Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 867  —  542. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    IV. kafli laganna, Ferðamálasjóður, 24.–34. gr., fellur brott og breytist kafla- og greinatala samkvæmt því.

2. gr.

    Byggðastofnun yfirtekur eignir og skuldir, réttindi og skyldur Ferðamálasjóðs miðað við stöðu þeirra 1. júní 1999.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ferðamálasjóður var stofnaður með lögum um skipulag ferðamála, nr. 29/1964, og hefur því verið starfræktur um tæplega 35 ára skeið. Fram til ársins 1985 var stjórn hans í höndum Ferðamálaráðs en með lögum nr. 79/1985 var því breytt þannig að sérstök stjórn var sett yfir sjóðinn. Í kjölfar þess var umsýsla sjóðsins færð frá Ferðamálaráði til Framkvæmdasjóðs Íslands þar sem hún hefur verið síðan. Búnaðarbanki Íslands hefur þó séð um vörslu skjala, útborgun lána og innheimtur fyrir sjóðinn. Tilgangurinn með stofnun Ferðamálasjóðs var sá að stuðla að byggingu gisti- og veitingahúsa í landinu og bæta þannig skilyrði til móttöku innlendra og erlendra ferðamanna. Með lögum nr. 60/1976 var tilgangi hans þó breytt þannig að hann varð stofnlánasjóður þeirra starfsgreina sem ferðaþjónusta byggist einkum á. Hlut­verk sjóðsins var þá að stuðla að þróun íslenskra ferðamála með lánveitingum.
    Skilyrði starfsgreina í ferðaþjónustu voru allt önnur við stofnun sjóðsins. Aðgangur fyrir­tækja að lánsfé var takmarkaður og litlir möguleikar fyrir fyrirtæki af þessu tagi að njóta slíkrar fyrirgreiðslu. Var það mjög í samræmi við almenna þróun í atvinnurekstri að hafa slíkan sjóð til stuðnings þessari atvinnugrein. Lánaskilmálar voru hagstæðir og aðgangur að fjármagni fremur auðveldur.
    Sjóðurinn naut ríkisframlags nánast á hverju ári fram til ársins 1992 en þá var ekkert ríkisframlag veitt til hans á fjárlögum og hefur ekki verið síðan. Heildaruppfært ríkisframlag miðað við lánskjaravísitölu er metið á 386 millj. kr. yfir starfstíma sjóðsins. Eigið fé hans var hæst 247 millj. kr. 1989 en hefur síðan minnkað með hverju árinu og var í árslok 1997 112 millj. kr.
    Afkoma sjóðsins hefur verið sveiflukennd á undanförnum árum. Niðurstaða rekstrarreikn­ings sýnir að á árunum 1992–97 var neikvæð afkoma í fjögur ár af sex. Þar af var afkoman langlökust 1997 en þá tapaði sjóðurinn rösklega 23 millj. kr. Í árslok 1998 var skuldastaða Ferðamálasjóðs rúmar 964 millj. kr. Sjóðurinn skuldar Norræna fjárfestingarbankanum 394 millj. kr. en hefur nýlega tekið lán að upphæð 3 milljónir Bandaríkjadala hjá Commerz-Bank með nokkuð hagstæðari kjörum. Sjóðurinn er með Cad-hlutfallið 10,8 en svo lág eiginfjár­staða setur hann í vanda. Sjóðurinn sótti um 60 millj. kr. fjárveitingu á fjárlögum ársins 1999 en ekki var orðið við því.
