduð Athugið pdf-skjalið.)

Fylgiskjal V.


Frumvarp til laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði ásamt athugasemdum.
(Þskj. 187, 129. mál á 98. löggjafarþingi 1976.)


(17 síður myndaðar Athugið pdf-skjalið.)



Fylgiskjal VI.


Aðalsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Elkem-Spigerverket a/s.


(19 síður myndaðar Athugið pdf-skjalið.)

Fyrir RÍKISSTJÓRN ÍSLANDS

Gunnar Thoroddsen,
iðnaðarráðherra.

Fyrir ELKEM-SPIGERVERKET A/S

Karl Lorck,
forstjóri.



Fylgiskjal VII.


Byggingarsamþykkt fyrir Vesturlandsumdæmi.
(26. apríl 1965.)

(4 síður myndaðar Athugið pdf-skjalið.)



Fylgiskjal VIII.


Aðalteikning af verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf.
(Maí 1974.)

(1 opna mynduð)

.
     1 Fylgiskjal I. Bréf Íslenska járnblendifélagsins hf. til umhverfisráðuneytisins, dags. 20. september 1995.
     2 Fylgiskjal II. Bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis til umhverfisráðuneytisins, dags. 11. nóvember 1995.
     3 Fylgiskjal III. Bréf umhverfisráðuneytis til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, dags. 9. október 1995.
     4 Fylgiskjal IV. Bréf umhverfisráðuneytis til Íslenska járnblendifélagsins hf., dags. 1. desember 1995.
     5  Alþt. 8. maí 1993, bls. 10337.
     6 Fylgiskjal V. Frumvarp til laga um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði ásamt athugasemdum.
     7 Yfirlit yfir nokkrar rannsóknir sem gerðar voru:
1.    Árni Einarsson. Fuglalíf við Grundartanga. Rannsóknir á lífríki og umhverfi Grundartanga. Skýrsla nr. 8. Líffræðistofnun H.Í. Reykjavík, 1993.
2.    Erlendur Jónsson, Erling Ólafsson, Árni Einarsson. Könnun á landliðdýrum í nágrenni málmblendiverksmiðjunnar á Grundartanga í Hvalfirði. Skýrsla frá Náttúrufræðistofnun Íslands til Líffræðistofnunar Háskólans (samkvæmt verksamningi 1979). Rannsóknir á lífríki og umhverfi Grundartanga, skýrsla nr. 7. Reykjavík, júní 1980.
3.    Gísli Már Gíslason. Könnun á dýralífi í Eiðisvatni, Borgarfjarðarsýslu. Líffræðistofnun H.Í., fjölrit nr. 18. Rannsóknir á lífríki og umhverfi Grundartanga, skýrsla nr. 6. Reykjavík, 1983.
4.    Hörður Kristinsson, Bergþór Jóhannsson, Eyþór Einarsson. Grasafræðirannsóknir við Hvalfjörð. Líffræðistofnun H.Í., fjölrit nr. 17. Rannsóknir á lífríki og umhverfi Grundartanga, skýrsla nr. 6. Reykjavík, 1983.
5.    Jón Eldon. Þungmálmar í mosa, jarðvegi og regnvatni í nágrenni Grundartanga 1978 og 1979. Líffræðistofnun H.Í., fjölrit nr. 19. Rannsóknir á lífríki og umhverfi Grundartanga, skýrsla nr. 4. Reykjavík, júní 1983.
6.    Jón Ólafsson. Þungmálmar í kræklingi við Suðvesturland. Hafrannsóknastofnun, fjölrit nr. 10, des. 1983.
7.    Sigurbjörg Gísladóttir. Brennisteinsdíoxíðmælingar að Grundartanga frá 12.11.´85 til 10.07.´86, 2 stöðvar SO2 í næsta nágrenni verksmiðju, vindmæling á sama tíma. Hollustuvernd ríkisins.
     8  Fylgiskjal VI. Aðalsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Elkem-Spigerverket a/s, sem gerður var 8. desember 1976.
     9 Sjá fylgiskjal VI.
     10 Sjá fylgiskjal VI.
     11 Sjá fylgiskjal VI.
     12 Fylgiskjal VII. Byggingarsamþykkt fyrir Vesturlandsumdæmi frá 26. apríl 1965.
     13 Sama. Bls. 22
     14 Alþingistíðindi. 1996–97, þskj. 802, bls. 4119.
     15 Alþingistíðindi. 1996–97, þskj. 1264, bls. 5575.
     16 Fylgiskjal VIII. Aðalteikning af verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. frá maí 1974.
     17 Technical evaluation and Cost estimate for Furnace 3. Júlí 1980.
     18 Svæðisskipulagsáætlun. Sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar. 22. september 1993. Kafli 2.2.5. A: vatnsveitur.
     19 Sama. Kafli 2.2.5. D: Fráveitur