Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 866  —  449. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkisstjórn­arinnar í jafnréttismálum.

     1.      Hvað líður störfum samráðsnefndar utanríkisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis um jafnrétti kynjanna í alþjóðastarfi, sbr. lið 13.1 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna?
    Sökum tilflutninga innan utanríkisþjónustunnar hefur dregist að skipa samráðsnefnd utan­ríkisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis um jafnrétti kynjanna í alþjóðastarfi. Utanríkisráðu­neytið hefur þegar ákveðnar hugmyndir um hvern það muni skipa í nefndina fyrir sína hönd og mun á næstunni leita eftir tilnefningu félagsmálaráðuneytisins.

     2.      Er búið að setja vinnureglur um sem jafnastan hlut kynjanna í stöðum hjá alþjóðlegum stofnunum, sbr. lið 13.2 í framkvæmdaáætluninni?
    Ekki er á valdi utanríkisráðuneytisins að setja fjölþjóða- og alþjóðastofnunum vinnureglur um hvernig staðið skuli að sem jöfnustum ráðningum kynjanna til þeirra. Ráðuneytið hefur hins vegar fylgt þeim sjónarmiðum að konur skuli að öðru jöfnu hafa forgang til starfa á vett­vangi þeirra. Á síðustu fimm árum hefur ráðuneytið veitt samtals sjö manns leyfi frá störfum til þess að vinna tímabundið hjá fjölþjóða- og alþjóðastofnunum, þar af fjórum konum. Eini Íslendingurinn sem ráðuneytið hefur stutt við ráðningu hjá fjölþjóða- eða alþjóðastofnun síð­an þingsályktunartillagan var samþykkt er kona.

     3.      Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála innan utanríkisráðuneytisins og hjá þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 13.5 í framkvæmdaáætluninni? Ef svo er, hvað hef­ur sú könnun leitt í ljós?
    Ráðuneytið hefur ekki gert sérstaka könnun á jafnréttismálum hjá stofnunum sem undir það heyra. Að því er ráðuneytið sjálft varðar hefur heldur ekki farið fram sérstök könnun enn, en upplýst skal að nú starfa 152 starfsmenn í ráðuneytinu og hjá sendiskrifstofum, þar af 72 konur eða 47%. Af þeim eru háskólamenntaðir sérfræðingar samtals 79, þar af 19 kon­ur eða 24%. Af þessum hópi eru diplómatískir starfsmenn samtals 85, þar af 21 kona eða 25%. Þess skal getið að síðustu tvö ár hafa verið ráðnir tólf sérfræðingar sem diplómatískir starfsmenn í utanríkisþjónustuna. Þar af eru sex konur og er ætlunin að auka hlut kvenna eftir föngum á næstunni.

     4.      Hvað líður gerð jafnréttisáætlana innan ráðuneytisins og hjá þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 13.5 í framkvæmdaáætluninni?
    Ráðuneytið hefur ekki gert sérstaka áætlun um jafnréttismál innan ráðuneytis, en eins og framangreindar tölur sýna fer hlutur kvenna vaxandi og er það í samræmi við áherslur ráðu­neytisins um fjölgun kvenna í ábyrgðarstöðum í utanríkisþjónustunni. Gagnaöflun fyrir stofnanir ráðuneytis er ekki hafin en hún mun fara fram og í framhaldi af því er ætlunin að gera sérstakar áætlanir um jafnréttismál.

     5.      Hafa verið haldin jafnréttisnámskeið fyrir þá starfsmenn sem vinna á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess að verkefnum í þróunarlöndum, sbr. lið 13.6 í fram­kvæmdaáætluninni?
    Ráðuneytið hefur ekki sent starfsmenn til starfa í þróunarlöndunum síðan framkvæmda­áætlunin var samþykkt. Þrátt fyrir að liður 13.6 í framkvæmdaáætluninni taki ekki til undir­stofnana íhugar ráðuneytið að beita sér fyrir því að Þróunarsamvinnustofnun standi fyrir slíkum námskeiðum þegar hún sendir út starfsmenn í framtíðinni.