    Útistandandi lán hjá sjóðnum í árslok 1998 voru 1.051 millj. kr. Af þeirri fjárhæð voru 805 millj. kr. vegna hótel- og gistiheimila, tæpar 78 millj. kr. vegna veitingastaða, rúm 81 millj. kr. vegna afþreyingar, rúmar 66 millj. kr. vegna ferðaþjónustu bænda og að lokum tæp­ar 20 millj. kr. vegna flutningastarfsemi sem tengist ferðaþjónustu. Fjöldi lánþega hjá Ferða­málasjóði var 158 í árslok 1998. Á afskriftareikningi voru um 37 millj. kr. í ársbyrjun 1998. Árið 1998 bárust 34 lánsumsóknir og samþykkt voru alls 154,6 millj. kr. lán til 18 aðila. Ferðamálasjóður á enn þá húseignirnar Aðalstræti 9, 9a og 11a á Bolungarvík. Enn fremur á sjóðurinn Aðalgötu 22 á Siglufirði, Heiðarveg 3 og Herjólfsgötu 4 í Vestmannaeyjum. Sjóðurinn átti í ársbyrjun hlutafé í þremur hótelfyrirtækjum, Þór hf. í Stykkishólmi, Hótel Húsavík og Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Hlutafjáreign þessi var metin á 15 millj. kr. í bráðabirgðauppgjöri sjóðsins 30. september 1998.
    Útlán sjóðsins eru háð kjörum á þeim lánum sem sjóðurinn tekur hverju sinni. Undanfarin ár hafa verið tekin lán sem eru bundin gengi í Bandaríkjadölum. Útlán eru því á sama hátt bundin við gengi í bandaríkjadölum. Þau eru til allt að 25 ára og vextir eru 2% yfir milli­bankavöxtum í London, (sex mánaða libor) auk 0,25% ríkisábyrgðargjalds. Ferðamálasjóður tekur fasteignaveð eða aðrar jafngóðar tryggingar fyrir lánum sínum.
    Á árunum 1995–97 voru önnur rekstrargjöld, þar með talin stjórnarlaun, launatengd gjöld, þóknun til Búnaðarbanka Íslands og annar rekstrarkostnaður, samtals 39 millj. kr. eða 12,7 millj. kr. á árinu 1995, 11,8 millj. kr. 1996 og 14,5 millj. kr. 1997.
    Fjármunatekjur sjóðsins 1997 voru 89,5 millj. kr. en fjármagnsgjöld voru 76,8 millj. kr. Hreinar vaxtatekjur 1. janúar til 30. september 1998 voru 12,2 millj. kr.
    Dregið hefur úr umsvifum sjóðsins á undanförnum árum. Hann hefur ekki notið ríkisfram­lags eins og áður var nefnt og vaxtamunur inn- og útlána sjóðsins er svo lítill að hreinar fjár­munatekjur duga ekki fyrir rekstrarkostnaði hans. Auk þess hefur aðstaða á fjármagnsmark­aði gjörbreyst á allra síðustu árum, m.a. með tilkomu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og aukins svigrúms til útlána hjá viðskiptabönkum. Spyrja má hvort lánskjör sjóðsins hafi í raun verið hagstæðari að teknu tilliti til þess öryggis sem hann nýtur með því að ganga fremst í veðröð viðkomandi tryggingar. Þá má bæta við að Byggðastofnun hefur aukið hlutfall sitt af útlánum til ferðaþjónustu og á nú útistandandi ámóta upphæð og Ferðamálasjóður. Í mörg­um tilvikum eru lántakendur beggja þeir sömu.
    Það er mat ráðuneytisins að Ferðamálasjóður hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki í gríð­arlegri uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi á starfstíma sínum. Engu síður og að teknu tilliti til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Byggðastofnun geti sinnt hlutverki sjóðsins á hagkvæmari hátt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála,
nr. 117/1994, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er fyrirhugað að leggja niður starfsemi Ferðamálasjóðs og að Byggðastofnun yfirtaki eignir hans og skuldir. Báðir sjóðirnir eru nú er nú í C–hluta ríkissjóðs í fjár­lögum. Er því ekki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi áhrif á útgjöld A-hluta ríkissjóðs. Margir af lántakendum hjá Ferðamálasjóði eru þeir sömu og hjá Byggðastofnun og er talið að þar megi ná fram nokkru hagræði í umsýslu þessarar lánastarfsemi.